Seðlabanki Íslands

102. fundur
Mánudaginn 16. mars 1992, kl. 15:58:00 (4392)

     Svavar Gestsson (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Það var alveg óhjákvæmilegt að mótmæla orðum hæstv. ráðherra hér áðan vegna þess að þau voru flutt eftir að talsmenn nefndarinnar höfðu talað og eftir að þeir höfðu gert grein fyrir sjónarmiðum sínum. Eins og kunnugt er vega orð ráðherra þungt hverjir svo sem eiga í hlut, þannig að það var alveg óhjákvæmilegt að kalla fram viðhorf efnahags- og viðskiptarnefndarmanna eins og gert var hér áðan. Niðurstaðan er sú að allir talsmenn efh.- og viðskn. sem til þessa hafa tjáð sig í málinu hafa vísað á bug röksemdum hæstv. ráðherra fyrir máli þessu. Það er mjög mikilvægt að það liggi fyrir.
    Ég ætla ekki heldur að gagnrýna ráðherrann fyrir að hafa talað. Ég held að það sé ágætt að hann talaði og kom til dyranna eins og hann er klæddur og hann á auðvitað að gera það sem oftast. En hann á ekki að vera að reyna að villa mikið á sér heimildir þegar hann er að reyna að snúa mál af þessu tagi út úr þinginu.
    Að lokum þetta. Hæstv. ráðherra vitnaði til Danmerkur sem alveg sérstaks fyrirmyndarríkis og það væri kannski ástæða til þess að snara þessari ræðu sem hann flutti hér og senda flokksbræðrum hans í Danmörku, sósíaldemókrötum þar, því að aldrei hefur íhaldsstjórninni í Danmörku verið hælt annað eins og í ræðu hæstv. núv. viðskrh. á Íslandi. Hvað kostaði árangurinn í Danmörku? Hvað kostaði hann? Skyldi það ekki vera umhugsunarvert fyrir jafnaðarmenn? Hvað kostaði árangurinn í Danmörku? Hann kostaði mesta atvinnuleysi á Norðurlöndum um margra ára skeið. Og hvað kostar atvinnuleysi? Það kostar stórfellda fjármuni en það kostar líka mannlegar þjáningar sem menn verða auðvitað að taka með inn í þessa mynd þegar verið er að skoða efnahagslegar og félagslegar afleiðingar sinna pólitísku ákvarðana. Gallinn við núv. hæstv. viðskrh. og ríkisstjórnina er auðvitað sá að hún tekur ekki tillit til hinna mannlegu útgjalda, félagslegu útgjalda, þegar hún gerir ráðstafanir sínar í efnahagsmálum.