Málefni innflytjenda

100. fundur
Fimmtudaginn 12. mars 1992, kl. 12:28:00 (4272)

     Kristín Ástgeirsdóttir :
    Virðulegi forseti. Það kom fram í máli hæstv. félmrh. að hún hefði upplýsingar sínar frá Rauða krossinum og Útlendingaeftirlitinu. Ég tel ástæðu til að halda að Útlendingaeftirlitið hafi ekki miklar upplýsingar um það hvernig fólki líður og vegnar hér á landi. Ég tel að Rauði krossinn viti ýmislegt um það. En ég hefði haldið að það væri nær að leita til Kvennaathvarfsins og Námsflokka Reykjavíkur, svo dæmi séu nefnd, þar sem er verið að glíma við vandamál þessa fólks vegna þess að það er erfitt að ná til ákveðins hóps. Þá á ég einkum við þær erlendu konur sem hingað hafa gifst, en því miður virðast þær margar hverjar búa við mjög erfiðar aðstæður og vita eflaust ekki hvert þær eiga að leita. Ég beini því til félmrh. að hún afli sér upplýsinga hjá öðrum aðilum en þeim opinberu sem hafa fengist við þessi málefni.