Umhverfisslys

100. fundur
Fimmtudaginn 12. mars 1992, kl. 13:28:00 (4302)

     Fyrirspyrjandi (Kristín Ástgeirsdóttir) :
    Herra forseti. Ég vil koma að mjög alvarlegu máli. En eins og þingmenn eflaust muna gerðust atburðir sl. sumar á Ströndum sem vöktu mikla furðu og langan tíma tók að skýra er þar varð umhverfisslys sem olli miklum fugladauða. Niðurstaðan varð sú að þarna voru náttúrlegar orsakir á ferðinni en þessir atburðir vöktu spurningar hjá mér varðandi það hvernig við erum undir það búin að taka á slysum sem þessum.
    Við vitum að umhverfisslys við strendur landsins geta verið af ýmsum toga og við þekkjum hér m.a. olíuslys. Við ræddum áðan um losun eiturefna. Það getur orðið ýmiss konar röskun í lífríkinu líkt og gerðist sl. sumar. Síðast en ekki síst er enn þá því miður hætta á kjarnorkuslysum þar sem mér er ekki kunnugt um að núverandi og fyrrverandi stórveldi hafi dregið mikið úr ferðum kjarnorkukafbáta. Ég vona að það standi til bóta.
    Að mínum dómi verðum við að vera viðbúin umhverfisslysum við strendur landsins vegna þess hversu gífurlegir hagsmunir eru þar í húfi eins og áður hefur komið fram, gagnvart náttúrunni, verslunar- og viðskiptahagsmunum Íslendinga og framtíð byggðar í landinu. Ég vil því spyrja hæstv. umhvrh.:
  ,,1. Hvaða ráðstafanir hafa verið gerðar til að bregðast við umhverfisslysum við strendur landsins í framhaldi af þeim atburðum sem gerðust á Ströndum sl. sumar?
    2. Er fyrirhugað að setja upp eins konar náttúruvarnakerfi náttúrunni til aðstoðar þannig að hægt verði að grípa til skyndiaðgerða er umhverfisslys ber að höndum?``
    Til að skýra síðari liðinn vil ég segja að ég hef hugleitt þá hugmynd hvort ekki væri hægt að koma á fót einhvers konar hjálparsveitum sjálfboðaliða sem væru tilbúnar að grípa til aðgerða þegar þeirra er þörf. Það krefst þess auðvitað að fólk kunni til verka, t.d. hvernig hægt er að bjarga fuglalífi ef slys ber að höndum.