Sinubrennur

103. fundur
Þriðjudaginn 17. mars 1992, kl. 18:50:00 (4436)

     Jóhann Ársælsson :
    Virðulegur forseti. Ég fagna því frv. sem hér er komið fram um sinubrennur og meðferð elds á víðavangi. Ég tel að rétt að setja ný lög þar sem það er fortakslaust bannað einfaldlega vegna þess að það eru komnar á og eru í gangi ákveðnar aðferðir eða venjur í sambandi við meðferð elds á víðavangi. Ef breyting á að verða á held ég að setja þurfi ný lög og fara með mjög ákveðnum hætti í að framfylgja þeim. Ég held að það sé hárrétt tekið á málinu með því að banna þetta en gefa hins vegar þeim ábúendum jarða og umráðamönnum óbyggðra jarða einum möguleika til að fá leyfi til að brenna sinu. Ég held að það sé nauðsynlegt að gera en ég vil reyndar vara við því, sem mér fannst koma fram hjá hæstv. umhvrh. eða ég skildi hann þannig, að það gæti komið til greina að menn fái ótiltekið leyfi. Mér finnst það þurfi að vera í föstum skorðum hvernig með þetta er farið. Ég tel að það þurfi að gerast þannig að þeir sem fá leyfi til sinubrennu kveiki sinuelda í samráði við t.d. hreppstjórann sem hefði umboð sýslumanns í viðkomandi sveitarfélagi til að fara með þessi mál. Hreppstjóri hefði þá alfarið þessi mál á sínum höndum. Ekki væru kveiktir eldar nema í samráði við hann. Út af fyrir sig held ég að það hljóti að vera nægilegt að það samráð fari fram í gegnum síma þegar viðkomandi aðilar hafa hvort eð er leyfi til að brenna sinu. Þeir geta haft samráð við sinn hreppstjóra og látið hann vita að nú vilji þeir brenna. Ef hann hefur ekki neitt við það að athuga vegna veðurfars eða annarra aðstæðna þá gangi það fyrir sig eins og landeigandi eða umsjónarmaður lands vill. Það vil ég að komi fram vegna þess að í tímans ráð geta aðstæður breyst og hættur geta myndast af sinueldum á landi þar sem engar hættur eru kannski í dag. Það getur verið að menn fari að rækta skóga nálægt því landi eða eitthvað annað breytist í mannvirkjagerð eða náttúrunni sem menn sjá ekki fyrir þegar leyfin eru gefin.
    Þetta voru kannski helstu atriðin. Mér finnst þetta vera einfalt mál og ég er sammála því að það megi og eigi að gera þetta með reglugerð vegna þess að ég tel að möguleikar verði að vera á að breyta reglunum og ástæðulaust sé að breyta lögum ef menn telja að lagfæra þurfi eitthvert atriði í framkvæmdinni.
    Mér finnst mjög mikilvægt að ekki sé gefið eftir strax í upphafi. Þessi mál eru í miklum ólestri og kannski er ekki öllum það jafn vel ljóst að verulegir skaðar hafa orðið víða af sinueldum. Ég hugsa að það sé varla hægt að finna þéttbýli þar sem sinubrennur fara á annað borð fram þar sem ekki hafa orðið töluverðir skaðar af slíkum brennum. Brunnið hafa skógarreitir og mannvirki af ýmsu tagi. Það er satt að segja aldeilis ómögulegt að halda aftur af brennufólki sem fer á stjá þegar bændur byrja að kveikja elda á vorin. Ég held að ekkert nema það að banna þetta alfarið og að slökkviliðinu sé beitt á hvern blett sem venja er að kveikja á eld geti stöðvað þetta. Meðan það er venja að kveikja í einhverjum svæðum á landinu eins og nú er þá verður erfitt að halda aftur af þeim unglingum og krökkum, eins og ég sagði áðan, sem hafa gaman af því að kveikja þessa elda.
    Ég hef í sjálfu sér ekki neina tillögu hér um að breyta einhverju í sambandi við frv. Ég vona að sú nefnd sem fer yfir málið muni skoða hvort einhver sértök vandamál séu á ferðinni. En vegna þeirrar andstöðu sem mér fannst koma fram áðan tel ég ástæðu til að láta það koma fram að ég sé ekki annað en að það þurfi þessa breytingu til að þær venjur sem eru í gangi núna verði aflagðar. Það þarf í framhaldinu að taka dálítið myndarlega á þegar frv. verður að lögum, sem vonandi verður, og fylgja málinu strax eftir þannig að þær óvenjur sem hafa verið í gangi verði lagðar af.