Framþróun sjávarútvegsbyggða

101. fundur
Fimmtudaginn 12. mars 1992, kl. 16:28:00 (4362)

     Flm. (Sveinn Þór Elinbergsson) :
    Virðulegur forseti. Ég ber hér fram till. til þál. á þskj. 513 um framþróun sjávarútvegsbyggða en hún hljóðar svo, með leyfi forseta:
    ,,Alþingi ályktar að fela ríkisstjórninni að móta stefnu um framþróun sjávarútvegsbyggða sem byggð verði á samnýtingu þeirra á aflaauðlindinni annars vegar og framleiðslu- og þjónustuframboði strandbyggða sem að henni liggja hins vegar.
    Stefnt skal að því að leggja stefnumótun þessa fram við upphaf 116. löggjafarþings.``
    Í greinargerð með þessari þáltill. segir svo:
    ,,Miklir erfiðleikar steðja nú að mörgum sjávarútvegsbyggðum þar sem sjávarútvegsfyrirtæki hafa orðið gjaldþrota og önnur eiga í talsverðum rekstrarerfiðleikum. Þetta ástand samhliða sífellt þrengri aflaheimildum skapar víða mikla óvissu og stöðnun í nauðsynlegri framþróun höfuðatvinnugreinar þessara byggða við þær nýju aðstæður í markaðs- og efnahagsmálum sem fram undan eru. Markmið nýrrar stefnumótunar ríkisvaldsins og nýrra áherslna væri að mæta núverandi erfiðleikum margra sjávarútvegsbyggða og fyrirtækja ásamt því að stuðla að tímabærum breytingum til aðlögunar að nýjum aðstæðum í atvinnu-, efnahags- og markaðsmálum.
    Öllum er ljóst að vandi þessi er ekki einasta vandi viðkomandi fyrirtækja heldur um leið þess sveitarfélags er í hlut á og þar af leiðandi þess fólks sem þar býr og byggir flest lífsafkomu sína á veiðum og vinnslu. Ný stefnumörkun og nýjar áherslur á framþróun í þessum höfuðatvinnuvegi þjóðarinnar hljóta því fyrst að byggjast á núverandi ástandi og horfum. Því er rétt að hún taki jafnt til fyrirtækjanna og þeirra sveitarfélaga sem byggja afkomu sína nær einvörðungu á veiðum og úrvinnslu aflans ásamt þeirri þjónustu er í kringum það skapast. Nú er svo komið víða á strandbyggðinni að mikill vandi steðjar að sveitarfélögum og um leið búsetuskilyrðum fólks því að gjaldþrotum og lokunum sjávarútvegsfyrirtækja fjölgar stöðugt.
    Mörg sveitarfélög hafa brugðist við þessu ástandi á ýmsa vegu, m.a. með því að breyta skuldum þessara fyrirtækja í hlutafé og eru þau þannig orðnir þátttakendur í atvinnulífinu á viðkomandi stað. Dæmi eru um sveitarfélög sem gerst hafa beinir þátttakendur með kaupum á skipum og aflaheimildum til að halda aflaheimildum í byggðinni; önnur hafa veitt ábyrgðir á lán til fyrirtækja; enn önnur bíða átekta. Slík þróun, að sveitarfélög neyðist til þátttöku í atvinnulífinu með einum eða öðrum hætti, hlýtur að teljast óæskileg.
    Í þessum sveitarfélögum eru og hafa verið drýgstu þættir í verðmætasköpun undanfarinna áratuga. Víða blasir nú hins vegar við að réttur fólks til atvinnu er orðinn aðþrengdur. Því þarf nú þegar að grípa til ráðstafana sem duga til frambúðar. Þess vegna er þörf á stefnumörkum sem taki mið af nýjum og breyttum aðstæðum í þessu tilliti.
    Markmið þeirrar stefnumörkunar hljóta því að mótast af samnýtingu fjárfestinga í mannvirkjum, vélum og tækjum, höfnum og þeim þjónustuþáttum sem fyrir eru ásamt rýmkun atvinnusvæða stéttarfélaga samhliða rýmkaðri og breyttri svæðaskiptingu sveitarfélaga til að skjóta styrkari stoðum undir sterka og vaxandi byggðakjarna þar sem svo háttar til. Slíkt hefði í för með sér fækkun fyrirtækja en tæki um leið tillit til nýrra möguleika í framleiðsluháttum og markaðssetningu. Síðast en ekki síst næði slík stefnumörkun til nýrra áherslna í samgöngumálum hvað varðaði hafnarmannvirki, vega- og flugsamgöngur sem gerði stærri og sameinuð svæði hæfari og betur í stakk búin til betri nýtingar hráefnis og framleiðsluþátta sinna um leið og þau nýttu sér frekari kosti í markaðsvæðingu þar sem eru fiskmarkaðir og góð vega- og flugsamgöngumannvirki.
    Því má segja að saman fari frekari uppstokkun atvinnufyrirtækja til aukinnar og tímabærrar hagræðingar ásamt því að losa um þá stöðnun er nú ríkir og auðvelda sjávarútvegsbyggðunum nauðsynlega aðlögun að nýjum aðstæðum er kunna að skapast á næstu árum í efnahags- og markaðsmálum til aukins hagvaxtar í formi meiri verðmætasköpunar í íslenskum sjávarútvegi.``
    Virðulegur forseti. Málatilbúnaður þessi er hér fram borinn vegna ófremdarástands sem víða hefur skapast í strandbyggðum landsins í atvinnulífi nokkurra hefðbundinna sjávarútvegsstaða, þar sem tilverurétti þeirra er ógnað og sífellt þrengir að atvinnurétti fólks og þá sérstaklega í fiskvinnslu og hins sem bíður handan hornsins að aflokinni nauðsynlegri hagræðingu fyrirtækja í veiðum og vinnslu til þeirra mögulegrar framþróunar sem gæti átt sér stað ef rétt verður á málum haldið næstu missirin og árin. Til þess að svo megi verða verða stjórnvöld að gera ráðstafanir í tæka tíð svo við missum ekki af tækifærum til framþróunar þessara arðbæru byggða sem lengi hafa skapað drýgstan hluta þjóðartekna og hafa ekki látið helgidaga eða háttatíma stöðva sig í verðmætasköpun til þjóðfélagsins. Það gerist best með stefnumótun ríkisstjórnar um hvernig best verði að málum staðið, með því að móta einhvern þann ramma sem gæfi stefnuna með ýmsum hætti, byggða á óyggjandi hlutlægum upplýsingum um núverandi stöðu mála þar sem tekið yrði til grundvallarþátta sem er atvinnuréttur fólks og samhæfing á stöðu byggðarlaga. Ég trúi því og treysti að núv. ríkissjórn dragi upp framtíðarlínur um mögulega framrás þessa aðalatvinnuvegs landsmanna.
    Virðulegur forseti. Ég minnist þess að hafa heyrt af umræðum á Alþingi fyrir nokkrum vikum um efnahags- og atvinnumál þar sem hæstv. forsrh. hafi viðhaft orð í þá veru að ríkisstjórnin væri að plægja akurinn til nýrrar sáningar í þessum efnum, og enn fremur hæstv. viðskrh. viðhafa þau orð í sömu umræðu að þegar sáning hefði farið fram yrði að vinna málum fram að yfirveguðu og vel athuguðu máli. Þess vegna er rétt að strax hefjist mótun stefnu sem aðilar atvinnulífs taki mið af þegar möguleikar greinarinnar verða greindir. Annars blasir ekkert annað við en áframhaldandi stöðunun krydduð af gjaldþrotum sífellt fleiri fyrirtækja með hverjum mánuðinum sem líður.
    Margir þættir hljóta að koma þarna við sögu. Ég nefni nýja markaðssókn í nýjum og fleiri ferskfiskmörkuðum í framtíðarskipan Evrópu, jafnvel á fjarlægari stöðum í öðrum heimsálfum, tilkomu og aðlögun fiskmarkaða, nýrra áherslna í samgöngumálum og nýtingu fjárfestinga í þeim samgöngumannvirkjum sem eru flugvellir og frekari flutningatækni, rýmkun atvinnusvæða verkalýðsfélaga ásamt rýmkun á svæðum og svæðaskipulagi sveitarfélaga með sameiningu þeirra þar sem það hentaði. Þá taki stefnumótun mið af stöðu og hlutverki viðkomandi sveitarfélaga sem þurft hafa af illri nauðsyn að grípa til aðgerða vegna óöryggis í atvinnumálum. Auðvitað taki hún mið af endurskoðun sjávarútvegsstefnunnar og þá nefni ég frekari leiðir um úrvinnslu sjávarafla með það að marki að gera sem mest verðmæti úr sífellt minnkandi afla úr sjó. En ný stefnumótun á fyrst og fremst að benda á möguleikana, ýta undir skynsamlegar ráðstafanir í tæka tíð um leið og hún tekur tillit til kosta þess sem fyrir er ásamt atvinnurétti fólks og byggðarlaga sem um áratuga skeið hafa sérhæft sig í veiðum og vinnslu í landi og á sjó um leið og það hefur byggt upp blómlegar byggðir við sjávarsíðuna.
    Virðulegur forseti. Fyrir þetta fólk, fyrir þessi sveitarfélög er það allsendis ný tilfinning að vakna upp við það að það hafi e.t.v. ekki nokkrun arð af þessari rúmlega hálfrar aldar uppbyggingu sinni. Sama fólk, sömu sveitarfélög trúa því og treysta að fram geti farið þróun til nýrra tíma á kostum fólksins og byggðarlaganna.
    Virðulegur forseti. Ég ætla nú að ljúka máli mínu en að lokum vona ég að um þessa þáltill. verði góð umræða og enn fremur legg ég til að henni verði vísað til félmn. Alþingis að lokinni fyrri umr.