Endurskoðun laga um stjórn fiskveiða

100. fundur
Fimmtudaginn 12. mars 1992, kl. 13:41:00 (4306)

     Fyrirspyrjandi (Þuríður Bernódusdóttir) :
    Virðulegi forseti. Á sl. sumri skipaði hæstv. sjútvrh. nefnd til þess að endurskoða lög um stjórn fiskveiða. Nefndinni, sem er eina nefndin á Íslandi sem skipuð er tveimur jafnréttháum formönnum, var nú eftir áramótin enn fremur falið að gera tillögur til stuðnings sjávarútvegi og fiskvinnslu og finnst mörgum að ekki sé vanþörf á.
    Öllum er ljóst að ríkisstjórnin er klofin í afstöðu sinni til sjávarútvegsins. Það kom glöggt fram þegar þessi nefnd var sett á laggirnar því að þar tókust á hugmyndir um auðlindaskatt og hvort núverandi fiskveiðistefna skyldi ríkja áfram. Þetta skapar þeim sem að sjávarútvegi vinna óviðunandi óvissu vegna þess að flestir í greininni hafa byggt upp atvinnurekstur sinn miðað við óbreytta fiskveiðistefnu. Það er því brýnt að það komi sem fyrst í ljós hvaða stefnu ríkisstjórnin ætli að hafa í sjávarútvegsmálum. Er þess að vænta að hæstv. sjútvrh. knýi á formenn sína tvo um að þeir hraði störfum nefndarinnar þannig að afgerandi stefna verði mörkuð til frambúðar um stjórn fiskveiða?
    Nú hefur það gerst að annar formaðurinn, Magnús Gunnarsson, segir í dagblaðinu Tímanum 7. mars sl. að þess sé ekki að vænta að nefndin skili af sér fyrr en í árslok 1992. Hinn formaðurinn, Þröstur Ólafsson, aðstoðarmaður utanrrh., sagði hins vegar á opinberum fundi í fyrrakvöld að nefndin mundi skila af sér tillögum í haust, hugsanlega bráðabirgðatillögum í september. Hér stangast ýmislegt á og verður fróðlegt að heyra svör hæstv. sjútvrh. um þetta atriði, þ.e. svör við fyrri lið fsp. minnar.
    Það er skoðun margra, og er ekki að undra, að nefnd þessi hafi einungis það hlutverk að tefja fyrir því að upp skuli tekinn auðlindaskattur. Eitt er víst að á meðan ekkert heyrist frá nefndinni mun núverandi fiskveiðistefna ríkja áfram. Það er því vafamál hvort slík tvíhöfða nefnd, með formönnum með mismunandi grundvallarskilning, komist nokkurn tíma að afgerandi niðurstöðu. En það kemur væntanlega í ljós í haust. Oft hefur málamiðlun milli mismunandi sjónarmiða leitt af sér slæmar tillögur sem enginn hefur getað sætt sig við. Samsuða tveggja ólíkra sjónarmiða getur oft af sér þriðja og versta kostinn. Við óttumst mörg að sú verði niðurstaðan.
    Hæstv. sjútvrh. hefur margoft ítrekað að staða sjávarútvegsins sé alvarleg, fiskvinnsla sé rekin með 7--8% halla og 60% fyrirtækja í greininni séu á beinni gjaldþrotabraut. Þegar veiðiheimildir minnka svo mikið sem nú hefur orðið, verður að gera þá kröfu til stjórnvalda að þau svari skýrt til um það hver fiskveiðistefna næstu ára eigi að vera. Verður svifasein og sundurleit nefnd til þess að blindur leiði blindan og undirstöðuatvinnuvegur Íslendinga stöðvist um mitt þetta ár? Á þskj. 467 hef ég því leyft mér að bera fram eftirfarandi fyrirspurnir til hæstv. sjútvrh.:
  ,,1. Hvenær mun nefnd sú sem ráðherra skipaði til að endurskoða lög um stjórn fiskveiða skila tillögum sínum?
    2. Hvenær er að vænta tillagna frá nefndinni til stuðnings sjávarútvegi og fiskvinnslu sem ráðherra hefur einnig falið henni að gera?``