Jarðgöng milli Fáskrúðsfjarðar og Reyðarfjarðar

101. fundur
Fimmtudaginn 12. mars 1992, kl. 16:13:00 (4358)


     Eyjólfur Konráð Jónsson :
    Herra forseti. Mig langar að lýsa yfir stuðningi mínum við þá tillögu sem hér er til umræðu. Að sjálfsögðu á slík rannsókn að fara fram og við eigum að hraða vegagerð mjög umfram það sem gert hefur verið. En þetta leiðir athygli mína að því að fyrir um það bil hálfum öðrum áratug samþykkti Alþingi í heild sinni frv. til laga um happdrættislán vegna norðurvegar og austurvegar. Þá var gert ráð fyrir að ljúka þeim vegi á fjórum árum, þ.e. veginum frá Reykjavík til Akureyrar fulluppbyggðum og að miklu leyti með föstu slitlagi, eins og það var þá kallað, og á hinn bóginn veginum frá Reykjavík til Egilsstaða. Vegurinn fékk þá nafnið hringvegurinn. Frv. fluttu þingmenn úr öllum flokkum og ég held að ég megi fullyrða að það hafi verið samþykkt einróma. Það kom í kjölfar þess að lokið var happdrættisláni vegna vegar um Skeiðarársand sem Jónas Pétursson þáv. þm. flutti og fékk samþykkt.
    Þá eins og nú var farið að tala um það að við hefðum ekki efni á þessu, reyndar ekki alveg strax. Fyrst voru teknir peningar í Borgarfjarðarbrúna, sem var auðvitað gott verk, af þessum peningum því að sérfjárveiting dugði ekki. Það var kannski ekki mikið við því að segja þótt verkið drægist eitt eða tvö ár vegna Borgarfjarðarbrúar sem auðvitað var mjög nauðsynleg líka. En síðan varð lítið úr framkvæmd þessara laga sem raunar voru lengi í gildi og eru eflaust í gildi enn þá. En þá voru röksemdirnar sem sagt þessar: Íslendingar hafa ekki efni á þessu. Það eru engir peningar til.
    Nú eru peningar aðeins ávísun á verðmæti, raunveruleg verðmæti og Íslendingar hafa auðvitað aldrei verið eins ríkir og í dag. Þess vegna þýðir ekkert að segja manni að það séu ekki til peningar til að ljúka slíkum nytjaframkvæmdum sem þessum. Sú röksemd má ekki ráða ríkjum hér í þinginu. Og auðvitað er það mesta tap þjóðarinnar sem hugsast getur að gera ekki slíka hluti sem eru arðvænlegir heldur horfa jafnvel upp á atvinnuleysi eða iðjuleysi fólks. Þetta allt saman kom fram í þeim umræðum sem urðu þá og þingmenn voru á einu máli um að þessu ætti að framfylgja.
    Ég vil taka það sérstaklega fram að ég var þingmaður fyrir dreifbýlið þegar ég flutti þetta frv. sem 1. flm. Reykvíkingarnir studdu það ekki síður en þeir sem voru búsettir annars staðar. Þeir skildu þetta þá og þeir skilja það enn. Þess vegna þarf ekki að vera neinn rígur á milli byggðarlaga um þetta. Stuðningur Reykvíkinga við það að hraða vegaframkvæmdum er alveg öruggur. Ég held að þess vegna mætti þáltill. vera miklu víðtækari en hún er nú. En við skulum láta það gott heita. Þessi umræða mun halda áfram í vetur og næsta vetur og við munum auðvitað keppa að því að auka auðlegð þjóðarinnar með því að skapa nægilega miklar athafnir í landinu, ekki með því að þær séu of litlar.
    Ísland er ríkasta land heimsins, langsamlega ríkasta í öllu tilliti, og við höfum vel efni á þessu. Við verðum einmitt að nýta allt mannafl í þjóðfélaginu til góðra verka og þar á meðal er auðvitað vegagerðin þótt fyrst og síðast sé það auðvitað fiskurinn, fiskimiðin sem við verðum að tryggja okkur, á Reyjaneshrygg, í Norðurhöfum og víðar og verður væntanlega komið í framkvæmd á þessu ári á næstu vikum og mánuðum. Við erum e.t.v. það rík að við höfum efni á því að gera ekki svona hluti. Þótt við séum moldrík, þá erum við ekki svo rík að við getum farið að geyma okkur vinnuafl og fjármagn í staðinn fyrir að nota hvort tveggja.