Endurskoðun laga um stjórn fiskveiða

100. fundur
Fimmtudaginn 12. mars 1992, kl. 13:44:00 (4307)

     Sjávarútvegsráðherra (Þorsteinn Pálsson) :
    Frú forseti. Sem svar við fyrri lið fsp. er það að segja að lögin um endurskoðun fiskveiðistefnunnar gera ráð fyrir því að þeirri endurskoðun verði lokið fyrir árslok. Það hefur komið fram af hálfu nefndarinnar að hún mun leggja áherslu á að reyna að skila áliti eða a.m.k. áfangaskýrslu fyrr ef þess verður kostur. En samkvæmt lögunum hefur hún til þess frest til ársloka.
    Nefndinni var ekki einungis ætlað að fjalla um endurskoðun á lögum um fiskveiðistjórn. Frá upphafi var ráð fyrir því gert að hún skyldi móta heildstæða stefnu í sjávarútvegsmálum og þar á meðal gera tillögur um aðgerðir til þess að bæta rekstrarumhverfi sjávarútvegsins. Það var því eðlilegt að skýra hennar hlutverk með þeim hætti þegar í ljós kom hver rekstrarvandi væri á ferðinni í sjávarútveginum. Og það hefur komið fram af hálfu annars forustumanna nefndarinnar að á næstu 2--3 mánuðum sé að vænta tillagna af hálfu nefndarinnar í því efni. Ég tek mjög skýrt fram að þar er ekki um að ræða almennar tillögur um aðgerðir í efnahagsmálum heldur ráðstafanir til þess að auðvelda þær óhjákvæmilegu skipulagsbreytingar sem nú eiga sér stað og munu eiga sér stað í sjávarútvegi og í þeim tilgangi að bæta rekstrarumhverfi hans og tryggja rekstrarstöðu þessarar mikilvægu atvinnugreinar að öðru leyti.
    Vegna ummæla hv. þm. um mismunandi skoðanir stjórnarflokkanna og hversu varhugavert það geti verið að gera málamiðlanir í þessu efni, vil ég minna hv. þm. á að nákvæmlega sami skoðanaágreiningur var uppi í tíð fyrri ríkisstjórnar. Framsfl. hafði þá sína skoðun á málunum og Alþfl. sína. Það kom m.a. fram í mjög óheppilegri málamiðlun um Hagræðingarsjóð sjávarútvegsins. Nú hafa verið gerðar nokkrar betrumbætur á þeirri löggjöf. En ég tel að sú löggjöf hafi verið mjög gott dæmi um hvernig málamiðlanir leiddu til óeðlilegrar niðurstöðu sem allir hagsmunaaðilar í sjávarútvegi voru reyndar á móti.
    Vegna ummæla hv. fyrirspyrjanda um óvissuástand vegna endurskoðunar vil ég líka minna á að mjög skýr ákvæði voru í lögunum sjálfum sem Framsfl. bar fulla ábyrgð á, það að þau skyldu tekin til endurskoðunar á næstu tveimur árum. Og nú er verið að fullnægja þeirri lagakvöð sem fyrrv. stjórnarflokkar komu á með lagasetningu á Alþingi og bera ábyrgð á. Vissulega skapar slík endurskoðun ákveðna óvissu en ég vil minna hv. þm. á að þar er um að ræða lagasetningu sem Framsfl. bar fulla ábyrgð á og er nú verið að framkvæma.