Jarðgöng milli Fáskrúðsfjarðar og Reyðarfjarðar

101. fundur
Fimmtudaginn 12. mars 1992, kl. 16:18:00 (4359)

     Jón Kristjánsson :
    Herra forseti. Aðeins örfá orð um þá tillögu sem hér liggur fyrir sem hv. 3. þm. Austurl. er 1. flm. að en ég meðflm. Á Austurlandi er að störfum svokölluð jarðganganefnd sem á að skila áliti um hentuga kosti að jarðgöngum á Austurlandi og jarðgangastæði. Það má kannski spyrja af hverju þessi tillaga er flutt sérstaklega, hvort störf þessarar jarðganganefndar séu ekki nóg og hvort í þessu felist einhver forgangsröðun. Ég gat því miður ekki verið við upphaf þessarar umræðu en ég frétti að hún hefði beinst inn á þær brautir hvort með þessu væri verið að leggja áherslu á að byrja á þessum jarðgöngum. Ég lít ekki svo á að í þessu felist nein forgangsröðun verkefna.
    Í vegamálum er nokkuð bryddað á breyttri hugsun sem hefur þróast með vaxandi samgöngum og styttingu aksturstíma milli byggðarlaga með malbikuðum vegum. Sú hugsun er að þróast hvort með vegagerð megi breyta atvinnusvæðum og þjónustusvæðum og mynda nýjar heildir sem verði sterkari en þær sem fyrir eru. Satt að segja held ég að það skipti nú orðið mjög miklu máli fyrir landsbyggðina að huga að þessum málum, sú sveitarfélagaskipan sem nú er þarfnast breytinga. Landsbyggðarmenn þurfa að skipa sér í sterkari heildir og samgöngurnar eru stór þáttur í því. Það hefur borið á því að hér hefur komið upp umræða um hvernig hringvegurinn eigi að liggja og umræður verið um styttingu á honum, styttingu leiðarinnar kringum landið. Stuðningur minn við þessa tillögu byggist á því að mér finnst sjálfsagt að þessi vegagerð sé einn þáttur í umræðunni. Ég geri mér alveg ljóst að þessi mál eru viðkvæm þegar þau ber á góma, ekki síst forgangsröðun verkefna á Austurlandi. Þegar tillaga jarðganganefndar liggur fyrir verður málið athugað en mér finnst eigi að síður nauðsynlegt að þessi kostur fylgi með í umræðunni um legu hringvegarins. Með því er engan veginn verið að draga úr mikilvægi annarra vega og ekki úr mikilvægi annarrar jarðgangagerðar. En þetta eru framtíðarmál sem við erum að ræða hér. Og þetta eru það miklar framkvæmdir að það er nauðsynlegt að gera sér sem allra besta grein fyrir málum og hvaða áhrif þau munu hafa. Það eru engar smáframkvæmdir sem hér er um að ræða og það skiptir miklu máli að vandað sé til alls undirbúnings og kannanir séu sem vandaðastar. Á því byggist það að ég skrifaði upp á þessa tillögu og ég er engan veginn að láta í ljós skoðun á forgangsröð verkefna á Austurlandi með því.
    Við höfum í jarðgangagerð hingað til farið eftir þeirri hugsun fyrst og fremst að rjúfa einangrun byggðarlaga. Eigi að síður erum við t.d. með jarðgangagerð á Vestfjörðum og þá er hugsunin að stækka atvinnusvæði og þjónustusvæði og við bindum miklar vonir við jarðgangagerð þar vestra, að hún lyfti þeim landshluta og skapi þar sterkari heild og annað umhverfi. Þess vegna höfum við á Austurlandi mikinn áhuga á því að vera með og koma á eftir næstir í röðinni þegar stórframkvæmdum lýkur vestra og er nauðsynlegt að undirbúa það sem best.
    Ég vil að lokum ítreka að stuðningur minn við þessa tillögu byggir á því að mér finnst rétt og sjálfsagt að þessi kostur sé með í umræðunni og menn geti gert sér ljósa grein fyrir því hvað hann kostar og hvaða leiðir eru heppilegastar þegar ákveðin er lega hringvegarins í kringum landið.