Minning Sigurðar Óla Ólafssonar

103. fundur
Þriðjudaginn 17. mars 1992, kl. 13:32:00 (4399)

     Forseti (Salome Þorkelsdóttir) :
    Sigurður Óli Ólafsson, fyrrverandi kaupmaður og alþingismaður, andaðist í fyrradag, sunnudaginn 15. mars, 95 ára að aldri.
    Sigurður Óli Ólafsson var fæddur 7. október 1896 í Neistakoti á Eyrarbakka. Foreldrar hans voru hjónin Ólafur bóndi í Neistakoti og söðlasmiður Sigurðsson bónda og trésmiðs í Eintúnahálsi og á Breiðabólstað á Síðu Sigurðssonar og Þorbjörg Sigurðardóttir bónda í Neistakoti Teitssonar. Að loknu barnaskólanámi var hann í unglingaskóla á Eyrarbakka veturna 1911--1913 og nam bókhald við norskan bréfaskóla einn vetur. Næstu árin stundaði hann ýmis störf til lands og sjávar, var m.a. stundakennari við barnaskólann á Eyrarbakka veturinn 1915--1916. Hann var bifreiðarstjóri að atvinnu og verslunarmaður á Eyrarbakka 1919--1927. Hann rak ásamt tengdaföður sínum verslun á Selfossi á árunum 1927--1964, stundaði síðan verslunar- og skrifstofustörf í Reykjavík 1964--1974.
    Sigurður Óli Ólafsson var í hreppsnefnd Sandvíkurhrepps 1938--1947 og 1947--1962 í hreppsnefnd Selfosshrepps, sem þá var orðinn sérstakur hreppur, oddviti Selfosshrepps var hann 1947--1958. Sýslunefndarmaður var hann 1938--1958. Hann var um skeið í sóknarnefnd Laugardælasóknar og síðar Selfosssóknar. Formaður skólanefndar Héraðsskólans á Laugarvatni var hann frá 1951--1967. Við alþingiskosningarnar árið 1949 var hann kjörinn varaþingmaður Sjálfstæðisflokksins í Árnessýslu og átti sem slíkur sæti varamanns tímabundið á næstu þremur þingum. Við fráfall Eiríks Einarssonar frá Hæli í nóvember 1951 hlaut hann fast þingsæti og var þingmaður Árnesinga til 1959 og síðan þingmaður Suðurlandskjördæmis til 1967, sat á 19 þingum alls. Forseti efri deildar Alþingis var hann 1959--1967. Hann var yfirskoðunarmaður ríkisreikninga 1964--1967. Árið 1966 var hann skipaður í endurskoðunarnefnd laga um þingsköp Alþingis.
    Sigurður Óli Ólafsson vann lengst af verslunarstörf. Hann kom að Selfossi í upphafi þéttbýlismyndunar þar, stofnaði verslun og fylgdist með vexti byggðarinnar. Hann var kjörinn til forustu og átti hlut að því að Selfoss varð að sjálfstæðu sveitarfélagi og síðar að fjölmennum kaupstað. Hann var áhrifamikill, framsýnn og hagsýnn í störfum sínum fyrir sveitarfélagið og átti þátt í að tryggja því landrými til frambúðar. Á Alþingi fylgdi hann fram með gætni og festu þeim málum sem hann taldi horfa til hagsbóta fyrir kjördæmi sitt og þjóðina í heild. Hann var mannkostamaður, háttprúður og naut almennra vinsælda. Hann var gæddur þeim eiginleikum sem henta til farsæls ævistarfs.
    Ég vil biðja háttvirta alþingismenn að minnast Sigurðar Óla Ólafssonar með því að rísa úr sætum. --- [Þingmenn risu úr sætum.]