Skattsvik

100. fundur
Fimmtudaginn 12. mars 1992, kl. 11:17:00 (4242)


     Fjármálaráðherra (Friðrik Sophusson) :
    Virðulegi forseti. Nokkrar fyrirspurnir fjalla um þessi málefni og reyndar ein þáltill. sem verður til umræðu væntanlega síðar í dag. Sem svar við þessari tilteknu fsp. vil ég í fyrsta lagi benda á að þegar rætt er um virðisaukaskattinn og innheimtuna á honum verðum við að gera okkur grein fyrir því að sífellt safnast upp gamlar skuldir frá fyrri árum, virðisauka- og söluskattsskuldir sem eru óinnheimtanlegar. Þess vegna sýna tölur stundum að innheimtan er lakari en hún raunverulega er því ýmsar þessara gömlu skulda eru enn á blaði sem eignfærðar þótt ljóst sé að þær séu ekki innheimtanlegar.
    Í öðru lagi vil ég taka það fram að fyrir ekki mörgum árum var samþykkt á hinu háa Alþingi að breyta lögum þannig að kröfur ríkissjóðs vegna virðisaukaskattsskulda yrðu ekki forgangskröfur. Þetta leiddi til breyttrar innheimtu af hálfu ríkissjóðs sem er mun strangari núna heldur en verið hefur og hefur í seinni tíð verið að breytast þannig að gengið er mun fastar eftir virðisaukaskattsskilum en nokkurn tíma fyrr.
    Ég tel tímabært að gera úttekt á umfangi skattsvika eins og lögð hefur verið fram till. um hér á hinu háa Alþingi. Með þeim hætti væri unnt að meta hvort þær ráðstafanir sem gerðar hafa verið frá árinu 1986 hafi haft einhver áhrif á að draga úr skattsvikum. Í till. er lagt til að niðurstaða liggi fyrir 1. okt. 1992. Ég tel það of stuttan tíma til að vinna þetta verk sem er mjög umfangsmikið og mun ég því leggja til að niðurstöður skuli liggja fyrir eigi síðar en í mars 1993. Unnið er að því á skattstofum landsins að gera samanburð á virðisaukaskattsskilum við ársreikning allra gjaldenda, en þessu verki ætti að ljúka á næstu vikum. Niðurstöður þessa samanburðar kunna að gefa tilefni til frekari athugana og aðgerða.
    Að því er varðar eftirlit með atvinnurekstrarframtölum hafa verið gerðar breytingar á skipulagi skattstofunnar sem miða að því að efla þetta eftirlit. Á árinu 1991 tók til starfa ný deild hjá embætti ríkisskattstjóra, endurskoðunardeild atvinnurekstrarframtala sem vinnur að yfirferð skattframtala stærri atvinnurekstraraðila og mótar reglur um meðferð skattlagningar í atvinnurekstri. Deildin mun jafnframt vinna að upptöku staðlaðra tölvutækra skattskila sem mun auka möguleika á skipulögðu eftirliti. Enn er ekki komin mikil reynsla á þessa starfsemi en miklar vonir eru bundnar við hana. Skattrannsóknir þarf að efla og flýta þarf eins og unnt er rannsókn mála sem eru tekin fyrir.
    Á síðasta ári var í gangi sérstakt átak með eftirliti á tekjuskráningu m.a. með sjóðvélum. Gerð var breyting á lögum um virðisaukaskatt þar sem skattrannsóknastjóra er veitt heimild til að loka fyrirtækjum ef þessi mál eru ekki í lagi. Ég tel nauðsynlegt að skipulagt skatteftirlit sé stöðugt í gangi, t.d. að á hverju ári séu teknar til skoðunar ákveðnar atvinnugreinar. Enginn vafi er á því að gott og virkt skatteftirlit hefur fyrirbyggjandi áhrif.

    Að lokum vil ég nefna nauðsyn þess að taka lög um bókhald til endurskoðunar eins og lagt var til í skýrslu nefndarinnar frá árinu 1986. Skoða þarf bókhaldseftirlit og viðurlög við brotum bókhaldsskyldra aðila. Í þessu sambandi hef ég ákveðið að skipa nefnd til að annast þetta verkefni þannig að unnt verði að leggja fram frv. til laga um breytingu á lögum um bókhald á næsta ári.
    Þetta vildi ég, virðulegi forseti, að kæmi fram sem svar mitt við fsp. frá hv. þm. Össuri Skarphéðinssyni.