Seðlabanki Íslands

102. fundur
Mánudaginn 16. mars 1992, kl. 16:03:00 (4394)

     Svavar Gestsson (andsvar) :

    Virðulegi forseti. Auðvitað er alveg sama hvað hæstv. viðskrh. kemur oft upp í þennan ræðustól sem þolir margt, þessi stóll. Það liggur fyrir að talsmenn efh.- og viðskn. hafa vísað röksemdum hans fyrir þessu frv. á bug og það er auðvitað kjarni málsins.
    Varðandi félagslega kerfið og ríkishallann ætla ég bara að segja þetta: Ég er þeirrar skoðunar að núv. ríkisstjórn sé með ákvörðunum sínum um að skera niður útgjöld ríkissjóðs í raun og veru að auka halla ríkissjóðs. Hún er að auka vandann, líka hjá ríkissjóði, að ekki sé nú minnst á fjölskyldurnar í landinu og þær þúsundir sem núna þurfa að taka við atvinnuleysibótum á vegum þessarar atvinnuleysisríkisstjórnar, þeirrar fyrstu sem skammast sín lítið fyrir það að hafa í rauninni skipulagt atvinnuleysi á Íslandi.