Endurskoðun laga um stjórn fiskveiða

100. fundur
Fimmtudaginn 12. mars 1992, kl. 14:14:00 (4320)

     Stefán Guðmundsson (um þingsköp) :
    Virðulegi forseti. Ég skal gera það en ég kem hér upp til þess að ítreka og taka undir það sem síðasti ræðumaður sagði, hversu erfitt það væri að hverfa frá þessari umræðu hér, eins og hún hefur þróast. Ég vænti þess að hún komi fljótt upp aftur í þinginu því við þurfum vissulega að gefa okkur tíma til að ræða þessi mál.
    Ég vil hins vegar taka það skýrt fram að ég fagna orðum hæstv. sjútvrh. Ég skildi þau svo og trúi því að hann velji fremur leið skipulagsbreytinga og hagræðingar í sjávarútvegi en leið Alþfl., gjaldþrotaleiðina og að byggja síðan upp á rústum fyrirtækjanna. Ég trúi því að ég hafi tekið rétt eftir að það hafi verið orð hæstv. sjútvrh. að hann hafnaði gjaldþrotastefnu Alþfl. í sjávarútveginum. Hann vildi frekar ná fram hagræðingu og skipulagsbreytingum á annan og eðlilegri hátt og ég vona að hann tali þar fyrir fleiri í Sjálfstfl.