Endurskoðun laga um stjórn fiskveiða

100. fundur
Fimmtudaginn 12. mars 1992, kl. 14:19:00 (4324)

     Ólafur Ragnar Grímsson (um þingsköp) :
    Virðulegi forseti. Það er að verða nokkuð sérkennilegt hjá Sjálfstfl. þetta samspil ráðherra og forseta þegar þingmenn stjórnarandstöðunnar eru að koma óskum á framfæri. ( Forseti: Forseti frábiður sér þær ávirðingar að hann sé með einhverja sérstaka vörn uppi fyrir ráðherra. Það er rangt og forseti frábiður sér slíkan málflutning.) Forseti má hafa á því þær skoðanir sem hún vill, ég áskil mér allan rétt til að draga mínar ályktanir af því sem gerist hér í þingsalnum. Þetta eru mínar heiðarlegu ályktanir, forseti. Þær eru þess eðlis að það hefur gerst hér hvað eftir annað í vetur, síðast í gær, að forseti tók afstöðu með ráðherra, fjmrh., til að neita ósk frá þingmanni um frestun á máli. Síðan gerist það aftur í dag með þeim hætti sem hér hefur fram komið og það er velkomið að rekja fjölmörg önnur dæmi ef forseti óskar eftir því. En það er ekki kjarni þessa máls. Kjarninn er sá að ég setti fram þá frómu ósk að hæstv. sjútvrh. hugleiddi hvort ekki væri rétt að hann hefði sjálfur frumkvæði að því að flytja Alþingi skýrslu um stöðu sjávarútvegsins og aðgerðir þeirrar nefndar sem ætti að gera tillögur um málefni sjávarútvegsins á næstunni. Það var fullkomlega eðlileg ósk og ég hélt satt að segja að hæstv. sjútvrh. mundi hugleiða það með vinsemd að stuðla að því að málin yrðu rædd á þeim grundvelli hér í þinginu. Hann kaus greinilega að gera það ekki. Ef sjútvrh. vill ekki hafa frumkvæði að því sjálfur á næstu dögum að flytja slíka skýrslu og tilkynnir okkur um það þá munum við þingmenn Alþb. flytja fram þá ósk, það er alveg sjálfsagt að gera það og nota þann rétt sem við höfum samkvæmt þingsköpum. En ég taldi eðlilegra að ráðherrann hugleiddi að hann hefði frumkvæði að því. Ef Sjálfstfl. vill ekki hafa frumkvæði að því að ræða þetta viðkvæma mál ríkisstjórnarinnar í þingsölum og yfirlýsingar Þrastar Ólafssonar og afstöðu Sjálfstfl. til þeirra, sérstaklega þegar sjútvrh. er búinn að lýsa því hér yfir að Þröstur Ólafsson sé fullkomlega ómarktækur í umfjöllun um málefni sjávarútvegsins vegna þess að hann tali bara fyrir sjálfan sig, þá er auðvitað óhjákvæmilegt að við í þinginu reynum að átta okkur á því hvað er í raun og veru að gerast á vettvangi ríkisstjórnarinnar í málefnum grundvallaratvinnuvegs íslensku þjóðarinnar. Ef sjútvrh. hefur ekki frumkvæði um að flytja þessa skýrslu þá mun ég beita mér fyrir því að þingflokkur Alþb. flytji ósk um að slík skýrsla verði flutt á Alþingi innan einnar eða tveggja vikna.