Vaxtabótakerfið

100. fundur
Fimmtudaginn 12. mars 1992, kl. 12:35:00 (4277)

     Fyrirspyrjandi (Kristín Ástgeirsdóttir) :
    Ég þakka hæstv. félmrh. fyrir svörin. Ég get sagt það sem skoðun mína að ég tel í rauninni einu breytingarnar sem koma til greina á vaxtabótakerfinu, eins og það blasir við okkur núna, vera að lækka þakið þannig að þeir sem mest eiga og hæstar hafa tekjurnar fái minna í sinn hlut. Hins vegar blasir við að auðvitað þarf að skoða vaxtabótakerfið í samhengi við það sem er að gerast í húsnæðismálum og það má ljóst vera að það mun kalla á aukið fjármagn. Við verðum í sameiningu að móta stefnu í því máli hvað eigi að greiða niður og hvernig eigi að aðstoða fólk sem er að koma yfir sig húsnæði, en ég fagna því að ekki séu fyrirhugaðar neinar flatar skerðingar. Ég vona svo sannarlega að félmrh. standi fast á því að þeir sem fá sín lán úr Byggingarsjóði verkamanna njóti bestu kjara og að hlutur þeirra verði ekki skertur.