Jöfnun á flutningskostnaði olíuvara

103. fundur
Þriðjudaginn 17. mars 1992, kl. 15:02:00 (4404)

     Steingrímur J. Sigfússon (andsvar) :
    Herra forseti. Það er að sjálfsögðu rétt að leiðrétta það að hv. 1. þm. Austurl. mun fyrstur í umræðunni hafa tekið upp Sovétviðskiptin og það breytir litlu. Hins vegar kannaðist ég betur við hv. 3. þm. Reykv. þegar hann fór á sinn málefnalegan hátt að svara síðan málinu efnislega. Þá var Hrólfur mættur þegar hann fór að velta því fyrir sér hvers vegna ég væri svona viðkvæmur fyrir því að þessi viðskipti væru nefnd. Var þá orðið stutt í það kalda stríð sem ég minntist aðeins á hér í ræðu minni og leyfði mér að láta mér detta í hug að hefðu vissulega einhver áhrif enn á heimssýn hv. 3. þm. Reykv. En síðan kom ekki ein einasta efnisleg röksemd fram fyrir því sem hv. 3. þm. Reykv. er að fullyrða, ekki ein einasta önnur en sú að hann fullyrðir með almennum órökstuddum hætti að þessi viðskipti hafi með einhverjum hætti verið mönnum til trafala, dregið úr framþróun, hindrað vöruþróun eða eitthvað annað því um líkt. Hvernig? Hvað var það sem hindraðist af saltsíldarviðskiptum Íslendinga til Sovétríkjanna? Hvaða aðrir markaðir voru það sem menn sinntu ekki? Hvaða vöruþróun var það sem menn stóðu ekki í, hv. 3. þm. Reykv.? Er hugsanlega hægt að fá einhver efnisleg rök fyrir því sjónarmiði, sem út af fyrir sig getur verið gilt, að þetta hafi verið okkur fjötur um fót og til trafala?
    Gaman væri að fá hér til umræðunnar hv. 1. þm. Vestf. og fyrrv. hæstv. viðskrh. Það er eins og mig rámi í það að hv. þm. Matthías Bjarnason hafi á sinni tíð sem viðskrh. verið ekki minna kappsamur um þessi viðskipti en aðrir Íslendingar og átt sinn þátt í því m.a. að festa þau í sessi, enda þekkir hann vel til sjávarins, betur en hv. 3. þm. Reykv., og veit að þetta hafa verið hin ábatasömustu og bestu viðskipti um áratuga skeið fyrir Íslendinga og við höfum verið litnir öfundaraugum af. Kanadamenn, Norðmenn og aðrir, sem einhverja síld hafa haft, hafa stóröfundast yfir frammistöðu Íslendinga í þessum efnum sem hafa selt upp undir 70% af allri saltsíld á markaði í heiminum fyrst og fremst í gegnum tröllsterka stöðu á markaðnum fyrir austan.
    Þessi ummæli hv. 3. þm. Reykv. falla dauð niður þar sem þau eru órökstudd. Hins vegar held ég, herra forseti, varðandi hina pólitísku og historísku hlið þessara mála að við þurfum annan fund og annan dagskrárlið.