Endurskoðun laga um stjórn fiskveiða

100. fundur
Fimmtudaginn 12. mars 1992, kl. 14:03:00 (4317)

     Sjávarútvegsráðherra (Þorsteinn Pálsson) :
    Frú forseti. Hv. 5. þm. Vestf. spurði hvaða skipulagsbreytingar ættu sér stað í sjávarútvegi og er nokkuð kyndugt að þingmaður úr Vestfjarðakjördæmi skuli spyrja með þessum hætti. Ég get nefnt að nú eiga sér stað mjög verulegar skipulagsbreytingar, m.a. með úreldingu fiskiskipa í kjölfar þeirra lagabreytingar sem ríkisstjórnin beitti sér fyrir á þessu þingi. Það hefur m.a. verið upplýst að sú nefnd, sem hér hefur verið til umræðu, er að íhuga hvort mögulegt er að koma við einhvers konar úreldingu hjá fiskvinnslufyrirtækjum einnig. Hér er um að ræða skipulagsbreytingar í sjávarútvegi til þess að laga rekstrarskilyrði og bæta rekstrarstöðu fyrirtækja í atvinnugreininni. Og ég vona að hv. þm. skilji hvað er á ferðinni og hversu þýðingarmiklar aðgerðir af þessu tagi eru.
    Það vekur svo nokkra furðu þegar hv. 4. þm. Norðurl. e. og hv. 8. þm. Reykn. koma hér með útúrsnúninga af ýmsu tagi. Það er fróðlegt í ljósi þess að Alþb. hafði til skamms tíma tilburði til að hafa stefnu í sjávarútvegsmálum þótt hún hafi kannski ekki verið mjög skynsamleg. En á fundi þeirra um daginn var samþykkt að þeir ætluðu að hætta að hafa stefnu í sjávarútvegsmálum og samþykktu að hefja leit

að stefnu og Morgunblaðið fagnaði þessum umskiptum mjög og taldi að Alþb. væri komið í hóp kvótaleigusala með þessari breytingu. ( Gripið fram í: Hver er stefna Sjálfstfl.?) Sjálfstfl. er andvígur kvótasölu eins og kvótaleigu eins og hv. þm. vita og um það hefur margsinnis verið ályktað á vettvangi hans. ( Gripið fram í: Ekki með Davíð.)
    8. þm. Reykn. hv. gerði svo að umtalsefni lögboðið samráð um endurskoðun sjávarútvegsstefnunnar. Auk nefndar ríkisstjórnarinnar var sett á fót sérstök samráðsnefnd hagsmunaaðila samkvæmt ákvæði í lögunum og til að tryggja betur en áður forræði sjútvn. þingsins var ákveðið að hafa þann hátt á að hún gæti sjálf haft forustu um það og frumkvæði á hvern veg samráði væri háttað á milli hennar og ríkisstjórnarnefndarinnar og hagsmunanefndarinnar við þessa endurskoðun. Mér er kunnugt um að hv. sjútvn. hefur nú skrifað endurskoðunarnefndinni og óskað eftir að þetta samráð verði virkt. Ég fagna því og tel að það sé mjög mikilvægt að gott samstarf ríki þar á milli.
    Hv. 9. þm. Reykn. sagði svo að engin úrræði hefðu komið fram í vanda sjávarútvegsins á undanförnum vikum. Ég minni á að það var tekin um það ákvörðun að hrinda af stað skuldbreytingum með því að fresta á þessu og næsta ári afborgunum af lánum Atvinnutryggingarsjóðs og af lánum hjá Fiskveiðasjóði. Hér er samtals um að ræða um 3 milljarða kr. sem þessir sjóðir létta greiðslubyrði sjávarútvegsins á þessu ári. Hjá ríkisstjórninni liggur fyrir skýrsla um möguleika á afnámi aðstöðugjalds sem hefur verið ein af höfuðkröfum sjávarútvegsins og við væntum þess að sjá árangur í því starfi. Greiðslur í Verðjöfnunarsjóð sjávarútvegsins, inngreiðslurnar, voru stöðvaðar með sérstöku frv. fyrir áramótin. Því að fullyrðingar af þessu tagi eru vitaskuld út í hött.
    Hv. 5. þm. Suðurl. ræddi um það að flotinn stækkaði og stækkaði þrátt fyrir núv. skipulag. Það er ýmislegt til í því að fram til þessa hefur ekki náðst nægjanlegur árangur í því að minnka flotann. Það var eitt af mínum fyrstu verkum í ráðuneytinu að breyta reglum um þetta þannig að það yrði hætt að endurnýja skip með því að taka miklu stærri skip inn í landið en seld voru út. Þessar reglur voru allt of lekar í tíð fyrri ríkisstjórnar og var nauðsynlegt að gera breytingar á og það hefur verið gert. Og við sjáum með þeim aðgerðum og þeim úreldingaraðgerðum sem núv. ríkisstjórn hefur beitt sér fyrir og fengið lögfestar á þinginu að það er að nást mjög verulegur árangur í því að minnka flotann og koma honum meir til samræmis við þá veiðimöguleika sem við höfum. Það er fyrst að gerast núna með aðgerðum þessarar ríkisstjórnar.
    Hv. fyrirspyrjandi sagði svo að ákvörðun fyrri ríkisstjórnar um að endurreisa Verðjöfnunarsjóð sjávarútvegsins hefðu verið einhver misheppnaðasta aðgerð í sjávarútvegsmálum sem um getur. Þó þetta hafi verið umdeilanleg ákvörðun þá vil ég ekki gagnrýna fyrrv. sjútvrh. með sama hætti og þessi hv. þm. Framsfl. En vissulega kemur til (Forseti hringir.) álita að endurskoða lögin um Verðjöfnunarsjóðinn, enda hefur verið sett á fót sérstök nefnd til að fjalla um það verkefni.
    Hv. 4. þm. Norðurl. v. spurði svo að því hvort ummæli Þrastar Ólafssonar væru ummæli ríkisstjórnarinnar. Frú forseti, eins og hv. þm. er kunnugt á Þröstur Ólafsson ekki sæti í ríkisstjórninni og talar þess vegna fyrir sjálfan sig en ekki hönd ríkisstjórnarinnar.