Veiting ríkisborgararéttar

101. fundur
Fimmtudaginn 12. mars 1992, kl. 15:13:00 (4345)

     Ingi Björn Albertsson :
    Virðulegi forseti. Ég er svo heppinn að vera einn af þeim sem sitja í hv. allshn. og hef gert síðan ég kom hér inn á þing. Ég ég get fullvissað hv. þm. Guðrúnu Helgadóttur, sem reyndar sat í þeirri nefnd á síðasta kjörtímabili með mér, að þar er farið yfir allar umsóknir og þær metnar og aðstæður manna eru að einhverju leyti teknar til greina. Ég vil geta þess í framhjáhlaupi að ég man aldrei eftir því að málefni einstakra umsækjenda væru tekin upp í þingsölum eins og nú er gert með þessum hætti og ég harma að það sé gert.
    Ég vil skora á hv. þm. að líta við hjá okkur í allshn. og líta yfir allar þær umsóknir sem þar liggja fyrir og þann fjölda manna sem stendur í rauninni nær því að fá undanþágu en þetta tiltekna fólk sem hér er til umræðu. Ég bið hv. þm. að taka þá afstöðu í málinu og koma þá hér og mæla fyrir því að allt þetta fólk fái þá líka ríkisborgararétt svo að eitt gangi yfir alla.
    Ég kom aðallega upp af sömu ástæðu og hæstv. umhvrh. Ég get engan veginn setið undir því að á þeim fimm árum sem ég hef setið í allshn. hafi litarháttur fólks nokkurn tíma komið til umræðu, að hann hafi nokkurn tíma skipt máli í afstöðu manna. Það hefur þá verið fyrir minn tíma og undir þessu vil ég engan veginn sitja. Ég geri sömu kröfu og hæstv. umhvrh. að þetta verði skýrt með dæmum því að þetta er mjög alvarleg ásökun á hendur þeim sem hafa setið í allshn. í gegnum árin.
    Að öðru leyti tek ég undir það og ég minntist á það nokkrum sinnum þegar við sátum saman í allshn., ég og hv. þm. Guðrún Helgadóttir, að reglurnar beri að endurskoða og ég tek fyllilega undir það að þær eru allt of þröngar og allt of stífar. Ég hvet ráðherra til þess að taka undir það með okkur. En það er bara allt annað mál. En að litarhátturinn hafi ráðið afstöðu manna kannast ég ekki við og alls ekki á þeim

tíma sem ég hef þar setið.