Losun eiturefna í norðanvert Atlantshaf

100. fundur
Fimmtudaginn 12. mars 1992, kl. 13:26:00 (4301)

     Umhverfisráðherra (Eiður Guðnason) :
    Virðulegi forseti. Ég vil aðeins ítreka það að af hálfu íslenskra stjórnvalda verður fylgst með þessum málum svo grannt og gjörla sem kostur er.
    Varðandi þau ummæli hv. þm. Össurar Skarphéðinssonar um stöðu þessara mála hér á norðurslóðum, sérstaklega að því er geislavirkni varðar, get ég greint frá því að í morgun átti ég samtal við sendiherra Rússlands og Sambandslýðveldanna, sendiherra þeirra á Íslandi. Ég gerði honum grein fyrir áhyggjum okkar vegna þessara mála, m.a. með tilliti til blaðafregna, bæði hér og ekki síður í norskum blöðum um að kjarnakljúfum hefði verið kastað í hafið við Novaja Semlja og geislavirkum úrgangi fargað í sjó. Ég gerði honum grein fyrir áhyggjum okkar Íslendinga vegna þessara mála sem við teldum skipta mjög miklu máli og eru mjög alvarleg og óskaði eftir því að hann aflaði þeirra upplýsinga sem tiltækar væru um þessi mál. Hann kvaðst mundu verða við því en benti jafnframt á að hér væri um fregnir að ræða sem væri ekki búið að staðfesta að því hann best vissi. En af hálfu íslenskra stjórnvalda verður áfram fylgst með þessum málum svo vel sem kostur er. Ég get bætt því við líka að á fundi umhverfisráðherra Norðurlanda á Norðurlandaráðsþingi var ákveðið að skrifa umhverfisráðherra Bretlands enn einu sinni og lýsa alvarlegum áhyggjum okkar vegna þeirrar starfsemi sem fram fer í endurvinnsluverinu í Dounreay og Sellafield þannig að ég fullyrði að stjórnvöld hér munu halda áfram að fylgjast með þessu máli og þrýsta á og gera allt sem við getum til að koma í veg fyrir að um frekari mengun verði að ræða og það verði lagfært sem

hægt er að lagfæra í þessum efnum.