Endurskoðun iðnaðarstefnu

103. fundur
Þriðjudaginn 17. mars 1992, kl. 21:56:00 (4448)

     Kristinn H. Gunnarsson :
    Virðulegi forseti. Það hefur verið afar athyglisvert að hlýða á hæstv. iðnrh. í umræðunni og sérstaklega varnaðarorð hans og efasemdir um gagnsemi nefnda. Ég minnist þess að hæstv. iðnrh. hefur um nokkurt skeið haft í gangi nefnd sem á að fjalla um vanda dreifbýlisverslunarinnar og bólar ekkert á neinum niðurstöðum eða úrræðum úr því nefndarstarfi. Ég minnist þess að hæstv. iðnrh. setti á fót nefnd til að fjalla um skipasmíðaiðnaðinn á Ísafirði og hafði þrjá valinkunna menn í þeirri nefnd. Niðurstaðan af því nefndarstarfi varð sú að allt fór á öfugan veg, því miður. Ég get því vel tekið undir og skilið áhyggjur hæstv. iðnrh. af nefndarstörfum í ljósi þessarar reynslu og kannski enn frekar ef maður hefur í huga reynslu hans af nefndarstörfum varðandi álver sem virðst ævinlega renna úr greipum manna hversu kröftugar og aflmiklar nefndir sem menn hafa í gangi til þess að fanga þann vinning.
    Ég vil þó segja um það mál sem hér er til umræðu að ég vil taka undir efnisatriði þessarar þáltill. Ég tel að það sé orðið tímabært að hreyfa þessum málaflokki af hálfu hins opinbera og í samráði við hagsmunaaðila og koma á hreyfingu einhverju markvissu starfi til að komast út úr þeirri sjálfheldu sem íslenskur iðnaður virðist að mörgu leyti vera í og þeirri kyrrstöðu sem verið hefur um nokkurt árabil í mörgum iðngreinum. Ég verð að lýsa yfir vonbrigðum mínum með það að hæstv. iðnrh., sem er búinn að vera í því starfi frá 1987, skuli ekki hafa haft meiri kraft í þessum efnum en raun hefur borið vitni. Ég bendi á stöðu skipasmíðaiðnaðarins. Þar hefur hæstv. ráðherra sagt opinberlega að menn ættu að fara til útlanda til að finna aðila til að smíða skip fyrir Íslendinga. Menn ættu að fara til útlanda og nýta sér það að skipta við ríkisstyrktar verksmiðjur sem greiða kostnaðinn niður. Ég er ekki alveg viss um að allir séu sammála þeirri stefnu hæstv. ráðherra að búa svo um hnútana að heldur betur hefur hallað undan fæti hjá íslenskum skipasmíðaiðnaði vegna þess að hann getur auðvitað ekki keppt við þessi skilyrði. Ég hefði frekar haldið að það væri hlutverk íslenskra stjórnvalda að a.m.k. draga úr mismun á milli landa þannig að innlendir aðilar væru ekki í óheilbrigðri samkeppni við útlendinga. Hið gagnstæða er hins vegar staðföst stefna hæstv. iðnrh., að menn eigi að kaupa eplið á lágu verði þegar það gefst og hugsa ekki til þess tíma þegar menn hætta að selja það ódýrt í útlöndum.
    Ég vil minna á það að snemma í haust lögðu þingmenn Alþb. hér fram beiðni um skýrslu, 24. mál. Ég vil nota tækifærið og inna hæstv. ráðherra eftir því hvað líður svörum við þeirri skýrslu sem beiðni var lögð fram um snemma í október. Það er kannski að gefnu tilefni sem ég minnist á þetta því að um daginn hafði forseti þau orð þegar beðið var um skýrslu ráðherra í tilteknu máli að menn ættu að fara að þingsköpum, nýta sér þau og biðja skriflega um skýrslu. En það er ekki efnilegt fyrir þingmenn sem vilja hreyfa þörfum málum ef þeir eiga að fara þá leið og engin önnur er fær en að biðja skriflega um skýrslu. Það dugar ekki að bíða mánuðum saman. Ég hygg að komnir séu upp undir sex mánuðir síðan beiðni um þessa skýrslu var lögð fram. Það bólar ekkert á svörum. Fróðlegt væri að heyra í hæstv. ráðherra hvenær von er á umbeðnum svörum þannig að þingmenn geti farið að hugsa til þess að ræða þennan málaflokk.
    Ýmsar gagnlegar upplýsingar koma fram í þessari beiðni um skýrslu frá því í október sl., upplýsingar sem ástæða er til að hafa nokkrar áhyggjur af. Þar kemur t.d. fram að vinnuafl í iðnaði, flokkað eftir iðngreinum, hefur ekki þróast eins og menn vildu gjarnan í mörgum tilvikum. Ég nefni sem dæmi skipasmíði og skipaviðgerðir. Þar voru árið 1981 1.043 ársverk en árið 1989 voru þau komin niður í 728 ársverk. Ég hygg, þó að ég hafi ekki tölur fyrir mér í því, að þeim ársverkum hafi fækkað frá 1989 til dagsins í dag og að sú fækkun sé umtalsverð. Það er iðnaðarstefna Alþfl. ( Gripið fram í: Er hún til?) Hún er til í þessum tölum.
    Ég nefni líka fatagerð. Árið 1981 voru 1.117 ársverk í fatagerð. Árið 1989 voru þau komin niður í 504. Hrunið varð árið 1987. Þetta er iðnaðarstefna Alþfl. í fatagerð. Ég nefni líka húsgagnagerð og innréttingasmíði. Nokkur áróður hefur verið rekinn fyrir því í gegnum árin að menn versluðu við innlenda aðila, keyptu innlenda framleiðslu. En það hefur kannski ekki dugað til. Þegar flest var, samkvæmt því yfirliti sem ég hef frá 1975, voru 1.859 ársverk í þessari atvinnugrein árið 1978. En 1989 eru 1.048 ársverk, fækkun um liðlega 800. Og fækkunin verður fyrst og fremst á árinu 1984 og síðar. Það er greinilegt að einhver brotalöm gerir það að verkum að við höldum ekki sjó í þessum mikilvægu atvinnugreinum, við höldum ekki okkar hlutdeild í íslenskum markaði. (Forseti hringir.)
    Virðulegur forseti. Ég gleymdi mér alveg. Ég biðst afsökunar á því að hafa ekki munað eftir því að tíminn er búinn. Ég vil ljúka þessu með því að nefna dæmi um hlutdeild í innlendri framleiðslu. Það er dæmi um íslenska vöru, kaffi, vöru sem unnin er hér innan lands, virðulegi forseti, og það skulu vera mín lokaorð. Hlutdeild innlendrar kaffiframleiðslu var 93,5% árið 1978 en var komin niður í 41% árið 1991.