Jarðgöng milli Fáskrúðsfjarðar og Reyðarfjarðar

101. fundur
Fimmtudaginn 12. mars 1992, kl. 16:04:00 (4356)

     Valgerður Sverrisdóttir :
    Hæstv. forseti. Hér er til umræðu þáltill. frá tveimur hv. þm. Austurl., Hrafnkeli A. Jónssyni og Jóni Kristjánssyni, um að láta fara fram könnun á hagkvæmni þess að gerð verði jarðgöng á milli Fáskrúðsfjarðar og Reyðarfjarðar. Er ekkert nema gott um það að segja og að sjálfsögðu get ég lýst stuðningi við það að slík könnun far fram. Ég mætti sjálf á fund á Fáskrúðsfirði ekki alls fyrir löngu og mér er vel kunnugt um áhuga fólks á þessu svæði fyrir jarðgöngum. En það er ein spurning sem mig langar til að bera upp við hv. frsm. og hún er sú hvort þingmennirnir séu með þessum tillöguflutningi að taka afstöðu eða forgangsraða á einhvern hátt jarðgangagerð á Austurlandi. Mér er kunnugt um að það er nokkuð viðkvæmt mál og eftir því sem ég best veit hafa samtök sveitarfélaga á Austurlandi ekki treyst sér til

þess enn sem komið er að forgangsraða því að það er satt að segja um nokkuð marga staði að ræða þar sem Austfirðingar hafa áhuga á að bora göt í gegnum fjöll. Þess vegna ber ég nú upp þessa spurningu við hv. þm.