Húsaleigubætur

100. fundur
Fimmtudaginn 12. mars 1992, kl. 12:53:00 (4286)

     Ólafur Ragnar Grímsson :
    Virðulegi forseti. Ósköp er þetta eitthvað viðkvæmt mál hjá hæstv. félmrh. Í ákafa sínum í vörninni er hæstv. ráðherra m.a. búinn að segja að ég hafi verið fjmrh. í fjögur ár. Það er nú ekki rétt, hæstv. félmrh. ( ÖS: Miðað við hallann?) Hv. þm. Össur Skarphéðinsson ætti nú bara að hafa sig hægan í dag. Hann er alveg búinn að gera nóg gagnvart hæstv. fjmrh. Friðriki Sophussyni þó hann haldi ekki áfram að skemmta skrattanum hérna í þingsalnum í dag. Það var hins vegar Jón Baldvin Hannibalsson sem var fjmrh. fyrsta rúma árið á síðasta kjörtímabili og þegar ég kom í fjmrn. hafði hann ekki gert neitt til þess að undirbúa húsaleigubætur. Þá var Alþfl. bæði með félmrn. og fjmrn. Alþfl. hefði þá getað komið þessu máli í höfn ef hann hefði haft raunverulegan vilja til þess. Staðreyndin er sú að ekki ein mínúta af starfstíma fjmrn. í tíð formanns Alþfl. hafði farið í að koma á húsaleigubótum. Til þess að allt sé nú rétt bókað hjá Alþfl.; þegar flokkurinn hafði bæði fjmrn. og félmrn. og hefði getað komið sér saman um málið þá var ekkert gert.
    Síðan tók ég málið upp og þegar ég lagði fram tillögur í ríkisstjórninni haustið 1980 um víðtækar jöfnunaraðgerðir í skattamálum, m.a. hátekjuþrep í tekjuskatti, við vitum það ósköp vel hver var aðallega á móti því. Formaður Alþfl. Núv. hæstv. félmrh. studdi his vegar hátekjuþrep. Hún má eiga það. En formaður Alþfl. og viðskrh. og þingflokkur Alþfl. hafnaði hátekjuþrepi. Það var fjármögnunin á húsaleigubótunum sem ég ætlaði að koma inn í þingið á síðasta heila starfsári fráfarandi ríkisstjórnar.
    Við lögðum einnig til ýmsar aðrar jöfnunaraðgerðir í skattamálum það haust sem strönduðu líka á Alþfl. Þegar það lá hins vegar fyrir að Alþfl. hafði hafnað hinu víðtæka prógrammi um jöfnunaraðgerðir hófumst við handa, ég og hæstv. félmrh., um að reyna að finna á þessu flöt sem stjórnarflokkarnir gætu sætt sig við, m.a. meiri hlutinn í þingflokki Alþfl. Glíma hæstv. félmrh. var ekki síður við meiri hlutann í sínum eigin þingflokki. Það er alveg rétt hjá hæstv. félmrh. að við komumst að niðurstöðu í því máli og sú niðurstaða var lögð fram í þinginu og er þess vegna tilbúin til afgreiðslu. Ekkert nýtt hefur komið fram í málinu tæknilega og efnislega sem kemur í veg fyrir að frv. nái fram að ganga. Afstaða Sjálfstfl. setur auðvitað strik í reikninginn. Það er sú afstaða að hæstv. félmrh. hefur ekki fengið eina einustu jöfnunaraðgerð í tekjuskattsmálum eða húsnæðismálum samþykkta í tíð hæstv. núv. ríkisstjórnar. Nú blasir það hins vegar við að hækka á vextina í félagslega kerfinu án þess að húsaleigubætur séu komnar á. Þar með yrði grundvöllur lagður að því að rústa Búsetakerfið. Hæstv. félmrh. er kunnugt um það vegna þess að forsvarsmenn Búsetakerfisins hafa gengið á fund hennar og ef áform um vaxtahækkun ganga eftir, engin löggjöf er komin um húsaleigubætur, þá verður samkeppnisaðstaða Búsetakerfins orðin með þeim hætti að það yrði rústað. Vegna þess að það hefur ekki tekist stendur hæstv. félmrh. frammi fyrir því að forustumenn Búsetahreyfingarinnar örvænta um það hver verði framtíð þessa kerfis. Hæstv. félmrh. á þess vegna að bóka hjá Alþfl. það sem Alþfl. á, bæði í tíð formanns flokksins í fjmrn. og í tíð okkar þegar við vorum saman í ríkisstjórn og meiri hluti þingflokks Alþfl. var á móti þeim tillögum sem ég lagði fram. En ég skal staðfesta það hvar sem er, eins og ég hef gert í þinginu og á fundum utan þings, að hæstv. félmrh. lýsti sig þá ósamþykka þeirri afstöðu sem hennar eigin flokkur tók. Nú er kannski kominn nýr meiri hluti í þingflokki Alþfl. sem gæti staðið með hæstv. félmrh. Þá strandar það bara á Sjálfstfl. Þannig að það er alveg óþarfi hjá hæstv. félmrh. að gera mig eða Alþb. að sökudólgi í þessu máli.