Forsjárdeilur

100. fundur
Fimmtudaginn 12. mars 1992, kl. 14:37:00 (4332)

     Fyrirspyrjandi (Steingrímur J. Sigfússon) :
    Hæstv. forseti. Ég hef leyft mér að leggja fyrir hæstv. dómsmrh. nokkrar spurningar sem varða meðferð forsjárdeilumála. Eins og hv. alþm. er kunnugt og þarf ekki að rekja eru hér á ferðinni afar viðkvæm og vandasöm mál sem mikið ríður á að fái farsæla og greiða meðferð í stjórnkerfinu. Því miður verður jafnframt að segja eins og er að oft á tíðum er meðferð þessara mála miklu tafsamari en æskilegt væri. Það á ekki síst við um þau tilvik þegar ekki tekst samkomulag um forsjá barna við skilnað og fella þarf bráðabirgðaúrskurð um forsjána á meðan deilumál eru leidd til lykta. Við slíkar aðstæður gefur það auga leið að það er ákaflega óheppilegt að mikill dráttur verði á því að þeir aðilar sem um málið fjalla skili niðurstöðu í því. Engu að síður mun það því miður vera staðreynd að oft á tíðum er sá tími frekar mældur í mánuðum ef ekki árum sem líður frá því að bráðabirgðaúrskurður er felldur og þangað til endanlega er úrskurðað um slík deilumál.
    Til þess að upplýsa um stöðu þessara mála og fá mat frá hæstv. dómsmrh. hvernig þau standa um þessar mundir hef ég leyft mér að leggja fram nokkrar spurningar sem eru á þskj. 510, svohljóðandi, með leyfi forseta:
  ,,1. Hversu mörg forsjárdeilumál hafa verði tekin fyrir í sifjadeild dómsmrn. sl. fimm ár og hversu mörg mál af því tagi bíða þar úrskurðar?
    2. Hvað tekur það sifjadeild að jafnaði langan tíma að úrskurða í forsjármálum frá því erindi berst?
    3. Mat hverra er lagt til grundvallar úrskurðum ráðuneytisins?
    4. Hefur umboðsmaður Alþingis haft afskipti af starfi sifjadeildar og ef svo er, hvaða áhrif hefur það haft?``