Veiting ríkisborgararéttar

101. fundur
Fimmtudaginn 12. mars 1992, kl. 15:16:00 (4347)

     Kristín Ástgeirsdóttir :
    Herra forseti. Ég hef aldrei komið nálægt starfi allshn. og mér er því ekki kunnugt um hvernig þar hefur verið unnið að málum en ég fæ ekki betur skilið af þeirri umræðu sem hér hefur átt sér stað en þar sitji þingmenn við að fara í gegnum umsóknir um ríkisborgararétt. Ég verð að segja að mér kemur það býsna spánskt fyrir sjónir að þingmenn skuli fara svo nákvæmlega yfir einstaka umsóknir. Mér finnst það sýna að hér vantar tilfinnanlega nýja löggjöf um þessi mál og ég tek undir með hv. þm. Guðrúnu Helgadóttur að hér er greinilega mikil þörf á nýrri löggjöf.
    Ég átti þess kost í haust að sækja fund á vegum Evrópuráðsins um innflytjenda- og flóttamannamál sem haldinn var í Austurríki. Þar kom fram að Austurríkismenn eru búnir að vera að vinna að breytingum á sinni innflytjendalöggjöf í nokkur ár. Það hefur tekið nokkur ár vegna þess að þingið hefur verið í mjög náinni samvinnu við ýmis samtök, Rauða krossinn og ýmis hjálparsamtök, sem vinna að málefnum flóttamanna og hefur gefið þessum samtökum kost á því að koma með breytingartillögur. Menn hafa ekki verið ánægðir með útkomuna en þess var að vænta síðast þegar af fréttist að löggjöfin væri í þann veginn að líta dagsins ljós.
    Nú skal það auðvitað viðurkennt að Austurríkismenn eiga við mun stærri mál að glíma en við. Þangað er stríður straumur flóttamanna enda hafa þeir verið afar rausnarlegir gagnvart því fólki sem þangað hefur leitað þó að ýmsum hafi þótt að stjórnvöld þar væru heldur hörð í horn að taka. En ég held að það geti ekki talist eðlilegt að þingmenn sitji við að fara yfir umsóknir þess fólks sem hér vill setjast að. Hér á heldur að vera skýr löggjöf um það hvaða skilyrði þarf að uppfylla og sú löggjöf á að vera í samræmi við alþjóðlegar reglur sem um það gilda. Ég vil því beina því til hæstv. dómsmrh. að hann geri nú gangskör að því að endurskoða löggjöfina um útlendinga og þar með að nafninu á þeirri löggjöf verði breytt og hún gerð svolítið vinsamlegri því fólki sem hér vill setjast að.