Málefni innflytjenda

100. fundur
Fimmtudaginn 12. mars 1992, kl. 12:23:00 (4270)

     Anna Ólafsdóttir Björnsson :
    Virðulegi forseti. Svör hæstv. félmrh. skildu raunar eftir fleiri spurningar en þau svöruðu. Þær spurningar eru ekki síst siðferðilegar og spurningar um afstöðu. Þeim spurningum hef ég ekki fengið svarað þótt í fsp. fælist í rauninni ákveðin krafa um slíkt.
    Ég er ekki sammála þeirri túlkun hæstv. félmrh. að ekki hafi sprottið upp vandamál við komu hins fjölmenna og fjölbreytta hóps útlendinga sem nú er að flytjast til landsins. Ég er heldur ekki sammála því að þetta sé ekki nokkuð stór hópur sem er að koma til landsins þó að hann hafi ekki stækkað að undanförnu. Vandamálin eru ekki síst vandamál þess fólks sem kemur hingað, fólks sem kemur hingað og ber uppi fiskvinnsluna vegna þess að fiskvinnsla mjög víða um land hefur verið borin uppi af útlendingum. Mér er ekki ljóst hvernig hægt er að koma við t.d. fræðslu um íslenskt réttarfar, um réttindi og skyldur og tungumálafræðslu í fiskvinnslu. Mér er heldur ekki ljóst hver staða þessa fólks er þegar þær uppsagnir sem núna eru víða boðaðar munu ná fram að ganga. Og ég er afskaplega hrædd um að margt af þessu fólki viti það ekki heldur og það er auðvitað það sem málið snýst um.
    Þá er það spurningin hvernig næst til þessa fólks, þessa fjölbreytta hóps sem er hérna. Það hefur komið í ljós að hópur útlendinga búsettur hér á landi hefur breyst ákaflega mikið á undanförnum árum og stærri hópur kemur úr framandi menningarsvæðum og býr stundum við þær aðstæður að ólíklegt að við náum til hans. Og það kom raunar fram að í umræðu um þáltill. sem hv. kvennalistaþingkona Danfríður Skarphéðinsdóttir flutti hér á þinginu og fékk jákvæða afgreiðslu að það er eitt meginvandamálið hvernig næst til þessa hóps. Það vandamál er ekki leyst. Því miður kemur það fyrir að konur sem koma hingað t.d. frá Asíu komast fyrst í kynni við aðra en þá sem beinlínis stóðu fyrir því að þær komu hingað þegar þær koma inn í Kvennaathvarf. Þetta er staðreynd og þetta er sorgleg staðreynd. Þetta er aðeins einn hópurinn.
    Ég vek athygli á því að fjöldi fólks sem hefur komið frá nokkrum löndum Austur-Evrópu og Asíu hefur fjórfaldast á síðustu þremur árum á meðan færri eru hér frá Norðurlöndum en áður þannig að þetta hlýtur að kalla á annars konar aðgerðir en áður hafa verið.