Jöfnun á flutningskostnaði olíuvara

103. fundur
Þriðjudaginn 17. mars 1992, kl. 13:40:00 (4400)

     Ólafur Þ. Þórðarson (frh.) :
    Herra forseti. Ég hafði lokið inngangi að ræðu minni þar sem ég vitnaði m.a. í þá góðu bók, Félaga Napóleon, þar sem það var grundvallarskýring í jafnrétti að sumir ættu að vera jafnari en aðrir. Mér sýnist að hæstv. viðskrh. boði nú að hægt sé að hafa flutningsjöfnuð á sjó á olíuvörum en aftur á móti sé það vonlaust á landi án þess að þar verði spilling. Hann nefndi sem dæmi Vonarskarð sem bensínstöð þó að hún sé ekki enn byggð og nefndi einnig að það væri bensínstöð í Landmannalaugum. Ég lít á þetta sem útúrsnúning og nánast hártoganir á því kerfi sem hér hefur verið. Við höfum talið eðlilegt að bensín yrði selt á sama verði á öllum verslunarstöðum á Íslandi og um það hefur verið bærileg þjóðarsátt. Mér er fullkomlega ljóst að þetta kerfi hefur byggt á því að millifærsla hefur átt sér stað. Það er ekki bara á þessu sviði sem svo er. Við erum með sama verð á mjólk hvar sem er á Íslandi í verslunum. Ætlum við að breyta því? Hvaða stefna er það sem er uppi hjá ríkisstjórninni?
    Ég tel að hæstv. viðskrh. hafi sent til félmrh. vissa kveðju líka í þeirri ræðu sem hann flutti hér þar sem hann gerði heldur grín að þeim sem vilja telja að jafnrétti og réttlæti tengist og telur að það sé mikill misskilningur, kenningin um að einhver sé réttlátur og jafnréttissinnaður ef hann vilji reyna að jafna einhverju út, m.a. í vöruverði. Ég veit ekki hvort þetta hefur verið ætlað hæstv. félmrh. sem hefur nú viljað jafna eitt og annað í þessu landi og þorað að halda á lofti ævagömlum kenningum jafnaðarstefnunnar í því efni. Það er verulegt umhugsunarefni hvert hin nýja jafnaðarstefna ætlar að fara. Það er ærið umhugsunarefni.
    Ég hélt satt best að segja að hæstv. viðskrh. tæki því ekki fagnandi þegar á það var bent að til þess að fara í kringum þá verðjöfnun sem hér er verið að leggja til, að hvert olíufélag hafi sama verð á öllum útsölustöðum, er þó opin leið hjá hvaða olíufélagi sem er að stofna dótturfyrirtæki sem selur aðeins á Reykjavíkursvæðinu og selur þar á öðru verði en úti á landi ef þetta verður að lögum. Það er opin leið fyrir verktakastarfsemi á þessu sviði. Ég skil það svo að hæstv. viðskrh. sé sannfærður um að þetta leiði til þess að bensínverð verði misjafnt í landinu og ég er honum sammála. Þetta mun leiða til þess. Þá hefur orðið mikil afturför í hugkvæmni manna ef þeir átta sig ekki á því að það er sjálfgefinn hlutur að reka sérstakt bensínsölufyrirtæki hér á höfuðborgarsvæðinu sem gæti þá selt bensín á lægra verði. Eftir því sem kom fram hjá hæstv. viðskrh. er það markmiðið og sem eðlileg afleiðing þeirrar stefnu sem hér er mótuð.
    Ég verð að segja eins og er að þeir þingmenn landsbyggðarinnar sem hafa lýst yfir stuðningi við þetta frv. virðast hafa verið ansi bláeygir, miklu bláeygari en forverar þeirra voru frá sömu svæðum, forverar þeirra voru frá sömu svæðum sem komu á þeirri jöfnun sem menn hafa unað við. Mér finnst dálítið sérstætt hvaða breyting hefur þarna orðið á. Hv. 2. þm. Suðurl. vitnaði í ræður manna, m.a. ræðu sem þingmaður Snæfellinga hafði flutt, ágætur sjálfstæðismaður. Allir vita hvaða þátt einn af þingmönnum Austurlands --- einnig ágætur sjálfstæðismaður --- átti í að móta þá stefnu sem varð til þess að sama verð varð á olíu og bensíni um land allt. Nú eru menn að brjóta þetta upp.
    Á sama tíma og fyrir liggur að hæstv. viðskrh. hefur haft sem viðfangsefni í tveimur ríkisstjórnum að stuðla að því að eitthvað verði gert fyrir dreifbýlisverslunina í landinu þá tekur hann stefnuna í þveröfuga átt og kemur með tillögur sem eru aðför að dreifbýlisverslun í landinu. Mig undrar þetta og ég skil ekki hvers vegna þeir sem samþykktu að þetta frv. yrði lagt fram gera ráð fyrir því að þrjú olíufélög verði í landinu í framtíðinni sem munu keppa innbyrðis á sama verði alls staðar. Hvers vegna skyldu þeir ekki skipta sér upp? Og, eins og hæstv. viðskrh. réttilega sagði, þýðir þetta það ekki að vissir aðilar geti þá boðið beint í flutning á ákveðna staði og flutt þangað olíu og selt hana á öðru verði? En það verður ekki á Norðfirði sem þeir ná neinum sérstökum kjörum. Þeir eiga enga tanka þar til að taka á móti fullu olíuflutningaskipi.
    Hv. 5. þm. Austurl. veðjar á Seyðisfjörð. Það má vel vera. Ég er aftur á móti að undirstrika að þeir sem leggja til þessar breytingar eru fyrst og fremst að brjóta upp það að eitt olíuverð verði í landinu, eitt verð á bensíni í landinu. Mig undrar það mjög, því að ég veit að margir sjálfstæðismenn snerust gegn þessu frv. eins og það kom upphaflega fram, hvers vegna þeir gera sér ekki grein fyrir því að vegna þess, sem er sjálfsagður hlutur, að það er félagafrelsi í landinu og heimilt að stofna ný félög þá munu menn að sjálfsögðu nota þá aðferð til þess að rugga þeim bát sem hér er verið að leggja af stað með úr höfn og talað um að eigi að sigla sléttan sjó.
    Ég sakna þess að hv. 3. þm. Vestf. er ekki hér við. Hann flutti ræðu um þetta mál og ég efa ekki að hann trúði því þegar hann flutti það að þeir væru búnir að tryggja sama olíuverð. Ég er sannfærður um að hann trúði því. Ég held að hann hafi ekki séð jafnlangt og hæstv. viðskrh. sá þegar hann svaraði í seinni ræðu sinni þeirri umræðu sem hér hafði átt sér stað og vakti athygli á því að þetta mundi einmitt leiða til þess að nú yrði breytilegt verð á olíunni í landinu.
    Það má vel vera að sumir vilji reyna að tengja þetta saman við þá staðreynd að Sovétríkin hafa liðið undir lok. Ég sé engan skyldleika með því að hafa sama olíuverð í landinu og að Sovétríkin séu liðin undir lok. Ég tel að þar séu menn að búa sér til reykbombu sem þeir ætla að skýla sér á bak við. Auðvitað vitum við það að olíufarmar til Íslands verða fluttir með stórum flutningaskipum til landsins í framtíðinni og það eitt tryggir hagkvæmni. Samvinna olíufélaganna á því sviði er skynsamleg til að ná niður flutningskostnaðinum. En að halda því fram, eins og hér er gert, að menn séu búnir að tryggja að hvert olíufélag starfi á landsvísu og þar með verði sama verð á bensíninu eða olíunni, það eru miklir draumórar. Ég er sannfærður um að ef þetta frv. verður að lögum verða þeir margir á Alþingi Íslendinga sem seinna meir eiga eftir að sjá eftir því að hafa veitt því brautargengi.