Jöfnun á flutningskostnaði olíuvara

103. fundur
Þriðjudaginn 17. mars 1992, kl. 15:00:00 (4403)

     Björn Bjarnason (andsvar) :
    Hæstv. forseti. Það er misskilningur hjá hv. síðasta ræðumanni að ég hafi fyrstur vakið máls á Sovétviðskiptunum hér í þessari umræðu. Það var hv. 1. þm. Austurl. sem gerði það og ég blandaði mér þess vegna í umræðurnar. Ég skil mætavel að hv. 4. þm. Norðurl. e. sé sárt þegar þessi viðskipti eru gagnrýnd. Flokkur hans hefur jafnan talið þetta vera líftaugina í samskiptum Íslands og Sovétríkjanna og margsinnis ályktað um það að þessi viðskipti væru líftaugin við Sovétríkin. Það snertir því náttúrlega viðkvæmar pólitískar taugar þegar talað er í gagnrýnistón um þessi viðskipti.
    Það sem ég sagði og stend við er það að ég tel að það hafi verið fyrir löngu orðið tímabært að endurskoða viðskiptastefnuna gagnvart Sovétríkjunum. Þar með var ég ekki að segja að það hefði átt að hætta að selja þeim síld eða hætta að selja þeim ull. Hins vegar tel ég að þessi viðskipti hafi staðið í vegi fyrir vöruþróun og eðlilegri framvindu í viðskiptum. Ég held að þegar þessi mál verða gerð upp eins og öll önnur mál í okkar samtímasögu muni sagan sýna að íslensk stjórnvöld hafi dregið lappirnar lengur í þessu máli en jafnvel afturhaldsöflin í Mosvku. Mér finnst því að menn verði að hafa þrek til þess að skoða þetta mál í heild og án þess að setja sig í þær stellingar sem hv. síðasti ræðumaður gerði og líta á málið með þeim augum að ástæða hafi verið til þess áður en gert var að endurskoða hvernig að þessum viðskiptum var staðið. Menn þurfa að virða þau sjónarmið sem fram hafa komið um það og vera reiðubúnir til þess að ræða það án þess að gera þeim upp skoðanir eða viðhorf sem þessum sjónarmiðum halda fram.