Seðlabanki Íslands

102. fundur
Mánudaginn 16. mars 1992, kl. 15:20:00 (4386)

     Svavar Gestsson :
    Herra forseti. Það var mjög athyglisvert með hvaða hætti hæstv. viðskrh. rökstuddi áðan nauðsynina á því að frv. verði samþykkt. Það var rökstuðningur sem ekki kom fram í framsöguræðu hv. 1. þm. Vestf., sem mælti fyrir nál., né hjá öðrum talsmönnum efh.- og viðskn., hvorki hv. 18. þm. Reykv. og þaðan af síður hv. 4. þm. Norðurl. e. Bersýnilegt er að hæstv. viðskrh. telur að verið sé að afgreiða eitthvert allt annað frv. en nefndin hefur verið að fjalla um því hann taldi tvær meginástæðurnar fyrir því að frv. yrði samþykkt í fyrsta lagi þá að með því væri verið að opna fyrir að hægt væri að taka ákvörðun um ECU-tengingu krónunnar með sérstökum hætti og að Alþingi væri þar með að lýsa þeim vilja sínum að frá og með samþykkt frv. væri hægt að taka upp ECU-tengingu krónunnar. Alþingi væri þeirrar skoðunar og þeir flokkar sem standa að áliti nefndarinnar á hv. Alþingi að það ætti að taka upp ECU-tengingu krónunnar strax og tilteknar aðstæður hefðu skapast í efnahagslífinu. Mér er ekki kunnugt um að stjórnarandstöðuflokkarnir hafi gert sérstaka samþykkt um að nauðsynlegt sé að tengja íslensku krónuna við ECU. Ég stend hér upp, virðulegi forseti, m.a. til þess að mótmæla þessu. Ég tel að með afgreiðslu frv. sé ekki verið að taka ákvörðun um að stjórnvöld eigi að tengja íslensku krónuna við ECU. Óhjákvæmilegt er að þeir talsmenn hv. nefndar sem hér hafa talað, svari einnig þessum viðhorfum hæstv. viðskrh.
    Hitt var svo ekki síður athyglisvert sem er röksemd númer tvö og ég heyrði heldur ekki í málflutningi talsmanna nefndarinnar fyrr í dag eða áður. Það er að samþykkt frv. opni fyrir aukið efnahagssamstarf við Evrópu. Með öðrum orðum fælist í þessu stefnumótandi ávörðun og menn væru með samþykkt frv. svo að segja að samþykkja andann í hugmyndum um evrópskt efnahagsvæði og jafnvel að ganga lengra, þ.e. inn á það sem kallað hefur verið Evrópubandalag og hefur verið rætt hér síðustu daga. Mér finnst nauðsynlegt að nefna þetta hér, herra forseti, vegna þess að undanfarið hefur umræðan um Evrópumálin verið með þeim hætti að það er eins og menn hafi ekki áttað sig á að verið er að toga fólk inn í þessa hluti smátt og smátt, hægt og bítandi, skref fyrir skref, að vísu lúsarskref fyrir lúsarskref. Kannski er erfitt að átta sig á í hverju málið felst í heild en hæstv. viðskrh. og væntanlega hæstv. ríkisstjórn lítur þannig á að með þessu sé verið að stíga nær Evrópusamstarfi í efnahagsmálum heldur en fyrr og taka ákvörðun um ECU-tengingu.
    Í rauninni tel ég að sú uppsetning sem hæstv. viðskrh. hafði á máli sínu áðan sé með þeim hætti að hægt sé að segja að hann komi aftan að hv. efh.- og viðskn. vegna þess að hún hafi ekki fjallað um málið á þessum grundvelli, að ég best veit. Og auðvitað er það alveg rétt sem hv. þm. Steingrímur Hermannsson sagði áðan að það er stórhættulegt ef stjórnvöld fara að líma sig í ofstæki trúarsetninga á tiltekin atriði í efnahagsstjórn, í raun og veru alveg sama hver þau eru. Í því sambandi má nefna margt sem hefur verið rætt á undanförnum árum en ég ætla aðeins að benda á eina hliðstæðu. Þjóð, ekki langt frá okkur hefur verið bundin á höndum og fótum í gengismálum undanfarna áratugi, það eru Færeyingar. Hvert var svar Færeyinga við þeim vanda sem steðjaði að þeirra aðalútflutningsatvinnuvegi? Það var ekki gengisbreyting eins og við gripum oft til við ýmsar aðstæður. Hvert var þeirra svar? Það var að greiða úr ríkissjóði stórfellda styrki til sjávarútvegsins í Færeyjum til þess að hann gæti staðist samkeppnina við sjávarútveginn í öðrum löndum. Niðurstaðan var orðin sú að fimmta hver króna í ríkissjóði Færeyja gekk í að borga styrki til sjávarútvegsins, sem jafngildir um 20 milljörðum íslenskra króna á mælikvarða ríkisbúskaparins hér eða nærri tvöfaldri þeirri upphæð sem fer til mennta- og menningarmála úr ríkissjóði Íslands

um þessar mundir. Með öðrum orðum tel ég að stórhættulegt sé að slá því föstu að reyra eigi íslensku þjóðina fasta í þessu efni eins og hæstv. ríkisstjórn stefnir að vegna þess að undirliggjandi rök hjá ríkisstjórninni og hæstv núv. viðskrh. eru ævinlega þau að rökin fyrir frv. af þessu tagi séu að Íslendingum sé ekki sjálfum treystandi fyrir sinni efnahagsstjórn. Það verði í raun og veru að flytja stjórnina úr landi og láta hinar alþjóðlegu markaðsaðstæður reyra okkur enn fastar en þegar er orðið. Og ég segi, þjóð sem byggir tilveru sína að svo stórum hluta á útflutningstekjum og milliríkjaviðskiptum hefur ekki efni á því að taka upp þá stefnu sem hæstv. viðskrh. beitir sér fyrir. Hún þarf fyrst og fremst að hafa sem allra mesta möguleika á að ráða sínum efnahagslegu kringumstæðum sjálf eftir þeim aðstæðum sem eru á alþjóðlegum markaði á hverjum tíma. Ég taldi óhjákvæmilegt, herra forseti, að standa upp og mótmæla þessum rökum hæstv. viðskrh. Þau eru a.m.k. ekki mín rök, svo mikið er víst.
    Varðandi aðra þætti sem drepið var lítillega á og af því að ég er kominn hingað upp ætla ég aðeins að nefna þá líka. Það er varðandi vextina og kom fram í máli hv. 6. þm. Norðurl. e. Auðvitað er það rétt að oft hefur verið beitt handafli í vaxtamálum. Það var gert 1989 með prýðilegum árangri eins og fram kom hjá hv. þm. Steingrími Hermannssyni, en það var líka gert vorið 1991. Þá var beitt handafli til að knýja vextina upp á við. Þá tók ríkisstjórnin ákvörðun um að hækka vaxtagólfið í þjóðfélaginu með handafli um 2 prósentustig. Það er einhver alvarlegasta og áhrifaríkasta handaflsaðgerð í vaxtamálum sem sögur fara af og var notuð til þess að lyfta vaxtastiginu í landinu. Ég held að nauðsynlegt sé að horfast í augu við þann veruleika að núv. ríkisstjórn hefur beitt handaflinu með þessum hætti. Jafnframt hefur hún að mér virðist verið neydd til þess að horfast í augu við þann hugsanlega möguleika að beita verði handafli á næstunni til þess að ná vöxtum enn frekar niður. En kennisetningarnar sem núv. ríkisstjórn hefur hins vegar ævinlega borið fyrir sig um að ekki sé hægt að lækka vexti af því að hallinn á ríkissjóði sé svo mikill, eru aftur á móti alveg sérstakt umhugsunarefni. Hallinn á ríkissjóði er mun minni hér en gerist í mörgum löndum sem hlutfall af vergri landsframleiðslu. Hallinn á ríkissjóði hér er minni en gerist í flestum samanburðarlöndum okkar þannig að vextir ættu þess vegna ekki að þurfa að vera hærri á Íslandi en víða annars staðar. Ég held að menn þurfi líka að átta sig á því, kannski ekki síst verkalýðshreyfingin og félagshyggjufólk í þessu landi, að það að bíta sig fastan í að hallinn á ríkissjóði sé upphaf og endir alls ills er ávísun á hvað? Ávísun á niðurskurð á velferðarkerfinu. Ávísun á niðurskurð á heilbrigðiskerfinu, ellilífeyriskerfinu, menntamálum í landinu og öðrum slíkum þáttum. Það að t.d. Alþfl., sem kallar sig Jafnaðarmannaflokk Íslands, skuli beita sér sérstaklega í þessu efni og hafa hallann á ríkissjóði sem forgangsvandamál, sýnir að hann er í raun og veru að segja að allt annað sé aukaatriði og þar með að halda uppi skikkanlegri félagslegri þjónustu. Ég er þeirrar skoðunar að hin látlausa síbylja um hallann á ríkissjóði, sem hefur gengið í gegnum stjórnmálaumræðuna að undanförnu, sé hættuleg og muni koma í hausinn á okkur fyrr eða síðar, bæði hinu almenna velferðarkerfi og þeim stjórnmálaflokkum sem í raun og veru hafa borið það fyrir brjósti og kannski ekki síst verkalýðshreyfingunni í landinu. Menn þurfa að gera sér grein fyrir því að með þessum hætti má ekki einfalda hlutina. Með því eru menn að skapa rök fyrir hægri öflin í þjóðfélaginu til að brjóta velferðarkerfið á bak aftur. Ég er reyndar þeirrar skoðunar að umræðan um hallann á ríkissjóði, eins og hún hefur gengið yfir á undanförnum missirum, sé einhver allra hættulegasta trúarsetning sem hefur verið uppi í almennri pólitískri umræðu að undanförnu vegna þess að málið liggur ekki svona. Málið liggur ekki svona þegar afleiðingarnar verða atvinnuleysi tveggja til þriggja þúsunda manna. Augljóst er að þessi kenning kemur aftan að sjálfri sér því að niðurskurður hjá ríkissjóði með þessum hætti hefur í för með sér að ríkið missir tekjur og býr til vítahring sem það ræður svo ekki við að brjótast út úr. Þetta þýðir að niðurskurðurinn veldur meiri halla á ríkissjóði en ekki minni halla. Þess vegna þurfa menn alveg sérstaklega að gjalda varhug við þessum málflutningi hæstv. viðskrh. í þessu máli eins og öðrum, virðulegi forseti.