Endurskoðun laga um stjórn fiskveiða

100. fundur
Fimmtudaginn 12. mars 1992, kl. 14:27:00 (4328)

     Einar K. Guðfinnsson (um þingsköp) :

    Virðulegi forseti. Það er óhjákvæmilegt að rifja upp hvert er tilefnið að þessari miklu umræðu um gæslu þingskapa. Hæstv. forseti vakti athygli á ákveðnu ákvæði í 46. gr. þingskapalaganna þar sem segir til um hvernig eðlilegt er að þetta form um beiðni um skýrslu sé. Í þessu fólust engir dómar eins og hér var látið í veðri vaka. Hér var um að ræða mjög eðlilega ábendingu hæstv. forseta. Varðandi það að hér hafi verið um einhverja sögulega yfirlýsingu að ræða um Þröst Ólafsson er fráleitt þar sem frá því var greint, eins og ég hygg að hafi verið á flestra vitorði, að Þröstur Ólafsson situr ekki í ríkisstjórninni og talar þess vegna ekki í nafni hennar. Að halda því fram að það sé einhver söguleg yfirlýsing tekur náttúrlega engu tali.