Kennaranám með fjarkennslusniði

100. fundur
Fimmtudaginn 12. mars 1992, kl. 11:54:00 (4257)

     Menntamálaráðherra (Ólafur G. Einarsson) :
    Hæstv. forseti. Fyrst vil ég vísa í svar mitt við fsp. á þskj. 39 frá Einari Má Sigurðarsyni um dreifða og sveigjanlega kennaramenntun, fyrr í vetur.
    Svo sem kunnugt er hefur um árabil verið alvarlegur skortur á kennurum með full kennsluréttindi í grunnskólum á landsbyggðinni. Tilfinnanlegast hefur þetta ástand verið á Vestfjörðum þar sem um 49% kennara eru með full réttindi. Á Austurlandi eru um 60% og á Norðurlandi vestra eru um 63% með full réttindi.

    Frá því á árinu 1989 hafa menntmrn. og Kennaraháskóli Íslands unnið að undirbúningi kennaranáms með fjarkennslusniði sem nefnt hefur verið dreifð og sveigjanleg kennaramenntun. Í þessari hugmynd felst að jafnhliða hinu hefðbundna kennaranámi verði kennaraefnum gert kleift að stunda námið að mestu í heimabyggð sinni, einkum í þeim landshlutum sem kennaraskortur er mestur. Þannig gæti tilhögun námsins verið eftirfarandi:
    Námskeið í heimavistarskólum á landsbyggðinni. Styttri námskeið námshópa á heimasvæði. Fjarnám og leiðsögn með aðstoð síma og annarra nútímasamskiptatækni.
    Mikilvægt er að menn geri sér ljóst að dreifð og sveigjanleg útfærsla þriggja til fjögurra ára háskólanáms er kostnaðarsöm aðgerð, bæði þegar um skipulagningu og framkvæmd er að ræða. Í þessu sambandi þarf að semja sérstaka kennsluskrá, þróa fjarkennsluaðferðir er falla með eðlilegum hætti að því námi sem hér um ræðir, undirbúa námsgögn og kosta kennslu fjarri miðstöð kennaramenntunar í landinu.
    Í desember sl. lauk störfum nefnd sem ég skipaði til að fjalla um framtíðarskipan náms við Kennaraháskóla Íslands, sbr. 13. og 14. gr. og ákvæði til bráðabirgða í lögum nr. 29/1988, um skólann þar sem gert er ráð fyrir að námið lengist úr þremur árum í fjögur innan sex ára frá gildistöku laganna.
    Í framhaldi af áliti nefndarinnar ritaði ég rektor Kennaraháskólans bréf 19. des. 1991 þar sem því var lýst yfir að menntmrn. hefði ákveðið að stefnt skyldi að því að lenging almenns kennaranáms í fjögur ár við Kennaraháskóla Íslands kæmi til framkvæmda frá og með skólaárinu 1993. Enn fremur segir í bréfinu:
    ,,Þar sem útlit er fyrir að erfiðleikar við að fá réttindakennara til starfa aukist vegna lengingar námsins, a.m.k. tímabundið, vill menntmrn. taka upp viðræður við Kennaraháskóla Íslands um möguleika á því að skipuleggja fjögurra ára nám við skólann þannig að því ljúki með kandídatsári.``
    Eins og fram kemur í áliti nefndarinnar hefur Kennaraháskóli Íslands hug á að bjóða fram einu sinni 90 eininga dreift og sveigjanlegt kennaranám m.a. til þess að koma í veg fyrir að heilt ár líði án þess að kennarar útskrifist vegna lengingar hins almenna kennaranáms. Menntmrn. hefur ákveðið að heimila Kennaraháskóla Íslands að hefja þetta nám vorið 1993 en verði það gert útskrifast nemendur úr því námi haustið 1996. En það ár mundu annars engir kennarar útskrifast vegna lengingar hins almenna kennaranáms við Kennaraháskóla Íslands. Frá því að ákvörðun var tekin um þetta hefur Kennaraháskólinn fjallað um málið og hefur m.a. verið ákveðið að umsjón námsins verði innan skorar fyrir almennt kennaranám en ekki mynduð sérstök skor.
    Kennaraháskóli Íslands stefnir að því að auglýsa og kynna námið eigi síðar en í maí nk. og verður það gert í samráði við fræðslustjóra landsins. Sérstök áhersla verður lögð á að fá kennaranema úr þeim fræðsluumdæmum þar sem kennaraskorturinn er mestur.