Jöfnun á flutningskostnaði olíuvara

103. fundur
Þriðjudaginn 17. mars 1992, kl. 13:54:00 (4401)

     Kristinn H. Gunnarsson :
    Virðulegi forseti. Hér er nokkuð þýðingarmikið frv. á ferðinni svo að það er ekki nema von að þingmenn eyði nokkrum tíma í að ræða málið frá öllum þeim hliðum sem menn koma auga á. Segja má að í frv. sé meira en sýnist við fyrstu sýn og nokkur atriði sem er nauðsynlegt að draga fram og fá frekari skýringar á.
    Ég vil fyrst gera að umræðuefni það sem fram kom í ræðu hæstv. viðskrh. hér þegar frv. var síðast til umræðu þar sem hann lét falla ýmis ummæli sem mér þóttu athyglisverð og væri ástæða til að staldra við t.d. þau ummæli hans að flutningsjöfnun dragi úr hagkvæmni. Ég hef velt þessu dálítið fyrir mér og hlýt að komast að þeirri niðurstöðu að ráðherrann meinar það að frv. hans um flutningsjöfnun dragi úr hagkvæmni. Fróðlegt væri að fá frekari skýringar af hálfu hæstv. viðskrh. á því hvernig hann rökstyður þá skoðun sína að flutningsjöfnun á olíuvörum dragi úr hagkvæmni og þá hagkvæmni fyrir hverja.
    Annað sem mér þótti líka dálítið athyglisvert í ræðu hæstv. iðnrh. voru þau ummæli hans að honum þætti heldur lítið koma til forsjár ríkisins sem væri með jöfnun út og suður og alls staðar. Það var mér nokkurt undrunarefni að heyra frá hæstv. viðskrh., ráðherra Alþfl., að jöfnun út og suður og alls staðar undir forsjá ríkisins væri greinilega ekki af hinu góða. Það er umhugsunarefni, kannski ekki síst vegna þess að hæstv. viðskrh. er líka iðnrh. og landsbyggðarmenn og kannski líka þingmenn landsbyggðarinnar hafa lagt nokkuð ríka áherslu á t.d. jöfnun á raforkuverði. Ég les út úr þessum ummælum ráðherrans að hann sé andvígur jöfnun á raforkuverði, það sé óæskilegt að jafna raforkuverð um land allt, auk þeirrar skoðunar hans að flutningsjöfnun dragi úr hagkvæmni. Jöfnun á raforkuverði um land allt ætti því að draga úr

hagkvæmni á því sviði að mati ráðherrans. Þetta eru mér nokkur tíðindi, sérstaklega þegar ég hef í huga að Alþfl. mundi eftir því fyrir síðustu kosningar að það bjó og býr enn fólk úti á landi við nokkuð hátt orkuverð. Flokkurinn hafði uppi tilburði til þess að sannfæra kjósendur um að þeir vildu jafna orkuverðið. Það er því kúvending ef sá ráðherra flokksins, sem fer með forræði iðnaðarmála, er í raun að lýsa viðhorfum sem ekki verða skilin öðruvísi en að jöfnunin sé óæskileg.
    Það kom líka fram hjá hæstv. ráðherra að hann trúir því að samkeppnin lækki verðið. Það er út af fyrir sig ekkert athugavert við að menn hafi þá skoðun og má líklega finna nokkur dæmi henni til rökstuðnings. En ég bendi á bankakerfið. Menn hafa rekið áróður fyrir því um nokkurt skeið að þar þurfi að vera samkeppni og hafa mótað reglur til þess að að bankarnir kepptu. En ég hef ekki orðið var við að samkeppnin hafi lækkað það verð sem lántakendur þurfi að borga. Ég fylgist ágætlega með því. Ég fæ dálítið af grænum miðum og sé á þeim hvað það kostar að skulda. Ég hef ekki séð að sú upphæð hafi lækkað sem á þeim stendur. Öllu fremur hef ég séð það að sérstakur liður sem heitir kostnaður hefur rokið upp úr öllu valdi og slegið við öllum vísitölum. ( GÁ: Skoðaðu það á milli banka.) Já. Ég skal taka áskorun hv. þm. Guðna Ágústssonar og skoða þetta á milli banka. Ég skil hann þannig að Búnaðarbankinn sé ódýrari en aðrir og það er gott ef svo er.
    Enn vil ég nefna það sjónarmið ráðherrans að ríkið eigi ekki að vera að vasast í fyrirtækjum og reyna að koma á jöfnun. Það er dálítið merkileg afstaða hjá Alþýðuflokknum -- Jafnaðarmannaflokki Íslands að ríkið eigi ekki að vera að vasast í fyrirtækjum og enn síður að reyna að koma á jöfnun í gegnum þau fyrirtæki. Það eru væntanlega sömu skoðanir og hæstv. iðnrh. hefur og lýsir enn frekar afstöðu hans til jöfnunar orkuverðs um land allt. Hitt má svo aftur deila um hvað ríkið á að vera að vasast mikið í fyrirtækjum almennt. Þessi ríkisstjórn hefur uppi tilburði um að draga úr því. En ég tek eftir því að á þeim lista af stofnunum og fyrirtækjum sem ríkisstjórnin hugsar sér að einkavæða eru ekki stofnanir eins og embætti húsameistara ríkisins sem er nokkuð rakið að einkavæða. Það vilja þeir ekki einkavæða, heldur miklu frekar Póst og síma. Þetta er dálítið merkileg afstaða til einkavæðingar. Ég held að það væri kjörið af ríkisstjórninni að taka við sér núna og einkavæða embætti húsameistara ríkisins, ekki síst þegar horft er til þess að forstöðumaður þess embættis er nú mjög önnum kafinn við að stjórna einu stærsta fyrirtæki landsins og verður að sjálfsögðu að gera það utan síns vinnutíma.
    Þetta var inngangur sem fjallaði um ýmis ummæli hæstv. ráðherra sem féllu fyrr í umræðunni. En þá vík ég að ákvæðum frv. Það er mín skoðun að varðandi sölu á olíuvörum eigi hlutirnir að vera með þeim hætti að sama verð sé á sömu vöru frá sama fyrirtæki um land allt. Tiltekið olíufélag sem selur vörur á að hafa sama verð á sinni vörutegund um land allt. Það skilyrði hindrar á engan hátt samkeppni á milli fyrirtækja. Það vefst fyrir mér að skilja tilganginn með svokölluðum flutningsjöfnunarsjóði. Til hvers er flutningsjöfnunarsjóður? Ég sé engan annan tilgang en hann sé til þess að tryggja olíufélögin, tryggja hagsmuni olíufélaganna, til að jafna milli þeirra. Ég sé ekki annan tilgang. Ég segi bara eins og er af því að ég hef þó nokkra trú á þessum olíufélögum, að þar séu menn innan borðs sem kunni ýmislegt fyrir sér og geti þó nokkuð gert. Ég held að þeim sé það engin ofrausn og það sé ekki ofvaxið þeirra getu að sjá um þessa flutningsjöfnun innan síns fyrirtækis.
    Annað sem vekur athygli mína er að það er einungis gert ráð fyrir að jafna flutningskostnað ef flutt er á sjó. Það segir okkur þó nokkuð mikið. Það segir okkur m.a. að það sé skoðun flm. eða höfunda frv. að sjóflutningar séu hagkvæmari en landflutningar. Það er dálítið athyglisvert í ljósi þess að núv. ríkisstjórn hefur lagt af sjóflutninga á vegum Skipaútgerðar ríkisins og er að beina flutningum æ meira inn á landvegina. En þetta var útúrdúr. Ef það á að jafna flutning á vörum frá einum stað til annars geta menn ekki takmarkað sig við sjóleiðina eingöngu heldur verða þeir að taka mið af aðstæðum. Eins og hér hefur komið fram í umræðum eru olíuvörur mikið fluttar landleiðina austur á land. Ég held að jöfnun, ef menn setja hana upp með þessum hætti, verði þá að taka mið af aðstæðum eins og þær eru á hverjum tíma.
    Þá finnst mér dálítið undarlegt að menn skuli setja upp ákveðnar hafnir og segja: Við jöfnum flutningskostnaðinn á þær hafnir en aðrar ekki. Samt segja menn miðað við 10. gr. að auglýst verð hvers innflytjanda gildi á öllum almennum bensínafgreiðslustöðum. Það hlýtur að þýða að það er ætlun flm. frv. að olíufélögin jafni sjálf kostnaðinn frá flutningshöfn að útsölustað sem getur verið í verulegri fjarlægð frá flutningshöfn. Ef við tökum sem dæmi bensín og lítum á staði á Vestfjörðum, þar sem ég þekki best til, þá er einungis jöfnun á þrjá staði, Ísafjörð, Patreksfjörð og Tálknafjörð. Á alla aðra staði er ekki jöfnun sem þýðir að það verður að flytja þessar vörur frá þessum þremur höfnum eða landleiðina frá Reykjavík á þá staði. Miðað við uppsetningu frv. hlýtur að vera gert ráð fyrir því að viðkomandi olíufélag jafni þennan kostnað innbyrðis, innan síns eigin félags. Þá hlýtur maður að velta upp þeirri spurningu sem ég var að setja fram áðan, reyndar sem mína skoðun, að þá geta þau alveg jafnað þetta innan síns eigin fyrirtækis. Ég hef þá trú eftir að hafa lesið 10. gr. að framkvæmdin verði kannski ekki þannig að sama verð verði um allt land. Ég held að það verði mjög mismunandi og að reyndin verði sú að verðið á þeim stöðum sem eru utan við þessar flutningsjöfnunarhafnir verði hærra en á hinum stöðunum. Það kemur til af því að menn eiga möguleika á að hafa mismunandi verð miðað við frv. og þeir möguleikar munu verða nýttir með þessum hætti. Þess vegna tel ég þungamiðjuna í öllum aðgerðum vera þá að skylda olíufélögin til að selja sömu vöru á sama verði um allt land.
    Ég vil líka benda á varðandi 10. gr. --- ég hafði greinilega misskilið hana verulega í upphafi en

hef rætt um hana við þingmenn --- að þar segir í 2. mgr. að miðað skuli við að auglýst verð hvers innflytjanda gildi á öllum almennum afgreiðslustöðum. Þetta skildi ég þannig að hvert olíufélag sem flytur inn olíu ætti að skaffa hana á þessum stöðum á sama verði. En síðan væri útsöluverðið allt annað mál.
    Ég hef orðið var við að margir vilja skilja þetta á hinn veginn að orðið ,,innflytjandi`` þýði í raun og veru söluaðili og það þýði þá að söluaðilinn verði að hafa sama auglýsta verð á öllum almennum afgreiðslustöðum. En ég bendi á það eftir sem áður að þarna stendur innflytjandi. Kvöðin er því á honum en ekki endilega söluaðilanum. Sá sem selur bensínið þarf ekki að vera sami aðilinn og flytur það inn eins og hér var bent á, m.a. í síðustu ræðu.
    Mér finnst frv. byggja dálítið á þeim veruleika sem við búum við í dag, að menn séu að smíða reglur um þann veruleika, kannski til að varðveita hann. Það er að mínu viti ekki rétt því að ef menn ætla að fara yfir málin með nýjum hætti eins og hér, að innleiða samkeppni, eru menn í raun og veru að breyta veruleikanum og gera ráð fyrir því að hlutirnir muni þróast með einhverjum hætti. Þess vegna má löggjöfin ekki vera þannig að menn séu að frysta eitthvert tiltekið ástand. Mér finnst sá skilningur liggja of mikið í frv. að þrjú olíufélög séu á Íslandi og að þau muni ekki verða fleiri, olíufélög sem flytji inn og selji um allt land og séu bæði innflutningsaðili og söluaðili. Ég hef viljað skilja frv. þannig, ef að lögum verður, að þá sé í raun ekkert sem mæli á móti því lagalega séð að einhver aðili sé einungis innflytjandi og síðan seli eitthvert annað fyrirtæki. Það getur ákveðið að selja bara þar sem því sýnist. Það er ekki hægt að skylda olíufyrirtæki til að selja olíu um allt land. Það er hægt að stofna fyrirtæki sem selur bara olíu á Norðurlandi. Og þá spyr ég: Gildir þá ákvæðið í 2. mgr. 10. gr.? Mitt svar við því er nei. Ég sé ekki að það muni gilda. Ég sé ekki að neitt hald verði í 10. gr.
    Þetta eru almenn sjónarmið sem ég vil leggja fram í umræðunni á þessu stigi. Ég vil líka benda á að í 7. gr. frv., varðandi stjórn Flutningsjöfnunarsjóðs, segir að einn stjórnarmaður skuli vera tilnefndur sameiginlega af þeim olíufélögum sem annast olíudreifingu í öllum landshlutum. Fyrir utan það að ég tel ekki mjög skynsamlegt að vera með þennan sjóð yfir höfuð, þá finnst mér það orka dálítið tvímælis að afmarka þetta með þessum hætti.
    Í 3. gr. kemur greinilega fram sá skilningur flm. frv. að innflytjandi sé sami aðili og söluaðili, þ.e. menn hugsa hlutina út frá núverandi ástandi. Þar segir:
    ,,Innflytjendur, sem annast innanlandssölu á olíu í öllum landshlutum, . . .  `` Það er ekki sjálfgefið að innflytjandi selji olíu í smásölu, hvað þá að hann geri það í öllum landshlutum.
    Það er ýmislegt fleira sem ég gæti sagt um frv., m.a. um reglugerðina sem hér fylgir. Ég vil þó segja að mér finnst það til fyrirmyndar af hálfu ráðherra að láta fylgja reglugerð með frv. Ég hef talað fyrir því í þeim nefndum sem ég sit í á þingi að ráðherrar leggi fram drög að reglugerðum þegar fjallað er um frumvörp sem þeir hafa flutt. Ég tel það æskilega þróun að þingið krefjist þess að drög að reglugerðinni liggi fyrir í öllum tilvikum þar sem gert er ráð fyrir í lagafrv. að útfylla ákvæði frv. með reglugerð. Það hefur að mínu mati nokkuð oft komið fyrir að ráðherrar hafa sett reglugerðarákvæði sem hafa ekki verið í þeim anda sem löggjafarvaldið hefur ætlast til. En það eru sjálfsagt skiptar skoðanir um það og ekki ætla ég að hefja þrætur um það mál.
    Hér eru of margar hafnir undanþegnar jöfnun. Mér finnst að fyrst menn á annað borð telja ástæðu til þess að hafa jöfnun á tilteknar hafnir eigi að setja það með skýrum hætti inn í frv. sjálft. Miðað við frv. er það ansi mikið á valdi ráðherra að ákvarða á hvaða hafnir skuli jafna. Það kæmi mér nokkuð á óvart ef það er vilji þingsins að leggja það í vald ráðherra að ákvarða slíka hluti sem hljóta að skipta verulegu máli innan þess sölu- og dreifingarkerfis sem frv. gerir ráð fyrir að verði við lýði.
    Ég vil að lokum leggja áherslu á að fyrst menn á annað borð eru búnir að taka ávörðun um að fikra sig út í samkeppni eiga þeir að gera það með sæmilega myndugum hætti og halda þar fram sjónarmiðum þeirra sem eru neytendur eða kaupendur að vörunni í ríkari mæli en gert er í frv. og draga úr sjónarmiðum og hagsmunum seljenda, þ.e. olíufélaganna, en mér finnst að frv. taki allt of ríkt mið af þeirra hagsmunum.