Skattsvik

100. fundur
Fimmtudaginn 12. mars 1992, kl. 11:29:00 (4249)

     Fjármálaráðherra (Friðrik Sophusson) :
    Virðulegi forseti. Mig langar fyrst að geta þess að sú nefnd sem var rætt um áðan á að endurskoða lög um bókhald. Það er aðeins einn lítill angi þessa máls. Ég tek hins vegar undir það sem sagt hefur verið um skatteftirlit og skattaframkvæmd. Það þarf auðvitað stöðugt að vera í gangi. Það kom reyndar rækilega fram í svari mínu að unnið er að því máli og hefur verið unnið.
    Nokkuð hefur verið rætt um innheimtuna á sl. ári og hv. 8. þm. Reykn. hefur a.m.k. í þrígang í dag reynt að gera mikið veður út af því máli. Ég held að hann hafi ekki rétt fyrir sér að innheimtan hafi hrunið síðustu fjóra mánuði ársins. Ég held að skýringin sé miklu flóknari, hún felist m.a. í því að um ofáætlaðar tekjur af virðisaukaskatti hafi verið að ræða á sl. ári, að menn hafi ekki þekkt framkvæmdina nægilega vel, að ekki hafi verið tekið nægilega mikið tillit til þess að stór hluti af innheimtu ársins --- vegna þess að fjárlög eru á greiðslugrunni --- eru gamlar skuldir sem búið var að innheimta eða höfðu þá glatast. Þannig má finna ýmsar skýringar á þessu og allra síst trúi ég því að hv. þm. meini það sem hann er að segja að eitthvað hafi verið slakað á innheimtunni. Það hefur komið mjög glöggt fram að það hefur verið hert mjög á henni upp á síðkastið og því hefur verið fylgt í hvívetna, enda eru kröfur um innheimtu virðisaukaskatts ekki lengur forgangskröfur eins og áður var.
    Hv. þm. Ólafur Ragnar Grímsson hefur enn á ný sagt að ég hafi sagt upp ákveðnum starfsmönnum. Ég vil ítreka það, ef það hefur farið fram hjá mönnum að um tímabundna ráðningu var að ræða samkvæmt þeim fjárlögum sem þá voru í gildi og voru samin og samþykkt af þáv. meiri hluta þingsins. Af einhverjum einkennilegum hvötum virðist hv. þm. telja það sínum málstað til framdráttar að benda á að ráðherrabíll hafi verið keyptur fyrir fjmrn. Þegar ég kom þangað taldi ég ekkert óeðlilegt að ráðherrabíll væri í fjmrn. eins og öðrum ráðuneytum. Mér fannst ekki eðlilegt að hafa þann hátt á í því ráðuneyti eins og hafði tíðkast að kalla jeppann, sem þar var, bíl ráðuneytisins, en hann var samt notaður að stórum hluta til að keyra viðkomandi ráðherra. Og þótt ekki hafi verið ráðinn sérstakur bílstjóri til þess keyrði oftast einn af starfsmönnum ráðuneytisins viðkomandi ráðherra þegar þeir þurftu að bregða sér af bæ. Ég taldi miklu eðlilegra, heiðarlegra og lausara við tvískinnung að keyptur væri ráðherrabíll eins og er í öðrum ráðuneytum og að ráðherrabílstjóri keyrði slíkan bíl. Ég vænti þess að hv. þm. skilji þá afstöðu mína.