Vernd og veiðar á villtum fuglum og spendýrum

103. fundur
Þriðjudaginn 17. mars 1992, kl. 17:35:00 (4419)

     Ingi Björn Albertsson (andsvar) :
    Virðulegi forseti. Auðvitað er alveg ljóst að mig og virðulegan ráðherra greinir verulega á um þetta mál og eftir stendur að allt sem frá útlöndum kemur sé gott.
    En mér þótti athyglisvert í svari ráðherrans að ekki á að hafa neitt sérstakt eftirlit með þessu. Lögreglan á að fylgja þessum þætti eftir og sjá um að þessum lögum sé framfylgt. Ég vil þá spyrja að því hvort samráð hafi verið haft við lögregluna. Hefur lögreglan gert sér einhverja grein fyrir því hvernig hún ætlar sér að standa að þessu máli? Ég get ekki séð í umsögnum um þetta frv. að lögreglan hafi verið höfð með í ráðum. Það má vel vera að svo sé. En ég á erfitt með að sjá lögregluna, eins og hún er vanbúin þessa dagana og undirmönnuð, flengjast upp á fjöll og firnindi til þess að eltast við skotveiðimenn og fá að sjá skírteini þeirra eða veiðikort eða hvort þeir eru búnir að veiða rétt magn, hvort þeir eru komnir yfir kvótann, hvort þeir eru á farartæki, hvort þeir skjóta innan við 50 m frá farartæki eða hvernig þetta á allt að vera. Ég vildi gjarnan vita hvort lögreglan er búin að taka afstöðu til þessa máls og gera sér grein fyrir hvernig hún ætlar að framfylgja þessum lögum.