Losun eiturefna í norðanvert Atlantshaf

100. fundur
Fimmtudaginn 12. mars 1992, kl. 13:19:00 (4298)

     Umhverfisráðherra (Eiður Guðnason) :
    Virðulegi forseti. Ég skal eftir bestu getu leitast við að svara fsp. hv. þm. Kristínar Ástgeirsdóttur. Íslensk stjórnvöld hafa reynt að afla allra þeirra upplýsinga sem unnt er varðandi þetta mál hjá þýskum stjórnvöldum og þær upplýsingar sem fyrir liggja eru svohljóðandi:
    Allt bendir til að hernaðaryfirvöld í austur-þýska alþýðulýðveldinu hafi árið 1964 sökkt efnavopnum í hafið milli Noregs og Íslands á stað sem er nærri að vera 64 gráður 42 mínútur norður og 1 gráða 30 mínútur vestur. Þýsk yfirvöld hafa raunar ekki staðfest þetta en samkvæmt þeim upplýsingum sem fyrir liggja mun vera um að ræða 36 steypta kassa og innihaldið vera 462 ,,tabún granaten`` sem munu vera einhvers konar sprengjur sem innihalda gasið tabún sem mun vera undirtegund sinnepsgass. Þessu hefði þá verið sökkt í samræmi við gildandi öryggisreglur í austur-þýska alþýðulýðveldinu. Þýsk yfirvöld eru nú að rannsaka þetta mál en fullyrða að skipaumferð og fiskveiðum stafi ekki hætta af þessu og raunar er sagt að þessi tegund af gasi sé þess eðlis að komist vatn að henni sé hún ekki hættuleg. Þýska samgönguráðuneytið bað þýska utanríkisráðuneytið í síðasta mánuði að tilkynna ríkisstjórnum Íslands, Noregs og Danmerkur það sem ég hef nú greint. Aðildarríkjum Óslóarsamkomulagsins 1973 um losun úrgangs verður tilkynnt ofangreint.
    Einnig hafa borist fréttir af því að eiturefni af þessu tagi hafi verið losuð í Eystrasaltið og hefur slíkt raunar fundist undan Borgundarhólmi. Í morgun hafði ég samband við íslenska sendiráðið í Þýskalandi og fékk þá þær upplýsingar að rannsókn þýskra yfirvalda í málinu sé ekki lokið. Enn stendur yfir leit í skjalasöfnum þess ráðuneytis sem áður hét innanríkisráðuneyti austur-þýska alþýðulýðveldisins en þau skjöl eru nú í vörslu innanríkisráðuneytisins í Bonn. Ekki er ljóst hvort þær sprengjur eða þau efnavopn sem hér var um að ræða og steypt var utan um eru komin frá rauða hernum sovéska eða frá þýska hernum og séu þá birgðir frá síðari heimsstyrjöld. Ef það síðarnefnda er rétt er talið að um tiltölulega meinlaus efni sé að ræða.
    En sem sagt, íslensk stjórnvöld hafa fylgst með þessu máli, leitað eftir upplýsingum, beðið um frekari upplýsingar og enn er beðið ítarlegri upplýsinga og raunverulegrar staðfestingar en þetta er það sem fyrir liggur um málið. Ég tek undir með hv. fyrirspyrjanda að hér er vissulega um alvarlegt mál að ræða og þar þurfum við að fylgja því fast eftir að fá fram allar þær upplýsingar sem kostur er. Því miður bendir margt til þess að þetta sé hugsanlega ekki það eina sem hefur verið látið í höfin á norðurslóðum og gæti valdið skaða í framtíðinni.