Endurskoðun laga um stjórn fiskveiða

100. fundur
Fimmtudaginn 12. mars 1992, kl. 14:34:00 (4331)

     Umhverfisráðherra (Eiður Guðnason) (um þingsköp) :
    Virðulegi forseti. Vonandi koma fjölmiðlar vel til skila til þjóðarinnar í kvöld þessu furðulega upphlaupi fyrrv. ráðherra Alþb. og þeim furðulegu yfirlýsingum sem hv. þm. Steingrímur J. Sigfússon gaf hér áðan að það væri eðlilegasti hlutur í heimi að ræða sjávarútvegsmál undir liðnum þingsköp. Auðvitað hefur þetta umræðuform verið misnotað í áranna rás. Það vita allir. En er það til sérstakrar fyrirmyndar og á endilega að halda því áfram og á að auka það?
    Þá kemst ég ekki hjá því að víkja sérstaklega að þeim ósmekklegu athugasemdum sem hv. þm. Ólafur Ragnar Grímsson, formaður Alþb., beindi til forseta þingsins. Það raunar ekki í fyrsta skipti. Það voru ómakleg og órökstudd ummæli. Og sé eitthvað við fundarstjórn hæstv. forseta að athuga þá held ég að það sé kannski það að hún hafi sýnt hv. þm. Ólafi Ragnari Grímssyni óþarflega mikið umburðarlyndi og mildi vegna þess að þegar hann viðhafði hin frægu ummæli sín héðan úr þessum stól og hin einstæðu ummæli um skítlegt eðli þá átti að víta þingmanninn. Það voru að þingsköpum vítaverð ummæli. En forseti kaus hins vegar að sýna þingmanninum það umburðarlyndi að gera það ekki. Þess vegna finnst mér furðulegt, ósanngjarnt og óréttmætt að heyra þingmenn Alþb. koma hér hvern á fætur öðrum, forustumenn, fyrrv. formaður og núv. varaformaður, og ásaka forseta um óheiðarlega og hlutdræga fundarstjórn. Það er þessum mönnum ekki sæmandi. Langur vegur frá og held ég að það sé mál að þessari umræðu ljúki.