Vernd og veiðar á villtum fuglum og spendýrum

103. fundur
Þriðjudaginn 17. mars 1992, kl. 17:33:00 (4418)

     Umhverfisráðherra (Eiður Guðnason) (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Spurt er um kostnað við eftirlit. Það stendur ekki til að fara að margfalda eftirlit eða setja einhverjar sérstakar eftirlitssveitir á stofn til að hafa eftirlit með veiðimönnum. Það er þáttur í hlutverki löggæslunnar sem þegar er fyrir hendi og hefur sjálfsagt einhvern kostnað í för með sér. Eftirlitið verður kannski svolítið öðruvísi ef þetta yrði að lögum.
    En það sem hv. þm. sagði að það væru ekki rök, gamla góða íslenska rökvísin um að ef það er í útlöndum, þá ætti það að vera hér. Það hefur verið svo að flest sem gerist í útlöndum gerist líka hér, hvort sem það er gott eða slæmt, og marga fyrirmynd í löggjöf höfum við sótt okkur í löggjöf annarra landa og ég sé ekkert athugavert við það. Hins vegar held ég að það sé mjög nauðsynlegt að við séum á sama báti og aðrar þjóðir, að við höfum nokkurn veginn sömu lög og sömu reglur og fylgjum sömu siðfræði að því er varðar umgengni í náttúrunni, viðhorf gagnvart umhverfinu, en um það geta menn auðvitað haft aðrar skoðanir og ég er alveg tilbúinn til að virða það þótt ég sé því hjartanlega og innilega ósammála.