Endurskoðun iðnaðarstefnu

103. fundur
Þriðjudaginn 17. mars 1992, kl. 21:32:00 (4444)

     Viðskiptaráðherra (Jón Sigurðsson) :
    Virðulegi forseti. Það er vissulega rétt athugað hjá flm. till., hv. þm. Stefáni Guðmundssyni, að atvinnuvegir þjóðarinnar standa nú á krossgötum. Bæði er nauðsynlegt og skynsamlegt að endurmat á stefnu okkar í atvinnumálum fari fram og þar með á iðnaðarstefnunni. Að slíku endurmati er nú unnið í iðnaðar- og viðskiptaráðuneyti, m.a. í samvinnu við hagsmunaaðila. Þar er t.d. unnið að margvíslegri gagnasöfnun sem leggja þarf til grundvallar mótun nýrrar stefnu. En ég vildi líka, virðulegi forseti, benda á að það þarf að meta af raunsæi hverju fyrri stefnumótun stjórnvalda, sem til var vitnað af hv. flm. þessarar till. og kemur fram í grg. hennar, hafi fengið áorkað, t.d. sú stefna sem vitnað var til frá árinu 1978.
    Nefndarskipun, eins og gerð er hér tillaga um, kemur vissulega til greina þegar málið er komið lengra en ég bið þingheim að hafa í huga að reynslan af slíkum nefndarstörfum hefur oft verið næsta blendin. Ekki er tilefni til þess við þessa umræðu að ræða í einstökum greinum í hverju ný stefnumótun í iðnaðarmálum ætti að vera fólgin, reyndar tel ég að best sé að láta verkin tala.
    Reynslan undanfarin ár hefur því miður verið sú að stjórnvöld hafa verið um of bundin af vandamálum sem eiga rætur í fortíðinni og oft stafa af því að fyrirtæki hafa ekki gætt nægilega vel að breytingum í umhverfi sínu. Af þessum ástæðum hafa stjórnvöld of lítið sinnt framtíðarþróun og nýsköpun í atvinnugreinum. M.a. er mikilvægt að huga að því að þeim, sem vilja stofna ný fyrirtæki, sé gert það sem auðveldast því sannleikurinn er auðvitað sá að framfarir í atvinnumálum okkar verða á vegum fyrirtækja.

Einnig þarf að huga sérstaklega að starfsskilyrðum smáfyrirtækja og samstarfsmöguleikum þeirra, m.a. því sem oft er nefnt fyrirtækjanet.
    Sannleikurinn er sá að Íslendingar þekkja vel það sem heitir á nútímamáli fyrirtækjanet úr eigin atvinnusögu. Þar nægir að nefna samvinnufélögin og ég bendi líka á samtök fyrirtækja í útflutningi sem eru hér gamalgróin. Þau samtök og það starf hafa einmitt sameinað kosti sérhæfingar fyrirtækja og yfirráða heimamanna yfir þeim og samtök um verkefni sem menn leysa betur saman. Þetta eru fyrirtækjanet eins og í Sölumiðstöð hraðfrystihúsanna og í því fyrirtæki sem nú heita Íslenskar sjávarafurðir. Og þótt dæmið frá Emilia Romagna á Norður-Ítalíu geti verið allra góðra gjalda vert þá hygg ég að Íslendingar hafi riðið fyrirtækjanet án þess að vita af því eins og maðurinn sem talaði prósa allt sitt líf án þess að átta sig á því. Þetta segi ég ekki af því að við þurfum ekki að hyggja að lausnum af því tagi á sviði iðnaðar, það er líka gert.
    Einmitt nú stendur yfir verkefni sem hefur verið kallað ,,Málmur '92`` sem byggist á samstarfi fyrirtækja í málmiðnaði, líkt samstarfsverkefni um hagræðingu og eflingu fyrirtækja í húsgagnaiðnaði stendur einmitt yfir, hvort tveggja með þátttöku iðnrn. Ég vildi, virðulegi forseti, láta þess getið að fulltrúi iðnrn. tók þátt í því ferðalagi, sem hv. þm. Stefán Guðmundsson vitnaði hér til áðan í sinni ræðu, til Ítalíu til þess héraðs sem hefur getið sér gott orð fyrir öflugt samstarf smárra fyrirtækja.
    En mikilvægt er að huga að þessu með öðru og hafna ekki lausnum sem byggja á því sem augljósast er að geti orðið okkur til framdráttar sem er frekari nýting orkulindanna. Þetta tvennt saman getur gefið okkur mikla möguleika.
    Það er rétt sem kemur fram í grg. með þeirri þáltill. sem við erum að ræða að samningarnir um Evrópskt efnahagssvæði kalla á nýtt átak í atvinnumálum. Þar hlýtur að vera efst á baugi að samræma starfsskilyrði iðnaðar því sem gengur og gerist í öðrum ríkjum á hinu mikla sameiginlega markaðssvæði 380 milljón manna. Reyndar er alls ekki nóg að iðnaðurinn hafi jafngóð skilyrði, hann þarf að hafa rekstrarumhverfi sem veitir honum betri vaxtarskilyrði en erlendir samkeppnisaðilar njóta.
    Ég vil líka benda á að það er satt að segja merkilegt hversu vel iðnaðurinn hefur haldið hlut sínum á fríverslunartímanum frá 1970 í þjóðarframleiðslu og útflutningi og ég held að menn ættu að huga vandlega að þeirri tveggja áratuga þróun áður en þeir fella dóma um það hvernig íslenskum iðnaði hafi vegnað við skilyrði frjálsrar samkeppni. Ég tel að þar sé margt afar vel af hendi leyst og hafna úrtölum í því sambandi. En það er rétt, við þurfum að veita iðnaðinum enn betri rekstrarskilyrði því aðeins þannig mun hann taka þann fjörkipp sem þjóðinni er nauðsynlegur. Mér finnst eðlilegt, virðulegi forseti, að hv. iðnn. fjalli um þessa þáltill. í þeim anda.