Málefni innflytjenda

100. fundur
Fimmtudaginn 12. mars 1992, kl. 12:12:00 (4266)

     Anna Ólafsdóttir Björnsson :
    Virðulegi forseti. Íslendingar hafa búið við einangrun um margra alda skeið. Sú einangrun er nú að rofna. Íslendingar sækja í æ ríkari mæli utan til náms og starfa. Enn fremur hafa fleiri útlendingar flust til landsins til lengri eða skemmri dvalar en nokkru sinni fyrr nú á undanförnum árum nema e.t.v. þegar Norðmenn komu hingað á landnámsöld. Þeir urðu raunar fljótlega Íslendingar og vænta má þess að hluti þeirra útlendinga sem nú eru á landinu verði það einnig.
    Nú eru um 5.400 erlendir ríkisborgarar búsettir á Íslandi. Þeir eru af ýmsum uppruna. Auk þess eru íslenskir ríkisborgarar sem eru af erlendu bergi brotnir að sjálfsögðu búsettir hér á landi. Þetta fólk vinnur við margvísleg störf. Víða um landið ber það fiskvinnsluna uppi. T.d. kom nýlega fram í fjölmiðlum að um fjórðungur launþega á Tálknafirði í febrúar var erlendur. Þeir voru flestir í fiskvinnslu. Fram hefur komið hjá forsvarsmönnum fiskvinnslufyrirtækja að þeir munu mæta þeim samdrætti sem sums staðar er að verða með því að segja útlendingunum upp fyrst og samkvæmt reynslu annarra þjóða gæti þetta kallað á að grípa þyrfti til einhverra aðgerða hér á landi. Það er þó ekki ljóst á hvern hátt það er.
    Fjölgun erlendra ríkisborgara var 12% á sl. ári hér á landi á móti 1,2% fjölgun Íslendinga eða tífalt meiri. Það hefur einnig komið í ljós að samsetning þessa hóps er að breytast frá því sem áður var. Fjölgun Austur-Evrópubúa og Asíubúa hefur verið mest. Ég nefni sem dæmi að Pólverjar hér á landi voru 93 árið 1988 en árið 1991 voru þeir orðnir 482. Og frá Filippseyjum voru hér árið 1988 búsettir 67 en eru nú 133. Ég tek þetta bara sem dæmi.
    Oft og tíðum hefur þetta fólk ekki þá málakunnáttu sem þörf krefur til þess að aðlagast samfélaginu. Það er ekki kunnugt okkar löggjöf og þeim réttindum og skyldum sem það ber með búsetu sinni hér. Ég leyfi mér því að leggja eftirfarandi fsp. Guðrúnar J. Halldórsdóttur, varaþingkonu Kvennalistans, fyrir hæstv. félmrh.:
  ,,1. Hvaða vandamál hafa sprottið upp við komu hins fjölmenna og fjölbreytta hóps útlendinga sem nú er að flykkjast til landsins?
    2. Hvernig hefur verið brugðist við þeim vandamálum?
    3. Hvernig gætir ráðherra þess að atvinnuréttindi og félagsleg réttindi þessa fólks verði ekki fyrir borð borin?``