Seðlabanki Íslands

102. fundur
Mánudaginn 16. mars 1992, kl. 14:36:00 (4378)

     Kristín Ástgeirsdóttir :
    Herra forseti. Ég vil í örfáum orðum gera grein fyrir fyrirvara fulltrúa Kvennalistans í efh.- og viðskn. varðandi frv. Eins og þingmenn hafa séð skrifuðum við öll undir nál. en stjórnarandstaðan með fyrirvara.
    Eins og þingmenn minnast þá var mikil umræða um þetta mál fyrir áramót og þar gerði ég m.a. grein fyrir afstöðu minni sem felst í því að ég tel fyllilega tímabært að kanna ECU-tengingu. Ég vil þó minna á það álit Seðlabankans og Þjóðhagsstofnunar að mönnum beri að fara sér mjög hægt og til þess að slík tenging verði árangursrík, þurfi að koma til ákveðnar breytingar og miklar breytingar á efnahagsstjórnun á Íslandi. Við eigum eftir að sjá að slíkar grundvallarbreytingar eigi sér stað og þá ekki síst í því sem snýr að sjávarútvegi.
    Á eftir kemur til umræðu frv. sem fjallar um gjaldeyrismarkað. Til að spara tíma vil ég nota tækifærið og minnast á að þar ber einnig að fara sér hægt því öll fljótfærnisskref í þessum málum geta orðið okkur dýrkeypt.
    Það kom fram í máli hæstv. viðskrh. áðan að nefnd á vegum viðskrn. er að störfum við að endurskoða lög um Seðlabankann. Ég hefði sannast að segja talið eðlilegra að þetta mál væri skoðað í því samhengi. Ég á erfitt með að sjá að það liggi svo gríðarlega mikið á að ekki hefði mátt láta þessi mál bíða því mér er kunnugt um að sú nefnd er mjög langt komin með sín störf og jafnvel þess að vænta að hún skili af sér á allra næstu vikum. Það sem ég hef frétt af því starfi er að þar er um töluvert miklar breytingar að ræða hvað varðar sjálfstæði bankans og þar er ekki að finna, alla vega ekki enn sem komið er, neinn texta sem er svipaður þessum þar sem verið er að tiltaka þá gjaldmiðla sem hugsanlega eigi að miða við.
    Ég vil taka undir það með hv. 4. þm. Norðurl. e. að ég held að huga mætti betur að orðalagi í brtt. við 18. gr., og að forðast beri að vera með slíkar upptalningar eða tilvísanir í ákveðna gjaldmiðla ef ljóst er af lagatextanum hver heimildin er.
    Ég sé ekki ástæðu til þess að ræða málið frekar. Það bíður betri tíma að skoða stöðu Seðlabankans þegar frv. um hann kemur fram. En ég tek fyllilega undir það að miklar kröfur beri að gera til þeirra sem stjórna Seðlabankanum sem og öðrum bönkum. Þegar þar að kemur mun ég beita mér fyrir því að inn í lögin verði settar reglur um að auglýsa beri stöðu bankastjóra sem aðrar opinberar stöður hér á landi.