Jarðgöng milli Fáskrúðsfjarðar og Reyðarfjarðar

101. fundur
Fimmtudaginn 12. mars 1992, kl. 15:46:01 (4354)

     Flm. (Hrafnkell A. Jónsson) :
    Herra forseti. Sú tillaga sem ég flyt hér á þskj. 497 er 292. mál þingsins og ég flyt ásamt hv. þm. Jóni Kristjánssyni, lýtur að því að fela hæstv. samgrh. að láta fara fram könnun á hagkvæmni þess að gerð verði jarðgöng á milli Fáskrúðsfjarðar og Reyðarfjarðar. Við það verði miðað að jarðgöngin verði þáttur í gerð hringvegarins.
    Mönnum kann að þykja það lúta að hefðbundu kjördæmapoti þingmanna þegar þeir flytja tillögur um umfangsmikil samgöngumannvirki. Ég bið þó þá sem skoða vilja þetta mál að líta á það í samhengi við þá byggðaþróun sem nú á sér stað og þá breyttu atvinnuhætti sem Íslendingar búa við í dag. Tengingin á milli Fáskrúðsfjarðar og Reyðarfjarðar er að því leyti frábrugðin annarri jarðgangagerð, sem menn hafa rætt um á undanförnum árum, að það er ekki verið að leysa árstíðarbundin samgöngumál. Það

er hægt að komast þessa leið með öðrum hætti án þess að þurfa að fara yfir fjallvegi.
    Það sem gerist hins vegar með því að tengja þessi tvö byggðarlög með jarðgöngum er það að hringvegurinn styttist um 32 km og nokkrir þéttbýlisstaðir á Austurlandi geta skapað eina heild svo að á því svæði sem um er að ræða mundi skapast samfellt atvinnu- og þjónustusvæði. Hér er um að ræða sex sveitarfélög sem þann 1. des. 1991 höfðu 3.323 íbúa innan sinna raða.
    Skilað var áliti fyrir nokkru síðan af hálfu nefndar sem hæstv. félmrh. skipaði um skiptingu landsins í sveitarfélög. Þar eru gerðar róttækar tillögur um breytingar á núverandi skipan sveitarfélaga þar sem m.a. er talað um það samkvæmt einni tillögunni að sveitarfélögunum í landinu fækki verulega þannig að þau verði 25--30. Það sem ætlunin er að vinna með þessari breytingu er m.a. að skapa sveitarfélögunum í landinu betri skilyrði til þess að sinna þjónustu við íbúa í viðkomandi sveitarfélögum auk þess sem augljóslega yrði um að ræða verulega hagkvæmni í opinberum rekstri. Stór þáttur í að skapa þessi skilyrði er að gera það með breytingum á samgöngukerfinu. Að því lýtur flutningur þessarar þáltill. að könnuð verði ein þeirra leiða sem til greina koma til þess að gera Miðausturland að samfelldu atvinnu- og þjónustusvæði sem hugsanlega gæti síðan leitt til þess að þarna fækkaði sveitarfélögum verulega. Ég vil hins vegar vara við því að ætla að leysa allan vanda hinna dreifðu byggða með því að sameina sveitarfélög. Það er jafnfráleitt og það að ætla að leysa allan vanda atvinnulífsins með því að sameina fyrirtæki. Þarna geta komið upp margvísleg atvik sem gera það að verkum að hagkvæmni stærðarinnar er í sjálfu sér ekki töfralausnin sem um er að ræða.
    Ég hef vakið athygli á því að hin opinbera, samfélagslega þjónusta gæti orðið mun hagkvæmari með því að leysa samningamálin á þennan hátt og nota uppbyggingu samgangna sem lið í því að skapa okkur hagkvæmara, betra og ódýrara samfélag. En auðvitað koma fleiri atriði til. Það má ekki gleyma því að með styttri vegalengdum minnkar vitaskuld allur kostnaður við umferð. Og þó að ég segði hér áðan að hagkvæmni stærðarinnar væri ekki endilega alltaf töfralausnin í því að breyta atvinnulífinu á þann veg að það verði hagkvæmara þá skapar þetta vissulega meiri möguleika í atvinnulífinu á þessu svæði eins og gerist alls staðar þar sem byggð eru samgöngumannvirki sem auðvelda samskipti manna á meðal.
    Tillaga þessi er flutt m.a. af þeirri ástæðu að núv. hæstv. ríkisstjórn hefur það á sinni stefnuskrá að hraða lagningu bundins slitlags á hringveginn. Það er mikið atriði og skiptir verulegu máli nú þegar hver einasta króna sem eytt er í opinberar framkvæmdir skiptir máli. Þá er mjög mikilsvert að þær framkvæmdir sem unnið er að séu með þeim hætti að þær nýtist sem best þegar til lengri tíma er litið. Það er vissulega hægt að fara í ódýrari lausnir sem kosta minna meðan verið er að framkvæma hlutina en munu þegar til lengri tíma er litið verða dýrari. Þess vegna tel ég að þó að við getum fundið ódýrari lausnir til þess að ljúka lagningu slitlags á hringveginn á því svæði sem um er að ræða, þ.e. á veginn milli Fáskrúðsfjarðar og Reyðarfjarðar, þá tel ég það mjög brýnt að þessi leið verði skoðuð jafnframt þannig að hún verði alla vega inni í myndinni þegar ákvörun verður tekin í þessu.
    Ég vil síðan taka það skýrt fram að ég tel mikinn mun á því þegar verið er að leita lausna í samgöngumannvirkjum hvort verið er að byggja upp ódýrari og betri samgöngur, stytta leiðir á milli staða eða hvort verið er að leysa byggðarlög úr fjötrum einangrunar um lengri tíma. Ég tel að þessu tvennu megi ekki blanda of mikið saman. Það er auðvitað tilhneiging til þess vegna þess hvernig skiptingu vegafjár er háttað. Oft er dæmið sett upp þannig: Komi framlag í þessa tilteknu framkvæmd eða í þetta tiltekna kjördæmi þýðir það að þið fáið ekki fjármagn til einhverra annarra framkvæmda í sama kjördæmi. Ég vona að þetta sjónarmið sé á undanhaldi vegna þess að þegar til lengri tíma er litið mun það ekki leiða til hagkvæmustu lausna. Þess vegna vænti ég þess að hv. samgn., sem væntanlega fær þessa þáltill. til umfjöllunar, muni líta á þetta sem lið í því að loka hringveginum en ekki sem hluta af einhverri kvótaskiptingu fjármagns til stórframkvæmda á milli landshluta.
    Ég legg síðan til að þáltill. sé vísað til hv. samgn. og síðari umr.