Seðlabanki Íslands

102. fundur
Mánudaginn 16. mars 1992, kl. 14:04:01 (4376)

     Steingrímur J. Sigfússon :
    Hæstv. forseti. Ég kveð mér hér hljóðs til að gera grein fyrir fyrirvara sem ég hef á nál. um þetta mál, 31. mál þingsins og varðar breytingar á lögum um Seðlabanka Íslands, nr. 36 frá 5. maí 1986. Fyrirvari minn lýtur aðallega að tvennu í þessu sambandi. Það er annars vegar að stöðu Seðlabankans sjálfs í ljósi þess hlutverks sem honum er ætlað að gegna, m.a. í vaxandi mæli í kjölfar þessarar lagabreytingar. Hins vegar lýtur hann að tengslum þessarar lagabreytingar við áform hæstv. ríkisstjórnar m.a. í gengismálum varðandi tilhögun gengisskráningar, hlutverk Seðlabankans og fleiru af því tagi. Sem sagt, efnislega er ég ekki andvígur breytingunni þó að þar mætti reyndar að mínu mati takast betur til hvað orðalag snertir. En efnislega er það mín afstaða að ekki sé óeðlilegt að skipan þessara mála verði með þeim hætti sem frv. gerir ráð fyrir. Reyndar er það ekki ýkja mikil efnisbreyting frá gildandi lögum. Ég vil hins vegar hafa fullan fyrirvara á um stöðu Seðlabankans í þessu sambandi, að hann sé í stakk búinn eða verði á næstu árum til þess að axla það hlutverk sem nýskipan gjaldeyrismála ætlar honum. Hins vegar og ekki síður vil ég hafa skýran fyrirvara á um áform hæstv. ríkisstjórnar m.a. í tengslum við svonefnda ECU-tengingu krónunnar eða önnur áform af því tagi.
    Það er rétt að taka fram að efh.- og viðskn. hefur orðið sammála um að leggja til ákveðnar brtt. við frv. Þær eru til bóta að mínu mati, sérstaklega hvað varðar það að lagt er til að endurorða B-lið 3. gr. laganna þar sem vikið er að hlutverki Seðlabankans gagnvart því að varðveita og efla gjaldeyrisvarasjóð. Í samræmi við nútímalega skipan þeirra mála er kveðið á um það í fyrri lið brtt.
    Síðan er hin meginbreytingin, sú sem snýr að 18. gr. laganna um Seðlabankann, og varðar það með hvaða hætti Seðlabankinn skuli standa að verðlagningu íslensku krónunnar gagnvart erlendum gjaldmiðlum. Ég er reyndar þeirrar skoðunar að óþarfi sé að tyggja upp allar hugsanlegar útgáfur af því með hvaða hætti megi tengja íslensku krónuna við erlendar myntir, samsetta gjaldmiðla eða mynteiningar. Nægjanlegt væri að segja ósköp einfaldlega að heimilt væri að miða gengi krónunnar eða skilgreina það gagnvart erlendum gjaldmiðli eða gjaldmiðlum eða mynteiningum af því tagi í staðinn fyrir að segja, sem er heldur óþjált svo að ekki sé fastar að orði kveðið, eins og gert er í texta brtt. 482, með leyfi forseta:
    ,,Heimilt er að ákveða að gengi krónunnar skuli skilgreint gagnvart einum erlendum gjaldmiðli, meðaltali erlendra gjaldmiðla eða samsettum gjaldmiðli, svo sem evrópsku mynteiningunni (ECU) og sérstökum dráttarréttindum Alþjóðagjaldeyrissjóðsins (SDR).``
    Það er að mínu mati ekki skemmtilegur né mjög markviss lagatexti að segja ,,svo sem`` eitthvað af þessu tagi. Að mínu mati er alger óþarfi að nefna þarna einn möguleika öðrum fremur. Það er öllum ljóst hvað átt er við. Seðlabankinn fær með þessum breytingum mjög frjálsar hendur gagnvart því að miða gengi íslensku krónunnar við erlendan gjaldmiðil, gjaldmiðla eða eitthvert slíkt vægi. Ég tel svo fremi sem ekki vakir einhver ákveðinn pólitískur tilgangur fyrir mönnum með því að nefna t.d. ECU-eininguna væri textinn skemmtilegri með því að hafa þetta á hinn veginn. Þessari ábendingu vil ég koma hér á framfæri og mér finnst að enn mætti laga til orðalag í þessum efnum.
    Meginefni þessa máls er auðvitað sú breyting á tilhögun gengisskráningar sem þarna er verið að undirbúa og er væntanleg ef marka má það sem fylgt hefur þessu máli í framsöguræðu hæstv. ráðherra og þau áform önnur sem upplýst hefur verið um, þar á meðal í heimsókn Seðlabankans til efh.- og viðskn. þegar farið var yfir þetta mál. Ég held að það sé nauðsynlegt að Alþingi ræði það og móti fyrir sitt leyti einhverja afstöðu um hvert eigi að stefna. Í fyrsta lagi er auðvitað rétt að undirstrika að hér er á ferðinni tiltölulega galopin heimild til handa Seðlabankanum að höfðu samráði við ríkisstjórn á hverjum tíma að fara með þessi mál nánast eins og honum sýnist. Lögin skilyrða eða takmarka sáralítið hvernig að þessu verði staðið. Reyndar er það svo að það er álit Seðlabankans að ekkert sé því til fyrirstöðu að miða gengi íslensku krónunnar t.d. við ECU að gildandi lögum ef mönnum sýnist svo, gera það þá á grundvelli þeirrar heimildar að heimilt er að skilgreina gjaldmiðlakörfuna sem miðað er við. Formsatriðin skipta að sjálfsögðu ekki öllu máli heldur hitt hvað menn ætla sér og hvernig þeir ætla að standa að þessum breytingum. Hvernig á að tryggja að þær verði farsælar þegar og ef í þær verður ráðist. Þar má fyrst nefna þau áform Seðlabankans að reyna að koma hér á markaði með gjaldmiðla eða gjaldeyri og var það að skilja á máli seðlabankamanna að jafnvel þegar í haust yrði reynt að stíga fyrstu skref í átt til skráningar á markaði. Þessu tengist að sjálfsögðu það afnám skilaskyldu á gjaldeyri sem annað fylgifrv. þessa felur í sér og fleira kemur til.
    Í þessu sambandi óskaði efh.- og viðskn. eftir upplýsingum um stöðu Seðlabanka Íslands, stærð hans og burði í samanburði við seðlabanka t.d. hinna Norðurlandanna eða nágrannalandanna. Það kom í ljós að Seðlabankinn sker sig ekki ýkja mikið úr hvað varðar stöðu seðlabankanna í nágrannalöndunum, t.d. þegar skoðaður er gjaldeyrisforðinn hér sem hlutfall af landsframleiðslu eða innflutningi eða skoðaðar eru eignir og eigið fé Seðlabankans sem hlutfall af hinu sama. En þó er það þannig því miður að þegar horft er á hlutfall gjaldeyrisforða og eigna Seðlabankans miðað við innflutning, þá er hann lakast staddur allra norrænu seðlabankanna í þessum efnum. Þegar horft er á hlutfall gjaldeyrisforða og eigna miðað við landsframleiðslu er Seðlabankinn í næstaftasta sætinu hvað þetta snertir. Það er því alveg ljóst að hann er þarna á veikari kantinum í þessum efnum. Það hlýtur að vera mönnum nokkurt umhugsunarefni ef þeir ætla honum sambærilegt hlutverk og seðlabönkum nálægra landa við að jafnvægisstilla markaðinn og halda gengi stöðugu og því fremur sem við Íslendingar verðum að ætla að okkar tiltölulega einhæfa atvinnulíf og einhæfa útflutningsstarfsemi með sínum miklu sveiflum geri það að verkum að jafnvægisstillir á þessu sviði þarf að vera öflugri en annarra.
    Ég verð því að segja, hæstv. forseti, að ég tel að því miður hafi þær efasemdir og áhyggjur sem lýst var við 1. umr. þessa máls fyrr í vetur reynst fullkomlega réttmætar. Það er veruleg ástæða til að fara mjög varlega og gera sér grein fyrir þeim takmörkunum sem Seðlabankanum eru settar stærðar sinnar vegna og vegna aðstæðna í íslenskum efnahagsmálum til að leika þetta hlutverk. Hvort tveggja hlýtur þar að koma til, menn verða að vanda mjög allan undirbúning í þessum efnum og taka öll skref varlega og mátulega stór þegar og ef menn halda inn á þessa braut. Sem betur fer hefur nú slegið aðeins á trúboðsbraginn í umræðum um þessi efni en því miður var það svo að ýmsir lausnarar gengu hér fram á sviðið og töldu í vor að allur vandi mundi leysast með ECU-tengingu krónunnar. Það væri nánast eins og að tryggja hér stöðugleika og lága verðbólgu um aldur og ævi að láta sér detta það snjallræði í hug. Niðurstaða þeirra sem þetta hafa skoðað á undanförnum mánuðum, og þá vísa ég bæði til Þjóðhagsstofnunar og Seðlabankans, er nú engu að síður sú að það sé ekki tímabær aðgerð. Heilmikla undirbúningsvinnu þurfi að vinna og efla Seðlabankann, grípa til margs konar ráðstafana áður en slíkt er raunhæft.
    Ég fagna því að sjálfsögðu að menn hafa róast nokkuð niður í þessum efnum og gera sér grein fyrir því að slíkum breytingum verður ekki við komið með farsælum hætti í einu vetfangi. Ég held að við gætum upplifað slíkar ógöngur í þessum efnum hvað gengismálin snertir og menn gerðu í vaxtamálunum þegar menn á sínum tíma ætluðu sér í einu vetfangi að taka heljarstökk út í frelsið, eins og það var nefnt, með hörmulegum afleiðingum auðvitað. Vaxtamál hafa meira og minna farið úr böndunum á Íslandi og verið einhver mesti ójafnvægisvaldur í okkar efnahagsmálum og atvinnumálum síðan. Ég hlýt að spyrja hæstv. viðskrh. á nýjan leik um áform hæstv. ríkisstjórnar í þessum efnum. Eru menn enn með það í huga að ECU-tenging krónunnar geti orðið að raunveruleika jafnvel á næsta ári, eins og mig minnir að ég hafi heyrt hæstv. viðskrh. einhvern tíma boða? Er ekki ástæða til að fara mjög varlega, m.a. í ljósi þess álits bæði Þjóðhagsstofnunar og Seðlabanka að ekki sé raunhæft að slíkt verði tekið upp í einu vetfangi?
    Það er staðreynd að staða Seðlabankans er þrátt fyrir allt ekki sterkari en raun ber vitni samanber gjaldeyrisvarasjóðinn hjá þessari þjóð sem engu að síður er í ræðum manna oft og tíðum talin vera sú sem hvað mest er háð milliríkjaverslun, a.m.k. er það í máli sumra manna þegar þeir vilja selja mönnum aukið frjálsræði á því sviði. Þá er gjarnan minnt á það að fáar þjóðir séu jafnháðar milliríkjaverslun og Íslendingar og það er nokkuð til í því þó að menn hafi að vísu stundum ofgert í túlkunum sínum á því sviði. Þar með líka verið að segja væntanlega að mikilvægi þess að eiga sæmilega ríflegan gjaldeyrisforða, að hafa sæmilega öflugan Seðlabanka til að tryggja jafnvægi í gengisskráningu o.s.frv. sé að sama skapi meira hjá okkur en öðrum og að sama skapi þyrfti þá Seðlabanki okkar helst að vera öflugri. Því er ekki að heilsa og ef litið er aftur á þetta hlutfall, t.d. miðað við innflutning, þá er það hið lægsta og mun lægra í reynd en á hinum Norðurlöndunum. T.d. er gjaldeyrisforðinn einungis 18,7% af innflutningi hér en upp í 38% í Noregi. Heildareignir Seðlabankans eru hér 35% af innflutningi en á bilinu 44--76% á hinum Norðurlöndunum og eigið fé Seðlabankans hér er ekki nema 6,8% af árlegu innflutningsverðmæti landsmanna en er frá 7,3% og upp í 14,8% á hinum Norðurlöndunum. Svipaða sögu er að segja ef litið er til landsframleiðslu. Þó má segja að Seðlabanki Íslands sé heldur sterkari borið saman við hin Norðurlöndin og er það eðlilegt þegar hlutfall innflutnings miðað við landsframleiðslu er svo aftur borið saman milli Norðurlandanna.
    Það væri fróðlegt að fá aðeins nánar að heyra um áform hæstv. viðskrh. um praktískar ráðstafanir Seðlabankans í þessum efnum á næstu mánuðum, hvernig menn hyggjast standa að því að taka upp eða hefja viðskipti á gjaldeyri á markaði ekki seinna en næsta haust eins og Seðlabankinn gaf í skyn á fundi sínum með efh.- og viðskn. að gert yrði. Hvernig hugsa menn sér að standa að þeim markaði? Þar ætti mönnum að vera ljóst að mikil undirbúningsvinna hlýtur að að vera eftir því að slíkur markaður er ekki til í bókstaflegum skilningi í dag. Sama má segja um skammtímafjármagnsmarkaðinn sem vitnað er til að þurfi að efla til þess að Seðlabankinn geti með hefðbundnum peningaaðgerðum stillt það jafnvægi af sem þarna kemur til sögunnar, t.d. með því að ríkissjóður hætti að yfirdraga reikning sinn þegar hann þarf á fjármagni að halda hjá Seðlabankanum en leiti þess í stað út á skammtímafjármagnsmarkað með fjármögnun á útgjöldum sínum, þegar svo ber undir. Stórefla þyrfti millibankamarkað eða skammtímafjármagnsmarkað. Í ljósi þess hversu óburðugur slíkur markaður er enn þann dag í dag hlýtur maður að spyrja, hvort þessir hlutir geti allir gerst á nokkrum mánuðum eða í mesta lagi einu til þremur missirum, hvort þetta sé yfir höfuð raunhæft og hvert mat hæstv. viðskrh. sé á því. Auðvitað er líka ástæða til að spyrja hæstv. viðskrh. hvort ekki ríði mikið á að hafa öfluga menn við stjórnvölinn í seðlabanka þjóðarinnar þegar svo örlagaríkar og afdrifaríkar breytingar eru að ganga í gegn í peningamálum okkar og þegar hlutverk og mikilvægi Seðlabankans er augljóslega að stóraukast með þessum breytingum.
    Ein af þeim breytingum sem efh.- og viðskn. hefur orðið sammála um að gera og er kannski dálítið lýsandi fyrir þá hugsun sem að baki liggur, er sú að í stað hefðbundins orðalags um að Seðlabankanum sé heimilt að gera þetta eða hitt til þess að halda gengi krónunnar innan þeirra marka sem ákveðin kunni að verða samanber orðalag í 1. mgr. 2. gr. frv., en þar segir, með leyfi forseta:

    ,,Seðlabankanum er heimilt með kaupum og sölum á erlendum gjaldeyri eða öðrum aðgerðum sem hann telur nauðsynlegar að hlutast til um að gengi krónunnar sé innan þeirra marka sem ákveðin kunna að verða.``
    Ég benti á það í efh.- og viðskn. að ef mönnum væri alvara með því að láta Seðlabankann taka að sér það hlutverk að halda jafnvægi á skráningu gengis krónunnar þá væri þetta orðalag með öllu út í hött og úrelt. Ef Seðlabankinn á að annast þetta hlutverk á það auðvitað ekki að vera í formi einhverra heimilda í lögum til að grípa til heldur skal hann gera það sem þarf til að halda jafnvægi. Með því er undirstrikuð sú skylda og sú ábyrgð sem Seðlabankanum ber. Þess vegna hefur nefndin orðið sammála um að leggja til að þetta orðist þannig: ,,Seðlabankinn kaupir og selur erlendan gjaldeyri eða beitir öðrum aðgerðum sem hann telur nauðsynlegar og hlutast með þeim hætti til um að gengi krónunnar sé innan þeirra marka sem þannig kunna að verða ákveðin.``
    Ef menn vilja fara þessa braut á enda er mér meira að segja til efs að orða eigi samráðsákvæðin við ríkisstjórn með þeim hætti sem þarna er gert í frumvarpstextanum. Ég efast um að rétt sé að draga þá arfleifð frá eldri tíma og fyrra fyrirkomulagi áfram inn í framtíðina og inn í ný lög í þessum efnum og að Seðlabankinn skuli hafa jafnafdráttarlausa skyldu til þess í lagatextanum að afla samþykkis ríkisstjórnarinnar við ákvörðunum sínum. Ég held að menn verði að gera það svolítið upp við sig í hvorn fótinn þeir ætla að stíga í þessum efnum. Ætla þeir að hafa þetta miðstýrða stjórnvaldsákvörðun að einhverju leyti eða á þetta að ráðast af markaði? Ef þetta á að ráðast af markaði, hæstv. viðskrh., þá held ég að menn eigi ekkert að vera hálfvolgir í því. Þá verða menn einfaldlega að sætta sig við að lúta þeim lögmálum sem þar með eru innleidd. Mér fannst það svolítið skemmtilegt að það skyldi verða mitt hlutskipti að benda mönnum á að í raun og veru væru þeir í vissri mótsögn við sjálfa sig með því orðalagi sem lagt var til á 18. gr. laganna.
    Ég hefði gaman af því að heyra hæstv. viðskrh. lýsa viðhorfum sínum til þessa. Í ljósi þess að áform standa til um að láta gengið ráðast á markaði, telur hann þá að samráðsákvæði Seðlabankans við ríkisstjórnina eigi að standa óbreytt með því orðalagi sem þarna er?
    Ég veit ekki, hæstv. forseti, hvort ástæðu er til þess að hafa um þetta öllu fleiri orð. Reyndar kom upp í huga mér, m.a. vegna nokkuð fleygra ummæla sem hæstv. sjútvrh. lét falla um Seðlabankann norður á Akureyri á ágætri ráðstefnu á laugardaginn var, að við þessi tímamót, ekki síður en önnur, væri kannski ástæða til þess að ræða dálítið almennt um hlutverk Seðlabankans og stefnu hans í þessum efnum. Ég hef reynt að halda aftur af mér og blandast ekki um of í þann hóp sem hefur haft það að mikilli íþrótt á undanförnum árum að skamma Seðlabankann. Eins og kunnugt er hefur verið mikil íþrótt hér á landi og heilir stjórnmálaflokkar og stjórnmálamenn meira og minna byggt málflutning sinn í umræðum um efnahags- og peningamál á þeirri list að skamma Seðlabankann og nú bættist hæstv. sjútvrh. með vissum hætti í þennan hóp norður á Akureyri á laugardaginn var. Mér hefur ekki alltaf fundist þetta mjög maklegt vegna þess að ítök stjórnmálamanna eða þeirra flokka sem farið hafa með landsstjórnina undanfarin ár eða jafnvel áratugi í þessum sama Seðlabanka hafa átt að vera nokkuð rík. Þannig eru menn óbeint að skamma sjálfa sig með því að gera Seðlabankann að sökudólgi.
    Ég hef t.d. aldrei gert það að kosningamáli í mínum flokki að reka einn tiltekinn seðlabankastjóra eins og einn flokkur hefur gert. Hins vegar ætla ég að segja það við þessar breytingar, að ég tel það ákaflega afdrifaríkt að Seðlabankinn sem stofnun verði efldur og endurskipulagður og þar verði mjög styrk fagleg stjórn við stýrið á næstu árum ef það á að heppnast að Seðlabankinn leiki það hlutverk í okkar efnahags- og gengismálum sem þarna er verið að boða. Að mínu mati hlyti það að stórauka mikilvægi bankans og gera hann í reynd í fyrsta sinn að þeim alvöru seðlabanka sem nafnið bendir til að hann sé, sem hann hefur hins vegar ekki verið nema að mjög litlu leyti. Þar með tel ég að skipulag bankans og yfirstjórn hljóti að koma til skoðunar eins og aðrir hlutir.
    Ég veit ekki hvort hæstv. viðskrh. leggur út í það að ræða þennan þátt málsins eitthvað. Ef óskað er eftir því á hinu háa Alþingi hlýtur hann að verða að lýsa viðhorfum sínum til þeirra hluta sem lúta að bankanum sem stofnun, skipulagi hans, stjórnkerfi og stjórn og hvort hann telji að hlutirnir séu í nógu traustum skorðum. Eins og kunnugt er hafa ráðningar manna til þess að stjórna bankanum ekki grundvallast fyrst og fremst á menntun eða fagþekkingu þeirra á sviði efnahags- og viðskiptamála heldur eru starfandi þarna í dag til að mynda tveir ágætir fyrrv. alþingismenn, stjórnmálamenn sem væntanlega eru við stjórnvölinn meira á þeim forsendum fremur en vegna menntunar eða reynslu við efnahagsstjórn.
    Ég er þess vegna þeirrar skoðunar að hugleiða ætti hvort ekki sé nauðsynlegt að breyta seðlabankalögunum einnig að þessu leyti. Það er algengt í lögum um opinberar stofnanir að settar séu inn fastákveðnar menntunarkröfur og/eða matsnefndir innbyggðar í það ferli eða með öðrum hætti reynt að tryggja að fagleg sjónarmið og kröfur um mestu færni séu hafðar að leiðarljósi þegar menn eru valdir til trúnaðarstarfa. Ég spyr mig að því hvort Seðlabankinn sé ekki einmitt stofnun að því tagi sem rík ástæða væri til að hafa slík ákvæði inni í.
    Herra forseti. Ég held að ástæða sé til að ég fari að gefa hæstv. viðskrh. eða öðrum hv. alþm. tækifæri á að komast að og vil gjarnan fá að heyra svör hæstv. viðskrh., bæði um þau atriði sem lúta að tímasetningunni sem ég hef borið fram og annað sem lýtur að Seðlabankanum sem stofnun og stöðu hans í þessu sambandi.

    Í þriðja lagi vildi ég gjarnan hafa það að spurningu til hæstv. viðskrh. hvort hann væri til viðræðna um að lagfæra hið leiðinlega orðalag í 1. mgr. 2. gr., þó svo hann gæti mín vegna gefið skýrar yfirlýsingar um að það mundi engu breyta um beitingu heimilda til þess að tengja krónuna með einum eða öðrum hætti við gjaldmiðil eða gjaldmiðla, en að menn hefðu þetta á sæmilegri íslensku, þó ekki væri nema málsins vegna.