Forsjárdeilur

100. fundur
Fimmtudaginn 12. mars 1992, kl. 14:49:00 (4336)

     Sjávarútvegsráðherra (Þorsteinn Pálsson) :
    Frú forseti. Vegna ummæla hv. 4. þm. Norðurl. e. vil ég ítreka að hér er um mjög vandmeðfarin mál að ræða. Í ráðuneytinu þurfa menn að takast á við tvö meginsjónarmið. Annars vegar að hraða meðferð máls og ná fram skjótri úrlausn og á hinn bóginn að tryggja mjög vandaða málsmeðferð. Í mörgum tilvikum geta þessi markmið stangast á en ég hygg að það sé óumdeilt að í langflestum og svo til öllum tilvikum fer afgreiðsla fram á nokkrum vikum eftir að umsagnir barnaverndarnefnda liggja fyrir þó að í einstökum tilvikum geti orðið um lengri tíma að ræða. Ég vil ítreka að hér skiptir hvort tveggja máli, að afgreiðslan sé eins skjót og kostur er og eins vönduð og nokkur föng eru á.
    Að því er varðar fsp. hv. þm. um það hversu mikið vægi álit barnaverndarnefnda hafa að þá er ekki til neitt formúlusvar við því. Það fer eftir atvikum í hverju tilviki. Það er líka rétt að barnaverndarnefndir hafa mjög misgóða aðstöðu til að vinna að þessum málum. Í stærri sveitarfélögum hafa þær mun betrti aðstöðu til þess að vinna að málum með faglegum hætti. Ég hygg að þeir starfsmenn ráðuneytisins sem með þessi mál fara taki að einhverju leyti tillit til þess.
    Að því er varðar fsp. hv. 9. þm. Reykv. um það hvenær frv. um vernd barna og ungmenna verður lagt fyrir þingið er rétt að minna á að þau mál heyra undir menntmrn. eins og hv. þm. er kunnugt. Hæstv. menntmrh. hefur lagt frv. um þetta efni fyrir ríkisstjórn og það er nú til meðferðar í þingflokkum ríkisstjórnarinnar.