Jöfnun á flutningskostnaði olíuvara

103. fundur
Þriðjudaginn 17. mars 1992, kl. 15:06:00 (4406)

     Guðni Ágústsson :
    Hæstv. forseti. Ég vil hér við 1. umr. um frv. um jöfnun á flutningskostnaði olíuvara mega mæla nokkur varnaðarorð til hæstv. viðskrh. og ekki síður til nefndarinnar sem málið á að grandskoða á næstu dögum og vikum. Jöfnuður, frelsi, jafnaðarmennska eru stór orð og mikilvæg í stjórnmálum heimsins, mikilvæg gagnvart fólkinu hvar sem það býr í veröldinni og hefur reynst okkur í fámenninu á Íslandi mikilvægara en nokkrum öðrum.
    Á örfáum sviðum hafa Íslendingar náð því að hér væri jöfnuður á verði, vöru og þjónustu burt séð frá því hvar einstaklingurinn býr, út við sjó eða inn til landsins. Yfir það hafa menn mjög farið í þessari umræðu. Að vísu er eðlilegt að slíkur jöfnuður nái ekki inn á mjög marga vöruflokka en þeim mun meira atriði er að verðjöfnun ríki á mikilvægum sviðum sem snerta mjög afkomu einstaklinga og fyrirtækja hvar sem þau eru staðsett, hvar sem fólkið býr í landinu.
    Því miður hefur það gerst á mörgum sviðum á liðnum árum að ójöfnuður hefur aukist eða verð á mikilvægri vöru og þjónustu vaxið landsbyggðarfólkinu í óhag. Þetta verð ég að játa enda þótt minn flokkur hafi svo lengi haldið um stjórnvölinn. Ég hefði viljað sjá mörg mál þróast með öðrum hætti en þau hafa gerst. Við teljum margir t.d. að sá ójöfnuður sem ríkir í rafmagnsverði valdi því að fyrirtæki eigi erfiðara með að staðsetja sig jafnvel í allra næstu bæjarfélögum við höfuðborgarsvæðið, jafnvel í bæjarfélögum sem standa á barmi orkulindarinnar sjálfrar. Þetta hefur verið margrætt í þingsölum. Yfir þetta hefur verið margfarið með viðskrh. að þetta skapar ójöfnuð í landinu. Þetta gerir það að verkum að fyrirtæki hafa ekki getað staðsett sig á svæðum eins og á Suðurlandi sem best eru fallin til búsetu á Íslandi.
    Ég veit að vilji margra þingmanna stendur til að verðjafna rafmagnið en það þarf að finna leiðir og þora að koma á jöfnuði. Því miður setjast menn ekki yfir þetta mikilvæga mál og þolinmæðin er á þrotum hvað þetta mál varðar á landinu því að allir segja: Við eigum þessa auðlind ekkert síður en þeir sem búa í margmenninu og við gerum kröfu til þess að við fáum sama verð og að hægt sé að staðsetja fyrirtækið með sama hætti í byggðarlögum okkar eins og á höfuðborgarsvæðinu. Það væri mannsbragur að því ef Alþfl. sæi sig knúinn til þess sem jafnaðarmannaflokk að taka á þessum ójöfnuði og höggva þar á hnúta, sem væri mjög auðvelt að gera, og mundi jafna mjög lífsaðstöðu fólks í landinu.
    Ég vil líka nefna hina sígildu umræðu um verð á matvöru áður en ég kem að frv. þó að sem betur fer sé verðjöfnun á mjólkurvörum. Nú blasir t.d. við að hvað varðar þann ójöfnuð sem ég minntist á í verslunum landsins að smávöruverslunin úti á landi er að kaupa vöruna á hærra verði af heildsöluverslununum í höfuðborginni en varan er seld á í ýmsum stórmörkuðum borgarinnar. Það gerðist hér á dögunum að landsbyggðarfyrirtæki, sem er í smásölu, fór inn í smásölufyrirtæki og keypti upp lagerinn. Það var kóklagerinn. Hvers vegna? Það fékk hann á lægra verði í smásöluversluninni hér en uppi í Coca Cola. Það eru alvarlegir hlutir að gerast í ójöfnuði í þessu landi. Þarna kemst samkeppnin upp með það að valda ójöfnuði milli fólks eftir búsetu. Þeir sem fjær búa og geta ekki annað fá á sig reikninginn og hækkað verð eða í þessu tilfelli er landsbyggðin látin greiða niður verðið þar sem samkeppnin ríkir og fjölmennið er. Þetta er glöggt dæmi og snýr kannski meir að þessu frv. sem hér er til umræðu en menn gera sér grein fyrir.
    Ég skal fara nokkrum orðum um frv. og helstu galla þess. Ég ætla ekki að efast um að ýmsir gallar hafa verið og eru á núverandi lögum um flutningsjöfnun sem þarf endurskoðunar við. Ég ætla ekkert að efast um að þar er ýmislegt sem má taka á og er sjálfsagt að sé tekið á. Ég hygg að vilji hæstv. viðskrh. standi til þess að bensínverð verði það sama um land allt. Og ég hygg að vilji hans standi líka til þess að hægt verði að halda uppi svipaðri þjónustu á öllum stöðum á landinu eða alla vega einhverri þjónustu. Hann leiðréttir mig ef ég fer ekki með rétt mál. Ég hygg að ráðherrann vilji draga úr ýmsu því sýnilega óhófi sem við blasir í glæsibyggingum olíufélaga og fjárfestingu í uppbyggingu afgreiðslustaða. En í hita leiksins verða menn þó að skoða alla fleti þessa máls og hvað gerist ef þetta frv. verður að lögum eins og það er nú.
    Í fylgiskjali með frv., sem er drög að reglugerð, eru þeir staðir nefndir sem ætlunin er að jafna flutningskostnað til. Þar blasir við mér undarleg sýn hvað mitt kjördæmi varðar og hér hefur verið nefnt, Suðurland. Hið stóra Suðurlandsundirlendi fær engan jöfnunarpunkt hvað bensínverð varðar, eitt allra kjördæma. Það er enginn jöfnunarpunktur til á því svæði í frv. Þar eru að vísu Vestmannaeyjar, sem eru eyjar úti í hafi, þar sem búa 5 þúsund manns og sjálfsagt að þær séu með. En Suðurlandsundirlendið allt saman er skilið eftir. Hvers eiga 20 þúsund íbúar á Suðurlandsundirlendi að gjalda, hæstv. viðskrh.? Liggur sökin í því að þeir hafa ekki kosið krata á þing? Á nú að refsa mönnum af því að svo stendur á að þar er enginn flokksmaður hæstv. viðskrh.? Ekki vil ég trúa því. Ekki vil ég trúa því að jafnaðarmennska hæstv. viðskrh. sé með þeim hætti að hann sé haldinn einhverri hefnigirni. Ég hygg að það sé siður margra manna að hugsa hlýtt til slíkra staða og reyna að gróðursetja þar góð blóm.
    Ég spyr: Hvers eiga þessir 20 þúsund íbúar að gjalda þegar jöfnuður fer allt í einu að snúast um hafnir en ekki fólk? Snýr jafnaðarmennska Alþfl. að höfnum en ekki fólki? Er réttlæti landsbyggðarþingmanna í Sjálfstfl. einnig bundið þeim hætti að menn eru sáttir af því að þeir heita 1. þm. Stykkishólms, því að þar er jafnað? En Búðardalur, Borgarnes eða uppsveitir Borgarfjarðar sitja á hakanum? Er þetta réttlætið? Eru þetta kaupin sem hafa verið gerð? Snúa þau bara að einhverjum sérstöðum og hinir skulu gleymast? Ég bið hv. þm. Sjálfstfl. að átta sig á því að frv. er fullt af götum, stórum götum, sem munu valda því að til mikilla vandræða kemur á landsbyggðinni. ( Gripið fram í: Hvernig jafnar Búnaðarbankinn?) Búnaðarbankinn jafnar verð um allt land. ( Gripið fram í: En hvað um vextina?) Það eru sömu vextir, það eru sömu víxilvextir. (Gripið fram í.) Það snýr ekki að okri í þeirri stofnun. Viðskiptamenn, hvort sem þeir eru á Langanesi eða í höfuðborginni, njóta sömu víxilvaxta, sama kostnaðar fyrir það sem þeir þurfa að borga

fyrir. Um okur er ekki að ræða í þeim efnum. En hitt er annað mál að ég er þeirrar skoðunar að verð sé of hátt, bæði hjá Búnaðarbankanum og öðrum. Við höfum leitast við að reyna að lækka verðið með samkeppni. En við látum ekki einhvern ,,svartan lýð`` einhvers staðar borga einan til að lækka verð fyrir hinn ,,hvíta meiri hluta`` eins og þetta frv. gerir. Þetta frv. ætlar að láta lítinn hluta landsmanna bera byrðar samkeppninnar í þessu máli eða verða af þjónustunni.
    Ég held að það sé mjög mikilvægt að fólkið í landinu fái bensín á sama verði um land allt, alveg eins og víxlarnir í Búnaðarbankanum eru alls staðar á sama verði. Því vil ég vænta þess að viðskrh. skoði reglugerðina með þá breytingu í huga að allir helstu verslunarstaðir við sjó njóti flutningsjöfnunar svo og helstu verslunarstaðir inn til landsins. Af hverju þarf að miða þetta við sjó? Af hverju eiga ekki helstu verslunarstaðir landsins að vera inni á þessu korti? Hvers á fólk að gjalda varðandi jöfnun ef það býr langt frá sjó og sinnir þar mikilvægum störfum?
    Svo ég víki að mínu kjördæmi, sem ekki er til á blaði hjá ríkisstjórninni í þessu máli, því miður ( Viðskrh.: Vestmannaeyjar.) nema Vestmannaeyjar, hæstv. viðskrh., enda er þar höfn. ( Viðskrh.: Hvað segja Vestmanneyingar ef þeir eru ekki á blaði hjá þingmanninum?) Þingmaðurinn sinnir Vestmannaeyjum allvel og ég hygg að taka mætti um það harða og snarpa umræðu enda datt alþýðuflokksmaðurinn út af þingi á Suðurlandi og áttu Vestmanneyingar þar stóran þátt því að þeir treystu ekki þeim nýja Alþfl. sem hér er risinn upp. (Gripið fram í.) Þeir kusu Selfyssinginn til þings en felldu kratann. Kannski var það af því að þeir höfðu fyrr en aðrir menn áttað sig á því að mikil breyting hefur orðið á Alþfl. --- Nú brosir presturinn að vanda minnugur þess að hann heldur uppi heiðri hins gamla Alþfl. við mjög svo breyttar aðstæður.
    Við skulum nú fara yfir Suðurlandskjördæmið. Það er, eins og hér hefur komið fram, mjög glöggt dæmi um þann ójöfnuð sem mundi hljótast af þessu máli. Öllu bensíni er ekið um landveg á það svæði héðan úr Reykjavík. Olíufélögin mundu sjá sig knúin til að draga verulega úr þjónustu á svæðinu því að það yrði um taprekstur að ræða, a.m.k. á öllum stöðum utan miðkjarnans á Suðurlandi. Þar yrði um taprekstur að ræða. Þess vegna hef ég farið fram á það að viðskrh. bindi sig ekki heljarböndum við hafnir heldur skoði það hvort ekki megi taka upp nokkra helstu verslunarstaði inn til landsins.
    Ég ætla að nefna annað dæmi til glöggvunar. Menn verðjafna sement í landinu, þeir fá sement á sama verði hvar sem þeir búa. Jöfnunarpunktur á sementi er t.d. á Laugarvatni. --- Hv. þm. Egill Jónsson kinkar kolli og er samþykkur því. --- En hvers á þetta byggðarlag að gjalda að fá ekki jöfnunarpunkt á bensíni? Hvort skyldi vera mikilvægara? Ég sé að hv. 1. þm. Vestf. er farinn að hugsa um Strandirnar undir þessum lestri mínum. Hvers eiga þeir t.d. að gjalda þar að vera ekki nálægt Patreksfirði eða Ísafirði? Hver á að bera ábyrgð á þeim ef þetta frv. nær fram? Það mun enginn sjá sig knúinn til að vera þar. Karlarnir verða kannski að láta þingmanninn, þegar hann kemur í kjördæmið, hafa með sér tunnu af olíu og tunnu af bensíni. Ef frv. nær fram að ganga mun það mörgu breyta á verri veg hér í landinu.
    Við skulum gá að því að ég var að tala við hv. 1. þm. Vestf. sem situr nú sem formaður í Byggðastofnun sem hæstv. ríkisstjórn er búin að höggva af hendurnar. Dettur þingmönnum Sjálfstfl. það í hug að olíufélögin verði hin nýja Byggðastofnun? Halda þeir að olíufélögin muni sjá sig knúin til að verða einhver Byggðastofnun á Íslandi? Dettur hv. þm. Eggert Haukdal það í hug að olíufélögin muni telja sig skyldug til að reka olíusölu og bensínstöð í Rangárvallasýslu sem skilar engum hagnaði, kannski tapi? Að þau verði hin nýja Byggðastofnun sem fari þar að tapa peningum? Ekki hvarflar það að mér. Olíufélögin eru hlutafélög í samkeppni og verði leikreglunum breytt í þá veru að heilu svæðin skili tapi eða núllrekstri munu þau hverfa burt af slíkum stöðum. Þau munu hámarka hagnað sinn á stórum stöðum og kæra sig kollótt um staði sem ekki njóta flutningsjöfnunar, staði sem þau sjálf þurfa að verðjafna til, fyrir utan það að þetta kæmi mjög misjafnlega við olíufélögin. Á því verða menn að átta sig. Það fer eftir því hvort sala þeirra á olíu og bensíni er jöfn um landið allt eða hvort mjög ólíkt hlutfall er á milli höfuðborgar og landsbyggðar, hvort þau versla mest þar sem fjöldinn er eða hvort þau hafa, í gegnum það kerfi sem hefur ríkt, lagt sig fram um að þjóna dreifðum byggðum. Þarna er mjög ójöfn aðstaða olíufélaganna. Ef hægt væri að fá ráðherra til þess að hætta að sveima hringinn í kringum landið með sjónum og helstu verslunarstaðir yrðu nefndir til sögunnar sem jöfnunarpunktar á bensíni og gasolíu, þá þyrfti að taka inn í myndina hvað Suðurland varðar ýmsa verslunarstaði. Það yrði að vera punktur á Kirkjubæjarklaustri. Það yrði að vera punktur í Vík, og á Hvolsvelli. Þá sé ég að hv. þm. Eggert Haukdal hugsar sem svo: Þá verðum við að fá hann á Hellu líka. Laugarvatn yrði að vera með svo ég tali ekki um Selfoss og Hveragerði. Þetta er ekki flókið mál. Eins yrði að vera um allt land. Hvers eiga Egilsstaðir að gjalda, hv. þm.? Hvers eiga Egilsstaðir að gjalda í þessu máli? ( Gripið fram í: Þeir eru ekki í hættu.) Þeir eru í ákveðinni hættu, miðstöð hins mikla kjördæmis, Austurlandskjördæmis. Þar yrði ekki flutningsjöfnunarpunktur.
    Ég vil biðja hv. stjórnarsinna að íhuga málið dálítið út frá þeim sjónarmiðum sem ég hef hér rætt. Það er ekki gefið að olíufélögin haldi áfram á þeim stöðum þar sem þau hafa verið. Það kemur aldrei til að þau verði hin nýja Byggðastofnun Íslands, þau eru rekin með allt öðrum hætti. Ég hygg að það sé öllum mikilvægt að verðið sé hið sama um allt land. Ég held því miður að þingmenn Sjálfstfl. horfi blindum augum á 10. gr. frv. sem þeir trúa að muni leysa þennan vanda. Það er mín skoðun að þar sé mikill misskilningur á ferð.
    Ég minntist á sementið áðan. Ef við búum til þessi göt í olíudreifingarkerfinu skulum við hugsa

um þessar tvær vörutegundir. Það er auðvelt að flytja sement á hvaða bíl sem er og sækja það langar leiðir. En olíuvörur eru fluttar með allt öðrum hætti. Ef menn verða að baksa í því hver og einn, sem mér finnst líkur á ef þetta frv. nær fram að ganga, að sækja sína olíu við misjafnar aðstæður, mundi af því hljótast hætta og hæstv. umhvrh. mundi kannski ekki heldur leyfa slíka flutninga.
    Ég hef farið yfir helstu atriðin sem ég vil að menn skoði betur. Ég vænti þess að sú þingnefnd sem fjallar um málið sjái sér fært að kanna vel hvort þessi málflutningur, sem ég hef hér haft í frammi eftir að hafa skoðað málið mjög rækilega, eigi ekki við einhver rök að styðjast. Menn hafa ekki séð þá lausn sem sjálfstæðisþingmenn hafa séð í 10. gr. Það liggur fyrir að menn hverfa með þjónustuna. Hér var t.d. minnst á stað áðan. Hv. 4. þm. Norðurl. e. minntist á mikla uppbyggingu olíustöðva víða um land og nefndi sem dæmi að Shell væri að byggja upp mikið hof á Selfossi. Hæstv. viðskrh. kallaði fram í og sagði að það stafaði af flutningsjöfnuninni sem verið hefði. En skyldi ekki annað sjónarmið vera á ferðinni? Það munu allir leggja sig fram um að komast þar sem fjöldinn er og koma sér þar fyrir. Miðað við boðskap ráðherrans og frv. munu menn draga að sér höndina, draga sig burt, segja upp þjónustu fjær og setja sig niður þar sem þéttbýlið er. Því er Selfoss í þessu tilfelli hin mikla miðstöð þar sem menn vilja vera og láta fólkið í kjördæminu sækja þjónustuna langt að. Hvað varðar olíufélag um það þótt einhver aðili á Laugarvatni verði í hvert sinn að fara niður á Selfoss til að fylla bensíntankinn sinn? Þeir munu bara segja: Þú býrð við þessar aðstæður, vinur. Við ætlum ekki að tapa á þér. Sama er að segja um Flúðir. Ég er ekki að segja að þeir mundu ekki vera á einhverjum stöðum á svæðinu en líkurnar eru eigi að síður þessar. ( Gripið fram í: Er skylda til þess núna?)
    Hv. 1. þm. Vesturl. er einn þeirra sem rétt eru að byrja að átta sig í þessu máli. Nú hefur hann loksins gert sér grein fyrir því að það eru fleiri til á Vesturlandi en þeir sem búa í Stykkishólmi. Þeir eru uppi í Búðardal og í héruðum Borgarfjarðar. Einhverjir búa í Borgarnesi. Þess vegna vænti ég þess að hinn ungi, snarpi þingmaður sjái til þess að í sínum lýðræðislega þingflokki stöðvi menn þá hugsun hæstv. viðskrh. að sveima bara hringinn í kringum landið og stíga hvergi á land, miða bara við einhverjar hafnir sem auðvitað eru mikilvægar. En auðvitað eru það helstu verslunarstaðir landsins sem á að miða við í þessu dæmi. Ég vænti þess að hv. 1. þm. Vesturl. verði þar duglegur málsvari og jafnaðarmaður, maður byggðanna á Íslandi sem þorir að taka á málinu. Málflutningur þessa hv. þm. hefur verið furðulegur, svo og hv. 3. þm. Vestf. Einars Kr. Guðfinnssonar sem ekki er hér í dag og ég ætla þá ekki að ræða við. En þeir hafa verið haldnir ákveðnum misskilningi sem ég er sannfærður um að mun leiðréttast um leið og þeir hafa áttað sig á þessu stóra máli.
    Ég hygg að viðskrh., sem er reyndur félagsmálamaður og vill sjá dálítið stórt, hann vill horfa út um stóra glugga þegar honum er mikið í hug, sjái öll litlu börn þessa þjóðfélags. Hann gleymi ekki heilum kjördæmum, heilum fjölskyldum sem vilja lifa í sátt þar sem þær eru fyrir og að þær fái að njóta jafnaðarmennsku hans með því að punktarnir verði upp til landsins ekki síður en út til hafnanna.