Málefni innflytjenda

100. fundur
Fimmtudaginn 12. mars 1992, kl. 12:21:00 (4268)

     Svavar Gestsson :
    Virðulegi forseti. Ég verð nú að játa það, og er örugglega einn um það hér í salnum, að ég náði eiginlega engu af svari hæstv. félmrh. Það var svo pakkað af upplýsingum að ég hafði ekki við að skrá þær í hausinn á mér og ég er vonandi eini þingmaðurinn sem svo er komið fyrir, en ég verð að segja það að ég teldi að það væri full þörf á því að koma þessum upplýsingum á framfæri með skriflegum hætti í þingið. Ég tók þó eftir einni setningu sem hæstv. félmrh. sagði. Hún var þessi: ,,Lögin um atvinnuréttindi útlendinga frá 1982 tryggja mjög vel stöðu útlendinga hér á landi.`` Þetta er rangt. Staðreyndin er sú að framkoma Íslendinga við útlendinga yfirleitt sem eru kallaðir hingað til starfa af ýmsu tagi er fyrir neðan allar hellur. Það er hlutur sem við eigum bara að viðurkenna. Það fólk sem er t.d. ráðið í fiskvinnsluna hér í stórum stíl býr við aðstæður í sumum tilvikum sem enginn Íslendingur mundi láta bjóða sér. Og þetta er okkur til skammar. Sömuleiðis aðbúnaður og fræðsla t.d. gagnvart þeim filippeysku konum sem hafa komið hingað til lands í stórum stíl á undanförnum árum og munu vera hér á annað hundrað, aðbúnaður og framkoma gagnvart þessu fólki er fyrir neðan allar hellur. Þannig að ég hygg að hið íslenska velferðarkerfi, sem við eigum að geta verið stolt af, þegar við förum yfir sviðið og skoðum hvar það er lakast, þá er það á þessu sviði. Framkoman við þetta fólk er Alþingi Íslendinga og ríkisstjórn Íslands til skammar. Þó að ég hafi ekki heyrt ræðu hæstv. félmrh. í heild, þá heyrði ég þó það að ég taldi ástæðu til að mótmæla þessari hálfu setningu sem ég náði alveg sérstaklega.