Skattsvik

100. fundur
Fimmtudaginn 12. mars 1992, kl. 11:21:00 (4243)


     Ólafur Ragnar Grímsson :
    Virðulegi forseti. Formaður þingflokks Alþfl. hefur séð séstaka ástæðu til þess á Alþingi að knýja fjmrh. sinn til að svara því hvaða ráðstafanir hann hyggist gera til þess að stemma stigu við skattsvikum. Svar ráðherrans var hér: Hann ætlar að gera úttekt og hann ætlar að skipa nefnd. Hann ætlar ekki að endurvekja eftirlitssveitirnar, hann ætlar ekki að fara í sérstaka herferð til að vara fyrirtækin við. Hann ætlar bara að setja málið í nefnd og hann ætlar að gera úttektir.
    Hæstv. fjmrh. sagði áðan, þegar hann var að réttlæta það af hverju hann hefði hætt að láta eftirlitssveitirnar starfa og af hverju hann hefði hætt að auglýsa með þeim hætti að hvetja fyrirtæki til að vera með sjóðvélar og segja að annars yrði þeim lokað, að ekki hafi verið ætlaðir fjármunir í það í fjárlagafrv. En hvað gerði hæstv. ráðherra? Hann var ekki búinn að vera nema fáeinar vikur í fjmrn. þegar hann lét kaupa nýjan ráðherrabíl. Það var ekki ein króna fyrir því í fjárlagafrv. Hann lét síðan kaupa nýjan jeppa í ráðuneytið. Gamli jeppinn var ekki nógu góður. Hann keypti tvo nýja bíla á fyrstu mánuðum sínum í fjmrn., kom svo til þingsins einhvern tíma um haustið og bað um að fá þetta staðfest. Nei, hæstv. fjmrh. Ef vilji hefði verið fyrir hendi til að halda áfram eftirlitssveitunum eða til að halda áfram að vara fyrirtækin við ef þau stæðu ekki í skilum með virðisaukaskattinn og loka þeim þá, hefði fjmrh. getað gert það. Í stað þess hefur Sjálfstfl. enn á ný lagt niður allar sérstakar aðgerðir sem hamla gegn skattsvikum og stendur núna frammi fyrir því að á fjórum mánuðum síðasta árs hrundi innheimtan á virðisaukaskattinum. Það vandamál sem hæstv. fjmrh. stendur núna frammi fyrir er að innheimtan á virðisaukaskattinum er að hrynja. Hann ætlar ekki að fara í neina herferð, engar eftirlitssveitir. Hann ætlar bara að setja nefnd í málið.