Vernd og veiðar á villtum fuglum og spendýrum

103. fundur
Þriðjudaginn 17. mars 1992, kl. 17:30:00 (4417)

     Ingi Björn Albertsson (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Ég þakka ráðherra fyrir svör hans. Ég saknaði þess þó að fá ekki svar við einni af stærri spurningunum, þ.e. um kostnað vegna eftirlits og leyfa og vegna framkvæmdanna á þessum lögum. Ef virðulegur formaður umhvn., sem hefur nokkuð hátt hér í hliðarherbergi, heyrir orð mín þá hvet ég hann til þess að leggja í þá vinnu að kostnaður vegna framkvæmda þessara laga verði kannaður sérstaklega.
    Ég vil leiðrétta ráðherrann vegna þess að mér þótti koma fram í svari hans að hann hefði sennilega ekki lesið 10. gr. vegna þess að hann gerði athugasemd við það að ég hefði verið að tala um að ef veiðimaður skyti bráð á landi landeiganda, það sagði ég aldrei. ( Umhvrh.: Elti inn á land.) Já, það sagði virðulegur ráðherra ekki áðan. Hann getur fengið útskrift á því, en þá er búið að útskýra þann misskilning og þá stendur það náttúrlega eftir enn þá að greinin er alveg jafnfáránleg og ég sagði og lýsti hér áðan.
    Varðandi það sem hv. þm. Kristín Ástgeirsdóttir sagði að þá nefndi ég engar tegundir. Ég sagði einfaldlega að ef hægt væri að breikka veiðitegundir, eða hvernig sem ég orðaði það í síðustu ræðu minni, þá væri það fagnaðarefni. Ég nefndi aldrei neina lóu eða spóa eða neitt slíkt. Ef það hins vegar er hægt þá fagna ég því. Ég veit ekki betur en við séum að því í sjávarútveginum að leita allra leiða til að finna nýjar tegundir dýra til að draga á land og gera úr því peninga. Ég sé ekkert því til fyrirstöðu að það megi ekki vera fuglar eins og fiskar. En ég ætla ekki að nefna neinar tegundir. Ég veit ekki um neina tegund sem við getum nýtt yfir höfuð, en ég fagna því ef það eru einhverjar slíkar.
    Varðandi veiðikortin vil ég segja að þar koma gömlu góðu íslensku rökin, að ef eitthvað er til í útlöndum þá hlýtur það að vera gott. Bara ef það er til í útlöndum þá er það nógu gott fyrir Ísland. Fyrst það er til í Grænlandi, Ameríku eða einhverju landi þá skulum við gera eins, við þurfum ekki einu sinni að skoða það. Bara útlenskt, þá gengur það. Hver á fuglana? sagði svo ráðherrann. Hver á fuglana? Hver á farfuglana? Hver á gæsirnar? Hver er að skjóta þær niður? Það eru aðallega Skotarnir, það eru ekki við.
    Aðeins í lokin, virðulegi forseti, af því að ráðherrann minntist hér á 50 m markið og sagði að það væri til þess að menn væru ekki að skjóta úr bílum eða í skjóli við bíla. Ég þekki ekki 50 m breiðan bíl, en ef þetta er það sem löggjafinn er að tala um þá er allt í lagi, setjum það bara í lögin. Það er bannað að skjóta úr bílum eða upp við bíl innan við 2--3 m. Taka þá þessa vitleysu út.