Vaxtabótakerfið

100. fundur
Fimmtudaginn 12. mars 1992, kl. 12:34:00 (4276)

     Félagsmálaráðherra (Jóhanna Sigurðardóttir) :
    Virðulegi forseti. Eins og fram hefur komið er tilefni þessarar fsp. ummæli fjmrh. við umræðu um tekjuskatt og eignarskatt fyrir jólin. Spurt er hvaða breytinga á vaxtabótakerfinu er að vænta og hvenær, samanber ummæli fjmrh. í fjárlagaumræðunni fyrir árið 1992.
    Við breytingu á lögum um tekjuskatt og eignarskatt sem samþykkt var í desember voru ýmis atriði í framkvæmd tekjuskattslaga til skoðunar, m.a. vaxtabætur. Í því sambandi kom helst til álita að breyta

eignamörkum sem mynda grundvöll fyrir vaxtabætur hjá hjónum þannig að efri mörkin lækkuðu úr 9,8 millj. kr. í 7 millj. kr. sem taki gildi á árinu 1993. Vaxtabætur hjóna og sambýlisfólks falla niður samkvæmt gildandi lögum ef eignir að frádregnum skuldum hjóna fara fram úr 9,8 millj. kr. Talið var að hægt væri að draga úr útgjöldum ríkisins um 100 millj. kr. með þessum hætti en vaxta- og húsnæðisbætur námu 2,5 milljörðum á sl. ári. Horfið var frá því að gera þessar breytingar og engar ákvarðanir liggja frekar fyrir varðandi breytingu á vaxtabótakerfinu.