Umhverfisslys

100. fundur
Fimmtudaginn 12. mars 1992, kl. 13:37:00 (4304)

     Fyrirspyrjandi (Kristín Ástgeirsdóttir) :
    Herra forseti. Ég þakka hæstv. umhvrh. fyrir svarið. Það kom ekki fram í máli hans eða ég tók a.m.k. ekki eftir því, hvenær áætlað er að nefndin skili störfum. Vona ég að það verði sem allra fyrst. Hann getur kannski upplýst okkur um það hvar hún er stödd í sínum störfum. Ég tel afar brýnt að reglur um þessi mál verði settar sem fyrst og að við verðum undir það búin að mæta slysi eins og því sem varð sl. sumar.
    Við höfum mikið kerfi sem snýr að mannfólkinu, almannavarnir, hér á landi. Ég held að einnig væri mikil þörf á því að útbúa svipað kerfi gagnvart náttúrunni því allt tengist þetta saman. Við erum hluti af lífríkinu og líf okkar og framtíð byggist á því að þarna sé samræmi á milli og vel um alla hnúta búið.