Vaxtabótakerfið

100. fundur
Fimmtudaginn 12. mars 1992, kl. 12:31:00 (4275)

     Fyrirspyrjandi (Kristín Ástgeirsdóttir) :
    Virðulegi forseti. Tilefni þeirrar fsp. sem ég beini til félmrh. er að nú er til umræðu í stjórn Húsnæðisstofnunar hækkun vaxta hjá Byggingarsjóði verkamanna. Fyrir örfáum árum voru lög um félagslega húsnæðiskerfið endurskoðuð og ýmislegt sem því tengdist og sú nefnd sem ég vann m.a. fyrir komst að þeirri niðurstöðu að réttlætanlegt væri að hækka vexti hjá Byggingarsjóði verkamanna í 1,5--2%, fyrst og fremst til þess að bæta stöðu sjóðsins. Sú niðurstaða var þó bundin því að tryggt væri að kjör hinna lægst launuðu versnuðu ekki.
    Ég er sammála hæstv. félmrh. um það að staða Byggingarsjóðs verkamanna er slæm og ég tel nauðsynlegt að leita allra leiða til tekjuöflunar fyrir sjóðinn og ég tel að beina þurfi sjónum að því máli. En ég er þeirrar skoðunar að vaxtahækkun komi ekki til greina nú vegna þeirrar stöðu sem upp er komin í þjóðfélaginu með vaxandi atvinnuleysi og sífelldum árásum ríkisstjórnarinnar á kjör launafólks í landinu. Það hvort af þessari vaxtahækkun verður og hvernig að henni verður staðið og hvort hugsanlega verður hægt að samþykkja hana að einhverjum hluta tengist því hvaða breytingar eru fyrirhugaðar á vaxtabótakerfinu. Í fjárlagaumræðunni var boðað að ríkisstjórnin hefði samþykkt að stefna að því að draga nokkuð úr vaxtabótum. Þetta mælti hæstv. fjmrh. en af fsp. mætti halda að það hefði verið félmrh. Ég leiðrétti hér með að það var fjmrh. sem lét þessi orð falla. En í tengslum við það sem er að gerast í Húsnæðisstofnun vil ég spyrja hæstv. félmrh.:
    ,,Hvaða breytinga á vaxtabótakerfinu er að vænta og hvenær, samanber ummæli ráðherra í fjárlagaumræðunni fyrir árið 1992?``