Fjárhagsaðstoð félagsmálastofnana

100. fundur
Fimmtudaginn 12. mars 1992, kl. 13:03:00 (4293)

     Fyrirspyrjandi (Guðrún Helgadóttir) :
    Hæstv. forseti. Ég harma að þessi litla fsp. mín skyldi ekki hafa verið nær umræðu þeirri um skattsvik sem fram fór í morgun því að þá hefði kannski verið fyrirferðarmeira í þeirri umræðu hversu hróplegt og æpandi óréttlæti viðgengst í þessu landi. En við búum við þá hugmyndafræði sem við erum hvað hreyknust af og höfum í lög leitt að enginn skuli lifa í neyð, án matar, fata og húsaskjóls. Til þess að tryggja alla þegna þjóðfélagsins gegn slíkri neyð eigum við sameiginlega sjóði ríkis og sveitarfélaga. Víst er það þó svo hér í landi þar sem atvinna hefur verið tryggð að mestu, að þá fyrst er leitað samhjálpar samfélagsins sé ekki annarra kosta völ. Eru orsakir slíkra örþrifaráða oftast sjúkdómar, dauðsföll eða önnur slík tilvik sem enginn ræður við.
    Þessi aðstoð samfélagsins er í ýmsu formi, allt frá aðstoð við heimilishjálp, greiðslu húsnæðiskostnaðar og til lágmarksframfærslu sem mun nú vera um 42 þús. kr. fyrir einstakling og geta víst flestir verið sammála um að erfitt sé að lifa af lægri upphæð. Oft er hér um tímabundna aðstoð að ræða sem menn hætta að nýta sér þegar hagir breytast.
    Það hefur hins vegar komið mörgum á óvart sem aðstoðarinnar hafa notið að mörgum mánuðum síðar kemur launaseðill til þessa fólks eins og um launagreiðslur hafi verið að ræða. Mun sú breyting hafa orðið á við lög um staðgreiðslu að þessar greiðslur eru nú skattskyldar. Ég hef orðið vör við að fólk hefur verið í mestu vandræðum með að standa skil á skatti af þessum greiðslum, einkum og sér í lagi vegna þess að um þessa skyldu höfðu menn ekki hugmynd. Í samræðum mínum við félagsmálastofnanir vítt um landið hafa menn orðið að viðurkenna að ekki er alveg ljóst og alveg víst að skjólstæðingum þeirra hafi alltaf verið gerð grein fyrir að þessar greiðslur gætu orðið skattskyldar hafi verið um einhverjar frekari tekjur að ræða. Ég hef því leyft mér, hæstv. forseti, að leggja fram fsp. til félmrh. á þskj. 505 sem er 300. mál þingsins sem hljóðar svo, með leyfi forseta:
  ,,1. Er skjólstæðingum félagsmálastofnana kynnt að telja beri veitta fjárhagsaðstoð fram til skatts?
    2. Hvers vegna eru skattar af veittri fjárhagsaðstoð ekki staðgreiddir?
    3. Hvernig er fólki sem fengið hefur óvænta bakreikninga frá skattyfirvöldum ætlað að leysa það vandamál sé fjárhagsstaða óbreytt?``